Fé í Vestur-Skotlandi gangandi réttum megin vegar, væntanlega á leið á fótboltaleik og miðað við bláa litinn, annaðhvort leik með Rangers eða skoska landsliðinu.
Fræðsluhornið 27. mars 2020

Ættum við að hertaka skosku eyjarnar?

Kristján Friðbertsson

Á Hjaltlandseyjum má finna örnefni nánast á íslensku frá búsetu víkinga og Norðmanna. Eldri eru þó minjar um pikta, sem byggðu eyjarnar þegar víkingar mættu á svæðið. Elsta merkið um byggð er rúmlega 6000 ára gamall sorphaugur, svo það er greinilega ekki nýtt vandamál að úrgangurinn okkar sé lengi að hverfa.

Á Orkneyjum var norrænt mál talað í fleiri aldir. Finna má þar Sigurða, Ingur, Rögnvalda og Ragnhildar. Aðlögun yrði því auðveld. Í Kirkjuvogi (Kirkwall) á Orkneyjum má finna dómkirkjuna Magnúsarkirkju.

Veggjakrot Víkinga

Orkneyinga saga segir okkur að Kali (Rögnvaldur) Kolsson byggði kirkjuna í nafni Magnúsar móðurbróður síns til að tryggja sér jarlsdæmið. Stór kosningaloforð eru því greinilega ekki ný af nálinni, en mestu furðu vekur að þetta loforð var efnt, nokkuð sem afar sjaldgæft er nútildags. Innan kirkjunnar má finna steinristar vísanir sem væru kunnuglegar í augum flestra Íslendinga. Rúnir og fleira sem kalla mætti veggjakrot víkinga. Því ætti að reynast lítið mál að sannfæra dómstóla að kirkjan sé í raun íslensk.

Kristján Friðbertsson.

Skara Brae eru leifar steinbygginga á Orkneyjum frá því um 3180 f.kr.–2500 f.kr. Fólkið þar virðist hafa stundað landbúnað, haldið kýr og sauðfé, ræktað bygg og veitt fisk og annað sjávarfang sér til matar. Grunsamlega íslensk hegðun. Athyglisvert er að þessi forna byggð notaðist við nokkuð góðar skolplagnir og hafði hver fjölskylda sitt eigið innandyrasalerni. Eyjaskeggjar hafa því lengi getað lagt lagnir, sem getur komið sér vel þegar vantar pípara á Íslandi.

Túristi í Benmore-grasagarðinum. Trén skipta yfir í haustlitina og greinilega á það einnig við um klæði gesta.

Eyjunum fylgir floti herskipa

Skalpaflói innan Orkneyja er vinsæll meðal kafara, enda liggur fjöldi skipa þar á hafsbotninum. Tilvalið að beina túristum þangað til að létta álaginu af Silfru. Nokkur bresk herskip skreyta botninn, en einnig sökktu Þjóðverjar þar 53 af 74 skipa flota sínum í lok fyrri heimsstyrjaldar, til að forða þeim frá óvinahöndum.
Málmur skipanna er sérlega áhugaverður. Allt stál framleitt eftir 5. áratug síðustu aldar er flokkað sem geislamengað, sökum þess að bakgrunns geislavirkni í heiminum jókst þegar farið var að sprengja kjarnorkusprengjur. Slíkt stál hentar ekki til smíða á geislamælum og öðru sem er viðkvæmt fyrir geislun. Þar er því notast við eldra stál og helsta uppspretta þess í dag er einmitt áðurnefndur skipafloti. Ef álverin loka þá förum við bara í stálið.

Þrjár Papeyjar finnast við Hjaltlandseyjar og tvær við Orkneyjar. Sú stærri meðal Orkneyja nefnist Papey meiri (Papa Westray) og var líkt og Ísland einn af síðustu stöðum heims sem geirfuglar fundust á lífi. Það er því hægt að hagræða með því að sameina fræðsluefni Íslendinga og Skota um geirfuglinn.

Á eyjunni má finna rústir gamallar kapellu sem helguð var ungri konu frá 8. öld. Sú stakk frekar úr sér augun en að taka bónorði konungs pikta, sem heillaður var af henni. Í dag nota menn Tinder til að komast hjá slíkum vandræðum. Hægt er að fljúga til Papeyjar meiri frá Vesturey (Westray) og tekur flugið heilar 47 sekúndur, að jafnaði. Kannski fá þá til að taka yfir Herjólf?

Syndir sauðfé, synda selir

Sauðfé náskylt íslensku rollunni má finna víða um Skotland og á nyrstu eyju Orkneyja má finna örfá þúsund rollur af slíkum gæða ættum innan um selina í fjörunni og jafnvel í sjónum. Þetta smávaxna sauðfé hefur aðlagast strandlífinu, líkt og unglingur í útskriftarferð á Benidorm.

Trjágöng mammúttrjáa í Benmore-grasagarðinum í Skotlandi.

Sauðféð hangir þó ekki á barnum, heldur lifir á sjávargróðrinum sem það í fjörunni finnur. Talið er að harðir vetur með heyskorti hafi neytt bændur fyrir þúsundum ára til að drýgja heyið með þangi yfir vetrarmánuðina, ekki ósvipað og hér á landi. Hlutfall þangs í fæðu jókst og síðustu 200 árin hafa dýrin verið svo til einangruð við fjöruna og lifa því á þangi einu saman. Utan sérhæfðrar eðlutegundar sem finnst einungis við Galapagos-eyjur, eru þessar rollur taldar einu landdýrin sem lifa eingöngu á sjávarþangi.

Íslendingar kannast auðvitað vel við fjörubeit. Á síðustu öldum var sauðfé víða beitt á þær fjörur þar sem góðan sjávargróður var að finna, enda fínustu hlunnindi að hafa. Sem dæmi beittu sumir bændur á Vestfjörðum duglega á fjörurnar nánast út 20. öldina. Í dag er sjaldgæfara að skortur sé á góðu fóðri og því eflaust ekki svo mikil notkun á fjörubeit, enda var orðið vel þekkt að of mikill sjávargróður í fæðu sauðfjár ýtti undir heilsufarsvanda útfrá koparskorti. Þetta tiltekna sauðfé Orkneyja er hins vegar löngu búið að snúa dæminu við og fengi fljótt kopareitrun ef það færi beint aftur í grasbeit eina og sér.

Það liggur því í augum uppi að með yfirtöku á sauðfé skosku eyjanna værum við að sameina gamalt frændfé og taka aftur upp gömul vinnubrögð. Íslenska sauðféð væri alfarið í grasi og háfjallagróðri, en hið skoska myndi nýta fjörurnar. Auðvelt væri því að bjóða neytendum upp á val milli blóðbergsmarineraðs lambakjöts, eða saltkjöts frá náttúrunnar hendi. Aukið fæðuöryggi felst svo í því að geta fóðrað fleiri rollur á þangi einu saman, næst þegar aska hylur allan grasvöxt.

Eyjarnar sem kallaðar voru Hirtir, síðar Skildir, en í dag nefnast St. Kilda eru svo heimili sauðfjár af hinum fornu Boreray og Sauðeyjar (Soay) kynjum. Mikilvægara er þó að horfa til hinnar sjaldgæfu bjöllu eyjanna (Ceutorhynchus insularis) sem finnst einungis þar og í Vestmannaeyjum (og raunar líklega Ingólfshöfða í Öræfum). Enn frekari sönnun þess að í raun tilheyri eyjarnar Íslandi.

Iona nefnist svo eyja sem finnst í félagi við áðurnefndar eyjar. Hingað liggur beinast við að færa höfuðstöðvar flutningsmiðlunar Jóna Transport og samnýta allt markaðsefni.

Stafur Jósefs

Stafey (Staffa) eru leifar gamallar eldfjallaeyju sem myndaðist fyrir 55–60 milljón árum og gæti gefið vísbendingar um þróun túrisma á hinni 55–60 ára Surtsey. Hugsa sér að eyjan hafi séð eina milljón ára fyrir hvert ár sem Surtsey hefur séð.

Árið 1772 var hinn frægi könnuður Joseph Banks fyrstur vísindamanna til að heimsækja eyjuna, einmitt á leið til Íslands. Á Íslandi heimsótti föruneyti hans m.a. Þingvelli og Geysi í Haukadal, klifu Heklu, gæddu sér á harðfisk og laufabrauði en sagðir hafa misst matarlystina þegar þeim var boðið hvalrengi og hákarl. Lái þeim hver sem vill.

Með þeim í för var skoskur læknir að nafni James Lind, sem talinn er möguleg fyrirmynd Mary Shelley að Dr. Victor Frankenstein. Tenging okkar við söguna er þá að möguleg fyrirmynd hafi heimsótt Ísland og þar að auki gefið fjölda Íslendinga raflost í tilraunaskyni. Augljóslega þarf engan sæstreng til að selja skotum raforku, þeir bara koma til okkar þegar þeir vilja nýta hana og málið leyst.

Endalaus túrismi og Húkkarar

Í framhaldi þessa leiðangurs komu svo fleiri vísindamenn til Íslands, hverra ferðasögur drógu svo að fleiri ferðamenn í kjölfarið. Kannski mætti segja að Banks hafi verið einn fyrsti upphafsmaður túrisma á Íslandi, skömmu eftir heimsókn hans til Stafeyjar.

Eftir hvatningu frá áðurnefndum Joseph Banks kom hér á hundadögum vinur hans, William Jackson Hooker, að skoða og skrásetja náttúru landsins og gaf í framhaldi út ritið „A Journal of a Tour in Iceland“. Sá varð síðar stjórnandi hins fræga grasagarðs Kew í Bretlandi og hér á landi finnum við m.a. jörfavíði (Salix hookeriana) og glómosa (Hookeria lucens) sem kenndir eru við hann.

Skemmtilegt er að rekast á frásagnir breskra vísindamanna strax 1861 sem kvarta yfir því að ágangur ferðamanna á Íslandi sé orðinn of mikill. Þökk sé viðráðanlegu fargjaldi fyrir vel stæða Breta, voru fleiri tugir þeirra farnir að koma hingað. Í þokkabót stoppaði gufuskipið svo stutt að þeir rétt náðu „gullna hringnum“.

M.ö.o. bölvaðir túristarnir flykkjast til landsins á ódýru fargjaldi, þeysast milli helstu „instagram“ staða fyrir „sjálfu“ og fjúka jafnharðan af landi brott.

Óumdeilt er held ég að álagið á ýmsum perlum landsins er í dag orðið of mikið að óbreyttu, en þessi tæplega 160 ára texti minnir mann á að ekkert er nýtt undir sólinni. Umhverfið og viðmiðin kunna að breytast, en við sjálf breytumst minna en við höldum.

Vísindamenn, listamenn og hefðarfólk tók að heimsækja Stafey áratugina eftir Banks. Hið fræga skáld Orðverður (Wordsworth) lét vaða árið 1833, en varð fyrir miklum vonbrigðum. Fegurðin var ótvíræð, en ferðin ónýt sökum mikils fjölda ferðamanna.

Fyrst Skotland og Ísland eru bæði ónýt af offjölgun ferðamanna, þá liggur sameining landanna beint við, eða að lágmarki að við Íslendingar lýsum okkar eignarhaldi á skosku eyjunum. Fyrst við erum að fara að vinna Eurovision í ár er tilvalið að drífa í þessu til að geta boðið upp á fleiri valkosti en Laugardalinn, Hörpuna og Kórinn.