Nýting náttúruauðlindanna
Í aldanna rás hafa Íslendingar lært að nýta ríkar náttúruauðlindir landsins til bæði matar og drykkjar auk þess að tilreiða ýmsar tinktúrur og smyrsl okkur til heilsubóta.
Í dag má finna nokkurn fjölda íslenskra fyrirtækja sem nýta þessar staðbundnu jurtir og plöntur til þess að framleiða sjálfbærnivottaðar snyrtivörur – sem eru sem betur fer vaxandi hluti af fegurðariðnaðinum.
Burt með eiturefnin
Í framleiðsluferli þeirra er bæði heilsa manna og umhverfisvernd sett í forgang, en með sjálfbærum snyrtivörum er átt við snyrtivörur sem eru samsettar úr náttúrulegum innihaldsefnum endurnýjanlegra auðlinda. Sem dæmi um slíkt eru grös, leir, þörungar eða viðlíka náttúruauðlindir sem myndast aftur þó af þeim sé tekið. Framleiðendur kjósa sem sagt að leggja áherslu á umhverfisábyrgð, lágmarka neikvæð vistfræðileg áhrif, með það fyrir augum að varan sjálf gagnist ekki aðeins neytendum heldur sé umhverfið einnig virt í framleiðsluferlinu.
Þessi stefna er jákvæð ef litið er til blýeitraðra snyrtivara sem seldar voru fyrr á tímum. Þess má geta að breytingin í átt að umhverfisvænni snyrtivörum er knúin áfram af eftirspurn neytenda, sem kjósa nú frekar náttúrulega valkosti. Ef einhver veltir fyrir sér kostum þess að bæta blýi út í snyrtivörur þá var það líklegast vegna þess að blýið þótti gera liti bjartari og skærari auk þess að vera rakagefandi.
Í dag eru notaðar olíur á borð við kókos-, avocado- eða arganolíu sem rakagjafi auk glýseríns, sem einnig veitir náttúrulegan raka og næringu og er unnið úr pálmaolíu eða sojabaunum.
Þegar kemur að rotvarnarefnum kjósa mörg vörumerki að nota náttúruleg efni, þá rósmarínþykkni eða E-vítamín í stað hefðbundinna rotvarnarefna sem geta valdið heilsufarsáhættu. Jurtir eins og kamilla og lavender eru nýttar sem róandi viðbót, vallhumall og mjaðjurt til styrktar ónæmiskerfinu og þar fram eftir götunum.
Svo fátt eitt sé nefnt
Eitt fyrsta íslenska snyrtivörufyrirtækið með náttúrulegar vörur er Purity Herbs, stofnað á Akureyri árið 1994. Eigendur þess eru hjónin André Raes og Ásta Kristín Sýrusdóttir og var kveikjan áhugamál André, að búa til krem, olíur og te úr jurtum. Fyrsta kremið, Undrakrem, er enn fáanlegt í dag eftir 30 ára sigurgöngu, en gerð þess fékk hjólin til að snúast.
Flest þekkjum við svo orðið sem fer af kíslinum sem losnar úr bergi Bláa lónsins og breytist í leðju sem er þekkt fyrir að hafa mjög jákvæð áhrif á húðsjúkdóminn psóríasis. Undir merkjum fyrirtækisins Blue Lagoon má nú versla maska, rakakrem, serum og olíur sem væntanlega standa undir nafni.
Kolbrúnu grasalækni má einnig nefna en heilræði hennar birtust fyrst almenningi á síðum Dags árið 1997. Þar mælir hún með ýmsu gagnlegu í baráttunni við kvefflensu, til að mynda skal borða mikinn lauk og hvítlauk auk þess að drekka sítrónu- safa því þetta þrennt er bakteríu- drepandi. Taka að auki inn sólhatt sem sé náttúrulegt pensilín og gjarnan kallað indíánapensilín að hennar sögn. Kolbrún á fyrirtækið Jurtaapótekið í dag og vörur hennar reynst landsmönnum vel í gegnum tíðina.
Villimey er annað vörumerki sem einbeitir sér að því að virkja kraft innlendra jurta sem finnast á Vestfjörðum. Vörur þeirra eru lífrænt vottaðar og lausar við öll ilm-, litar- og rotvarnarefni, en þau innihalda náttúrulega rotvörn sem kemur frá jurtunum. Þróun og framleiðsla á vörum Villimeyjar hefur staðið frá 1990, en eigandinn, Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, hefur unnið uppskriftirnar sjálf, eins og kemur fram á vefsíðu hennar; með vísdóm og verkkunnáttu, sem gengið hafa mann fram af manni, að leiðarljósi. Vörurnar eru í dag, eins og nærri má geta, vel kunnar fyrir
gæði og góða virkni.
Leggjum okkar af mörkum
Ávinningurinn af því að velja sjálfbærar snyrtivörur nær út fyrir persónulega heilsu en með því að velja vörur úr endurnýjanlegum auðlindum eða jurtum getum við lagt okkar af mörkum til umhverfisverndar.
Fyrir áhugasama stinga ýmis námskeið upp kollinum með vissu millibili þar sem almenningur er hvattur til að kynna sér undirstöðuatriði við gerð smyrsla.
Einnig getur verið bæði gaman og gagnlegt að fara og tína grös sér til heilsubótar úti í náttúrunni, eða þang í fjörunni en á bókasöfnum finnst aragrúi bóka sem innihalda kosti jurtanna.