Heimildarmyndin Woolly fjallar um kjör bænda í Noregi en þar fer eitt býli forgörðum á degi hverjum um þessar mundir.
Heimildarmyndin Woolly fjallar um kjör bænda í Noregi en þar fer eitt býli forgörðum á degi hverjum um þessar mundir.
Mynd / RIFF
Menning 26. september 2024

Síðasta sauðfjárbúið

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Á RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, verða búskipti í uppsveitum Noregs til umfjöllunar.

Heimildarmyndin Woolly eftir Rebekku Nystabakk fjallar um ungar konur sem flytja á ættaróðalið úti á landi til að bjarga búrekstrinum og koma í veg fyrir að jörðin fari í eyði. Þær kunna þó hvorugar til verka.

Rebekka Nystabakk, leikstjóri og handritshöfundur Woolly, vildi bregða ljósi á kynslóðaskipti í búskap og mikilvægi hans í fæðuöryggi þjóðar.

„Woolly er mynd um fjölskyldu mína og sveitabæinn þar sem ég ólst upp,“ segir Rebekka, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar. „Sagan fjallar um hvernig búskapurinn og þekkingin sem honum fylgir skiptir um hendur, frá foreldrum mínum og yfir til systur minnar og mágkonu. Mig langaði ekki að segja sögu um skrýtið fólk á skrýtnum stað heldur skapa pláss fyrir blæbrigði og komast undan rómantískum hugmyndum um sveitasælu eða brauðstrit bænda,“ segir hún.

Vanmetið framlag bænda

Í kvikmyndinni fylgist leikstjórinn Rebekka með systur sinni, Rakel, taka við búi foreldra þeirra, fjórðu kynslóð fjölskyldunnar sem rekur búið. Áhorfandinn fylgist með fyrsta árinu í búskap Rakelar og eiginkonu hennar, á bænum þar sem systurnar ólust saman upp, og sem þar að auki er síðasta starfandi sauðfjárbúið í þorpinu.

Rebekka er menntuð og starfandi leikkona í kvikmyndum og á sviði og Woolly er leikstjórnarfrumraun hennar. Hugmyndin að heimildar- myndinni kviknaði í samtali þeirra systra um sjálfbærni, staðbundna matvælaframleiðslu, og hið mikilvæga en oft vanmetna framlag bænda til samfélagsins. Rebekka segir að sauðfjárbúskapur sé langt í frá arðbær búgrein í Noregi og þar þurfi flestir bændur, og ekki bara sauðfjárbændur, að hafa annað aðalstarf til hliðar við bústörfin.

Rakel Nystabakk, tónlistarkona og nú bóndi, tókst með konu sinni á við áskoranir sauðfjárbúsins frekar en að sjá það hverfa. Hún er fjórða kynslóð fjölskyldunnar til að reka býlið.
Lokaafurðin önnur en hugmyndin

Eftir að Rakel ákvað, ásamt eiginkonu sinni, að taka við búi foreldra þeirra Rebekku, ræddu þær systur mikið um kjör bænda og framtíð sauðfjárbúsins. Það var í einum af þessum samtölum sem annarri systurinni varð svo að orði að þetta væri nú allt saman bara efni í bíómynd.

Eftir því sem búskiptin nálguðust fann Rebekka að þetta væri of spennandi efni til að láta það sleppa úr greipum sér. Jafnframt grunaði hana að fyrir dramatúrgíu svona heimildarmyndar þyrfti að fanga á filmu búskiptin sjálf og fyrstu skrefin í búskapnum. Úr varð að Rebekka keypti sér upptökuvél. Leikstýran segir að það hafi verið stórt stökk að ákveða að byrja, því hún sé ekki einu sinni týpan sem tekur mikið af myndum á snjallsímann sinn, hvað þá kunni á upptökuvél. Engu að síður hófst hún handa við upptökur og góður hópur fólks myndaðist smám saman kringum verkefnið. Framleiðendur, styrktaraðilar og fagfólk slógust í hópinn, lögðu sín lóð á vogarskálar en þá afhjúpuðust einnig ýmsir þræðir í sögunni sem Rebekka segist ekki hafa séð fyrir í byrjun.

Myndin sem Rebekka lagði upp með að búa til var fyrst og fremst pólitísk frásögn um kjör bænda í hverfandi landbúnaðarstétt, en í Noregi er brottfall úr bændastéttinni á því stigi að segja má að einu búi sé brugðið á hverjum degi. Þegar fyrsta þriggja mínútna sýnistikla myndarinnar var tilbúin var Rebekka hissa að heyra klipparann segja að myndin hennar væri ástarsaga: saga um ást innan fjölskyldunnar, ást á landinu og ást á sjálfum rollunum. Hún bætir líka við að heimildarmyndin sé mun fyndnari, hjartnæmari og skemmtilegri en hún hafði ímyndað sér í upphafi.

Sveitin sem hinsegin rými

Annar þráður í myndinni er svo sú staðreynd að Rakel, systir Rebekku, er gift konu. Rebekka segir að eftir sumar sýningar séu áhorfendur forvitnir um hvernig samkynja pari sé tekið í sveitinni og vilji vita meira um þann hluta sögunnar.
Rebekka segir hins vegar einfaldlega ekki frá svo miklu að segja hvað það varðar. Íbúarnir í sveitinni séu fyrst og fremst ánægðir og fegnir að ungar konur eins og systir hennar og mágkona velji að flytja aftur í sveitina á fullorðinsaldri. Vissulega væri Woolly allt öðruvísi heimildarmynd ef hún fjallaði um ungan son sem væri að taka við búi föður síns ásamt konu sinni og barni, en það væri einfaldlega önnur saga með öðrum áherslum.

Þrátt fyrir að hinseginleiki systur hennar sé ekki aðalumfjöllunarefni myndarinnar, má segja að hann spegli hlutskipti sveitarinnar á sína vísu. Ekki þarf að líta meira en tvær kynslóðir aftur í tímann til að finna samfélag þar sem meirihluti norsku þjóðarinnar starfaði við landbúnað. Í dag eru bændur hins vegar minnihluta- og jafnvel jaðarhópur í Noregi, sem oft vill verða ósýnilegur í þjóðfélagsumræðunni. Enn fremur fjallar myndin Woolly um nauðsyn þess að varðveita ekki bara gamlar hefðir eins og á minjasafni, heldur að aðlaga þær að nýja tímanum til að geta betur fært þær inn í framtíðina. Það á jafnt við um inngildingu í minni samfélögum og það hvernig bændur beita sér við verkin á bænum án þess að fara illa með bakið á sér.

Fjallar um kjör bændastéttarinnar

Í Noregi hefur Woolly, eða Sau upp á norskuna, hlotið skínandi móttökur á kvikmyndahátíðum og almennum sýningum, en ekki síst í sérstökum ferðabíósýningum þar sem myndin er sýnd í skólum og félagsheimilum í uppsveitum Noregs þar sem ekki eru starfandi kvikmyndahús. Yfir þrjátíu þúsund Norðmenn hafa séð myndina og um þessar mundir ferðast Rebekka með myndina milli grunn- og menntaskóla í Noregi, sem Rebekka er hæstánægð yfir, því með myndinni vildi hún efna til samtals milli landsbyggðanna og borganna, sem og ólíkra kynslóða, um framtíð kvikfjárræktar í Noregi.

Rebekka mun verða viðstödd tvær af þremur sýningum myndarinnar á RIFF, 27. og 28. september, þar sem efnt verður til umræðna eftir sýningar.

Tjaldur
Líf og starf 25. september 2024

Tjaldur

Tjaldur er stór og auðþekkjanlegur vaðfugl sem finnst um allt land. Tjaldar eru ...

Bændur á Instagram
Líf og starf 25. september 2024

Bændur á Instagram

Það sem af er ári hafa fylgjendur Bændablaðsins á samfélagsmiðlum fengið innsýn ...

Tvítuga Gullbrá
Líf og starf 24. september 2024

Tvítuga Gullbrá

Þetta er hún Gullbrá 357 á Hóli við Dalvík, rúmlega tvítug mjólkurkýr.

Brjálaðir menn
Líf og starf 24. september 2024

Brjálaðir menn

Hefur það komið fyrir lesandann að fá áttlit á hendina og finna spennu og tilhlö...

Klár í slaginn
Líf og starf 23. september 2024

Klár í slaginn

Smáauglýsingar hafa birst í prentmiðlum svo lengi sem elstu menn muna en þar inn...

Þjóðbúningamessa
Líf og starf 23. september 2024

Þjóðbúningamessa

Þjóðbúningamessur hafa verið haldnar hérlendis við hátíðleg tækifæri undanfarin ...

Í Fljótum
Líf og starf 23. september 2024

Í Fljótum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Davíð Stefánssyni.

Drottningarfórn og mát með biskupi og riddara
Líf og starf 20. september 2024

Drottningarfórn og mát með biskupi og riddara

Undirritaður stýrði svörtu mönnunum í skák á Íslandsmóti skákfélaga árið 2021.