20-28. nóvember 2019

Hrútafundir 2019

Að vanda munu búnaðarsamböndin vítt og breitt um landið standa fyrir kynningarfundum í kjölfar útgáfu á nýrri hrútaskrá í samstarfi við RML.  Aðal umfjöllunarefnið er kynning á hrútakosti sæðingastöðvanna en auk þess eru fundirnir kjörinn vettvangur til að ræða ræktunarstarfið í sauðfjárræktinni. Í meðfylgjandi töflu má sjá yfirlit yfir fyrirhugaða fundi.  

Í vetur verða samtals 45 hrútar á sæðingastöðvunum í Þorleifskoti og Borgarnesi og því fjölgar hrútunum um 1 á milli ára.  Af þessum 45 hrútum eru 20 nýir, þar af eru 14 hyrndir og 4 kollóttir auk þess sem nýr forystuhrútur og nýr feldfjárhrútur verða kynntir til sögunnar.  

Samdráttur hefur verið í sæðingum síðastliðin ár sem trúlega má rekja til erfiðrar stöðu í greininni. Vonandi snýst sú þróun við í vetur en þátttaka í lambaskoðunum á liðnu hausti gefur tilefni til að ætla að krafturinn í ræktunarstarfinu sé aftur að eflast.  Sæðingastarfsemin er fjöreggið í ræktunarstarfinu og einn af grunnþáttunum í því að viðhalda erfðaframför í stofninum. Á „matseðli“ stöðvanna er fjölbreytt úrval af kostamiklum hrútum sem bændur eru hvattir til að nýta og standa saman að því að halda fjöregginu lifandi og öflugu. 

Á döfinni