Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Framleiðir túnfíflasaft af 8 hektara túnfíflaakri
Mynd / Landbrugsavisen/Lars Kelstrup
Fréttir 16. júní 2020

Framleiðir túnfíflasaft af 8 hektara túnfíflaakri

Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Bændur á Íslandi líta nú væntan­lega flestir á gula slikju á túnum sínum, vegna túnfífla, sóleyja og álíka illgresis, sem merki um að það sé tímabært að endurrækta túnin og líklega fyrir alllöngu. Það að vera með heilt stykki eða jafnvel mörg stykki eingöngu með túnfíflum þekkist því varla hér á landi, a.m.k. ekki vegna ræktunarákvörðunar, en það gæti breyst á næstunni. 
 
Túnfíflar, sem áður var fyrst og fremst litið á sem illgresi, eru nefnilega efniviður í heilsubætandi afurðir og ef þeir eru sérstaklega ræktaðir til slíks brúks þá geta þeir verið góð söluvara! Það gæti því vel verið að „illgresisræktun“ gæti orðið nýjasta nýsköpunin í landbúnaði hér á landi, en þegar er ágæt reynsla af m.a. túnfíflaræktun í Danmörku. Þá hefur ræktun á hreinum rauðsmára í Danmörku einnig náð góðri fótfestu en þó svo að hann sé oftast nýttur sem fóður fyrir búfé, þá hentar hann einnig vel til heilsuvörugerðar.
 
Túnfífill, sem flestum þykir frekar hvimleiður í túnum og görðum, getur verið til ýmissa hluta nytsamlegur. 
 
Nýting túnfífla
 
Túnfífill og aðrar íslenskar jurtir hafa verið nýttar til matargerðar og lækninga í hundruð ára en líklega er notkun og nýting á túnfíflum frekar óalgeng hér á landi í dag. Hér áður fyrr var seyði af rótum túnfífils notað við lifrarveiki og gallstíflum og blöðin, sem kallast hrafnablöðkur, nýtt gegn harðlífi sem og voru sögð þvaglosandi, svo dæmi sé tekið. 
 
Með einfaldri leit á veraldar­vefnum má finna margs konar tillögur að nýtingu túnfífils eins og að nýta hrafnablöðkurnar í salat eða til pestógerðar, blómstönglana í salat og margar aðrar hugmyndir að nýtingu má finna. Í Danmörku byggist þó ræktun á túnfíflum á því að framleiða seyði sem sagt er að bæti meltingu og hafi ýmis önnur bætandi áhrif, m.a. á gigt.
 
Rannsóknir staðfesta áhrifin
 
Það eru til margar frásagnir af heilsubætandi áhrifum af hinum og þessum afurðum en oft vantar rannsóknir til þess að styðja við fullyrðingarnar um þessi áhrif. Árið 2012 voru birtar í Danmörku rannsóknaniðurstöður um jákvæð áhrif neyslu rauðsmáraþykknis á heilsu kvenna á breytingaskeiði. Rauðsmáraþykknið inniheldur nefnilega efni sem líkist vakanum estrógeni og hjálpar þetta efni úr rauðsmáranum við að draga úr áhrifum svokallaðara hitasveiflna sem oft fylgja breytingaskeiðinu. Þá kom einnig fram í rannsóknarniðurstöðum að rauðsmáraþykknið hafði fyrirbyggjandi áhrif á beinþynningu. 
 
Túnfíflasalat, eða „Mælkebøttesalat“ eins og Daninn kallar það.  
 
Gerir seyði úr 38 hektara uppskeru
 
Danski bóndinn Michael Mohr Jensen fer óvenjulegar leiðir í sínum búskap en hann leggur stund á  lífrænt vottaða jarðrækt og er með um 100 hektara af landi, en hann býr á búinu Herrens Mark á Fjóni. Michael þessi rekur fyrirtæki sem heitir Fyns Mælkebøttesaft sem gæti heitið „Túnfíflasaft Fjóns“ á íslensku og eins og nafnið gefur til kynna framleiðir hann saft eða seyði og selur svo í heilsubúðir. 
 
Til þess að sinna framleiðslunni er hann með 38 hektara sem eingöngu eru nýttir undir framleiðslu á túnfíflum og rauðsmára! Hann uppsker svo þessar tvær tegundir og framleiðir síðan tvenns konar heilsubætandi seyði, annars vegar úr túnfíflunum og hins vegar úr rauðsmáranum.
 
Átta hektarar af túnfíflum
 
Af þessum 38 hekturum eru átta þeirra einungis með túnfíflum í og er sáð til þeirra árlega. Túnfíflar eru í eðli sínu auðveldir í ræktun eins og landmenn allir þekkja væntanlega en þegar verið er að framleiða þá sérstaklega sem afurð til neyslu þarf að vanda til verksins. Þeir þurfa t.d. töluverða úrkomu til að vaxa vel og setja kraft í blaðvöxtinn og þar sem danska vorið í ár var einstaklega þurrkasamt kom það niður á framleiðslunni hjá Michael. Það kom þó ekki að sök vegna framleiðslunnar á þykkni, enda er hann með umfram framleiðslugetu sem stendur og því ekki hætta á að geta ekki sinnt eftirspurninni.
 
Handhreinsa akrana
 
Þar sem Michael er í lífrænt vottaðri ræktun má hann ekki nota illgresiseyði og alls konar illgresi reynir auðvitað að koma sér fyrir á þessum 38 hekturum sem hann er með þessa sérstöku ræktun á. Áður en bæði túnfíflarnir eru slegnir og rauðsmárinn, þarf hann að tryggja að akrarnir séu hreinir svo ekki komi aðrar plöntur eða illgresi með í uppskeruna. Því þarf hreinlega að handhreinsa alla 38 hektarana af öllum öðrum plöntum og illgresi og þetta er hörku vinna og tók það 10 manna teymi um 2 vikur að gera akrana tilbúna til uppskeru.
 
Öll plantan tekin
 
Þegar kemur að uppskeru á túnfíflum tekur ekki minni vinna við enda er öll plantan nýtt og tók það rúma fjóra daga að uppskera alla átta hektarana af túnfíflunum, en plantan er tekin í kjölfar blómstrunar og þar sem fíflar blómstra snemma er uppskera þessa árs þegar komin í hús hjá Michael. Strax í kjölfarið eru akrarnir svo undirbúnir undir sáningu túnfífla fyrir næsta árs uppskeru en það er gert með eigin fræi sem Michael hreinsar sjálfur af ökrunum fyrir uppskeru. Til þess er notuð sérstök fræsuga sem hann hefur sjálfur útbúið en eins og flestir vita myndar túnfífillinn bifukollu (biðukollu) eftir blómstrun og sáir sér þannig. Þegar akurinn er alsettur bifukollum er ekið um hann með fræsuguna og fræin hreinlega ryksuguð upp. Nú um miðjan maí var þegar búið að sá á ný í alla akrana hjá Michael og uppskera næsta árs því undirbúin.
 
„Mælkebøttesaft“, eða Túnfíflasaft, frá Michael Mohr Jensen, túnfíflabónda á Fjóni í Danmörku. 
 
Hálft ár að gerjast
 
Eftir að búið er að uppskera tekur við hreinsun og svo hefst framleiðslan á seyðinu en það tekur sex mánuði fyrir seyðið að verða tilbúið en til þessa hluta framleiðslunnar er Michael með 840 þúsund lítra geymslutanka sem seyðið verður til í. Síðan er komið að því að pakka seyðinu í neytendapakkningar og er það sett í lofttæmda tveggja lítra neyslupoka og svo í þar til gerðar pappaöskjur, ekki ósvipað því sem sumir þekkja e.t.v. þegar léttvín er keypt í pappaöskju með stút. Fyrir vikið nýtist seyðið vel að sögn Michael, en mikilvægt er að viðhalda loftfirrtum aðstæðum því annars fellur virkni þess og það skemmist hratt. Þessar tveggja lítra einingar eru svo seldar út úr búð á um 6 þúsund íslenskar krónur og lítrinn fer því á um 3 þúsund krónur sem er vissulega afar hátt lítraverð og leitun að jafn háu lítraverði á nokkurri landbúnaðarafurð ef frá eru talin vín. Þetta háa verð fellur vissulega ekki allt í hendur bóndans sjálfs, en ætla má samt að hann fái allháan skerf í sinn hlut.
 
Gott umtal hafði mikil áhrif
 
Á Íslandi er oft talað um mikilvægi áhrifavalda og vaxandi vægi þeirra á sölu- og markaðsmál og það hefur svo sem lengi legið fyrir að jákvæð fjölmiðlaumfjöllun hefur alltaf umtalsverð áhrif. Michael nefnir þessi atriði sérstaklega varðandi árangur hans en hann sjái sölutölur rjúka upp við hverja umfjöllun. Þá hjálpi einnig til sú staðreynd að rannsóknaniðurstöður sýni nokkuð skýrt að afurðir rauðsmára hafi góð áhrif á heilsu fólks. Í Danmörku eru oft svokallaðir „sjónvarpslæknar“ með þætti þar sem þeir skýra frá margvíslegum vandamálum eða heilsubresti og hvernig eigi að takast á við slíkt og nýverið var seyðið frá Michael til umfjöllunar og fékk jákvæð meðmæli sjónvarpslæknis sem hafði strax áhrif á söluna. Auk þess hafa ýmsir þjóðþekktir danskir einstaklingar dásamað vörurnar og allt hjálpist þetta að við að festa söluna í sessi.
 
Ætlar að auka framleiðsluna
 
Í dag er staðan þannig á búinu hjá Michael að um 20% framleiðslunnar er túnfíflaseyði en megnið af framleiðslugetunni er nýtt til framleiðslu á rauðsmáraseyði. Hann segir að í hvert skipti sem umfjöllun um afurðirnar kom í sjónvarpi hafi salan tekið kipp en síðustu árin hafi aðeins hægt á aukningunni og því er hann nú að setja kraft í sölu- og markaðsstarfið með því að auka við sölustarfsemina úr einum manni í tvo. Hann vonast til þess að það muni skila sér í verulegri aukningu enda er mikið af seyði til á lager, sem bíður eftir kaupendum. Í dag er hann einungis að selja afurðir sínar í Danmörku en með viðbótarkrafti í sölumennskuna ætlar hann nú inn á þýska markaðinn, sem er auðvitað gríðarlega stór og þýðingarmikill.
 
Þýtt og endursagt upp úr grein í Landbrugsavisen 15. maí 2020.

Skylt efni: túnfífill