Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ætla að endurreisa iðnaðarvefnað úr íslenskri ull
Mynd / Kormákur og Skjöldur
Fréttir 16. apríl 2020

Ætla að endurreisa iðnaðarvefnað úr íslenskri ull

Höfundur: smh

Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar er komin með vörulínu þar sem hráefnið er „íslenskt tweed“, ullarvefnaður sem unninn er úr ull af íslensku sauðfé. Í vörulínunni eru fimm tegundir jakkafata, auk vesta, og fimm sixpensarar. 

Íslenskur ullarvefnaður gekk ætíð undir heitinu „vaðmál“ og var í margar aldir aðalhráefnið til heimilisiðnaðar og fatagerðar, auk þess að vera mikilvæg útflutningsvara. Nú hefur þessi hefð verið endurvakin hjá Kormáki & Skildi, en tæp 50 ár eru liðin frá því að hún lagðist af.

Gunnar Hilmarsson.

Að sögn Gunnars Hilmars­sonar, yfirhönnuðar hjá framleiðslu­deild Kormáks & Skjaldar og umsjónarmanns vaðmáls­framleiðsl­unnar, er ullin í vörulínunni í grunnlitunum fjórum; mórauður, hvítur, grár og svartur.

„Úr þessum fjórum litum hönnum við úrval mynstra og blöndum samana litunum sem saman mynda heildstæða línu. Ullin kemur frá öllum landshornum Íslands, ullarbandið er spunnið af Ístex í Mosfellsbæ og svo er „tweedið“ ofið í einni bestu myllum í Evrópu, Seidra í Austurríki. Draumurinn er að geta gert allt ferlið eingöngu hérlendis en til þess vantar enn tæki og þekkingu sem hefur með tímanum tapast að hluta,“ segir Gunnar.

Hann segir að sixpensarar úr ull af forystufé komi í haust og ef til vill verði tilraunir gerðar með að klæða vasapela slíkri ull.

Skjöldur Sigurjónsson í íslenskum „tweed“-jakkafötum sem heita Kjartansson.

 

Snúa við neikvæðri þróun

„Sú var tíðin að íslenskt tweed-efni var framleitt hérlendis. Öll stig framleiðslunnar voru unnin hér. Allt frá því að bóndinn afhenti hráa ullina, ullin var hreinsuð og þvegin, kembd og spunnið úr henni ullarband. Bandið var svo ofið í tweed-efni sem var notað í fatnað, teppi, áklæði og margs konar aðra hluti. Gamla Álafossúlpan er gott dæmi um fatnað sem nýtti íslenskt tweed.

Sumar aðferðir við vinnslu textíl­efna hafa þó viðhaldist betur hér á landi en aðrar. Prjón og hekl eru aðal vinnsluaðferðir okkar. Vefnaðurinn er talinn gera textílefnið sterkara en við erum ekki að framleiða ofin textílefni lengur og hefur vefnaður úr íslensku ullinni horfið að mestu leyti. Sá tækjakostur og þekking sem var til hérlendis er því miður horfin og því enginn iðnaðarvefnaður til staðar lengur. Textílframleiðslan á ullinni er því frekar einhæf hér á landi.

Við hjá Kormáki og Skildi höfum haft það markmið að snúa þróuninni við þegar kemur að vefnaði úr íslenskri ull. Okkar sýn er að iðnaðarvefnaður úr íslenskri ull komist aftur á laggirnar hér á landi. Því höfum við hafið þessa framleiðslu, bæði fyrir innlendan markað og erlendan,“ segir Gunnar.

Tweed-bólstruð húsgögn

„Þessi þróun okkar hefur vakið athygli eiganda húsgagna­verslunar­innar Epal, sem frábæran kost sem áklæði fyrir innlenda sem og erlenda húsgagnaframleiðendur. Efnið hefur staðist allar gæðaprófanir og er leitast við að varan sé í senn náttúruvæn og með sömu gæði og samkeppnisaðilar erlendis bjóða upp á. Markmið Epal var að kynna húsgögn frá þeim sem bólstruð eru með íslensku tweedi á Hönnunarmars, sem valkost í húsgagnaframleiðslu,“ segir Gunnar að lokum.

Kormákur Geirharðsson í jakkafötum sem heita Þráinsson og með sixpensarann Móra.