Ávaxtakarfan í Hveragerði
Eins og vani er á haustin eru áhugaleikhúsin komin á fullt og eitt þeirra, Leikfélag Hveragerðis, frumsýndi nú á dögunum.
Þau tóku fyrir leikverkið Ávaxtakörfuna en það tekur á viðkvæmu efni, einelti og fordómum. Ávaxtakarfan er þó lífleg og skemmtileg samkunda ávaxta sem búa saman í körfu eins og nafnið ber til kynna.
Sagan segir frá Mæju jarðarberi sem er lögð í einelti af hinum í körfunni af því hún er ekki ávöxtur heldur ber og því ætlað að þrífa og þjóna hinum. Immi ananas, voldugasti ávöxturinn, ætlar að krýna sjálfan sig konung sem fer úrskeiðis þegar Gedda gulrót kemur í körfuna. Íbúar körfunnar gera sér smám saman grein fyrir því að útlit skiptir ekki máli heldur innrætið. Þetta er leikrit sem eldist vel og á erindi við alla, jafnt nú sem fyrir rúmum 20 árum er verkið var fyrst kynnt áhorfendum.
Leikstjórn er í höndum Gunnars Gunnsteinssonar, en hann leikstýrði Ávaxtakörfunni einnig í Óperunni árið 1998 og í Austurbæ 2005. Andrea Gylfadóttir sér um söngþjálfun.
Frumsýning var laugardaginn 28. september.