Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Lárus Björnsson, Ingibjörg Björnsdóttir, Sigurður Guðni Böðvarsson, Auður Filippusdóttir, Júlíus Björnsson, Arnar Halldórsson og Soffía Björnsdóttir, eigendur Skútaíss í Mývatnssveit.
Lárus Björnsson, Ingibjörg Björnsdóttir, Sigurður Guðni Böðvarsson, Auður Filippusdóttir, Júlíus Björnsson, Arnar Halldórsson og Soffía Björnsdóttir, eigendur Skútaíss í Mývatnssveit.
Mynd / Úr einkasafni
Fréttir 8. júní 2020

Framleiða ís úr eigin hráefni og opnuðu ísbúð

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það er ótrúlega skemmtilegt að framleiða eigin matvæli og úr okkar eigin hráefni, sérstaklega þegar það heppnast svona vel,“ segir Auður Filippusdóttir, líftækni- og matvælafræðingur á Skútustöðum í Mývatnssveit. Félagið Skútaís var stofnað í fyrra og hóf starfsemi, framleiðslu og sölu á ís síðsumars. Ísinn er framleiddur á Skútustöðum og seldur beint frá býlinu.
 
Auður er Akureyringur og bjó þar stærstan hluta ævi sinnar, en undanfarin tvö ár hefur hún búið í Mývatnssveit. Hún kynntist kærasta sínum, Júlíusi Björnssyni, sumarið 2017, en hann er bóndi á Skútustöðum. Þá um haustið flutti Auður til Reykjavíkur og hóf meistaranám í matvælafræði. Júlíus, sem er bóndi og bundinn búskapnum, var ekki endilega á þeim buxunum að flytja úr Mývatnssveitinni þannig að Auður fór að velta fyrir sér við hvað hún gæti starfað þar.  „Framboð á atvinnu fyrir matvælafræðinga er ekki mikið á þessu svæði, þannig að ég ákvað að búa mér til atvinnu og opna ísbúð,“ segir Auður um tildrög þess að félagið Skútaís var stofnað.
 
Hún lauk meistaranámi sínu og má segja að lokaverkefnið hafi verið frekar einstakt, en það er byggt upp sem undirbúningur fyrir ísgerð, framleiðslu og sölu beint frá býli. Það innihélt ítarlega umfjöllun um ís og ísgerð, gæðahandbók, viðskiptaáætlun og vöruþróun. Leiðbeinendur voru þeir Guðjón Þorkelsson og Þórarinn Egill Sveinsson, sem báðir voru harla ánægðir með útkomuna. Auður fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og nýtti hann meðal annars í námskeið í ísgerð sem haldið var í Háskólanum í Reading, Englandi.
 
Auður Filippusdóttir afgreiðir ánægðan viðskiptavin.
 
Ísbúðin vakti strax mikla lukku
 
Síðastliðið sumar ákvað fjölskyldan að demba sér beint í djúpu laugina, en Auður ásamt systkinum kærastans  og mökum þeirra stofnuðu í sameiningu einkahlutafélag. Systkinin eru fimm í allt en fjögur búa í Mývatnssveit og reka í sameiningu búskapinn á bænum og gistiheimili að Skútustöðum. Nýja félagið fékk nafnið Skútaís ehf. og tókst að opna ísbúðina í byrjun ágúst í fyrra. Hún var opin alla daga þann mánuð og í september, en þá tók við helgaropnun út árið. „Þetta vakti mikla lukku, bæði meðal heimamanna og eins ferðamanna sem komu í heimsókn í sveitina,“ segir Auður.
 
Jólamarkaðurinn var góður
 
Hún notar eigin uppskriftir við framleiðslu á ísnum og segir að hún snúist fyrst og fremst um að búa til gæða kúluís úr mjólkinni sem til fellur á bænum. Pláss er fyrir níu bragðtegundir í ísborðinu og reynir hún að bjóða nýjar bragðtegundir reglulega í bland við þær vinsælustu hverju sinni, en í allt eru um 20 bragðtegundir í boði.  
 
„Við fórum á tvo jólamarkaði fyrir síðustu jól og buðum upp á þrjár mismunandi jólabragðtegundir, það er óhætt að segja að þær slógu alveg í gegn. Við fengum virkilega góðar viðtökur sem er yndislegt,“ segir Auður. Hægt var að kaupa ísinn í ýmist eins lítra umbúðum eða 250 ml ílátum. Þá var einnig í boði að panta ís fyrir jólin og gat fólk valið um að sækja hann í ísbúðina í Mývatnssveit eða hjá foreldrum hennar á Akureyri.
 
Framleiðir hugsanlega fleiri afurðir úr mjólkinni síðar
 
„Þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegt og gengið vonum framar. Og þá fer maður auðvitað að huga að því að framleiða fleiri afurðir úr mjólkinni og ég geri ráð fyrir að þegar ísinn fer að skila einhverju inn og við sjáum fram á möguleika á að stækka við okkur, láti ég slag standa. Ég vona svo sannarlega að smáframleiðendum fjölgi og sem víðast um landið. Það er ánægjulegt ef fjölbreytileiki í framboði matvæla frá smáframleiðendum eykst. Ég held að einmitt núna séu margir að taka af skarið, framkvæma og láta drauma sína rætast, hafi það kost á því. Það eru margir að velta þessu fyrir sér og ég held að fólk ætti að hugleiða hvað sé það versta sem gæti gerst og einhenda sér svo bara í verkefnið. Annars er hætta á að menn sjái eftir því,“ segir Auður. 
 
Bjartsýn á gott sumar
 
Hún kveðst bjartsýn á komandi sumar þó svo að búast megi við að færri verði á ferðinni en áður þar sem útlendinga vanti. „Ég held að við munum hafa nóg að gera og Íslendingar verði duglegir að ferðast um landið sitt. Okkar plön fyrir kórónuveiru voru þau að það yrði mikið að gera og jafnvel meira en var síðsumars í fyrra þegar við opnuðum. Nú höfum við gert þá breytingu í ljósi stöðunnar að í stað þess að vera með opið frá morgni til kvölds eins og ráðgert var höfum við opið frá klukkan 13 til 18 alla daga.“ 

Skylt efni: Skútaís