Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Þegar nautum er beitt á gras í lífrænt vottaðri framleiðslu lengist eldistíminn á þeim um nærri hálft ár í samanburði við naut í hefðbundinni framleiðslu.
Þegar nautum er beitt á gras í lífrænt vottaðri framleiðslu lengist eldistíminn á þeim um nærri hálft ár í samanburði við naut í hefðbundinni framleiðslu.
Mynd / Kristine F. Jørgensen og SEGES
Á faglegum nótum 13. maí 2019

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku - annar hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson snsig@arlafoods.com
Hið árlega og þekkta danska fagþing nautgriparæktarinnar var haldið á dögunum og venju samkvæmt voru þar flutt mörg áhugaverð og framsækin erindi og þó svo að mörg þeirra lúti sér í lagi að danskri nautgriparækt eru alltaf margir fyrirlestrar sem eiga ekki síður erindi við alla þá sem stunda nautgriparækt í Evrópu.
 
Fer hér annar hluti af þremur með umfjöllun um þetta þekkta fagþing sem innihélt 68 erindi í 10 ólíkum málstofum.
 
4. Mjólk
 
Í þessari málstofu voru haldin fimm erindi og fjölluðu tvö þeirra um hið vaxandi vanda-mál sem kúabændur víða um heim glíma nú við sem eru hin neikvæðu áhrif hækkandi hitastigs í umhverfinu á kýrnar. Þetta á sérstaklega við þegar kýr mjólka sérlega vel en þá lækkar þröskuldur þeirra fyrir þol gegn hita og sjást merki um það strax við 20 gráðu útihita. Þá dregur úr áti afurðamestu kúnna og nyt þeirra lækkar samhliða því. Enn sem komið er, er þetta að líkindum ekki teljandi vandamál hér á landi en á meginlandi Evrópu er það svo sannarlega nýtt verkefni sem kúabændur þurfa að takast á við í auknum mæli. Í slíkum tilfellum þarf að koma upp viftum víða í fjósunum og á biðsvæði við mjaltaaðstöðu sem og öðrum kælibúnaði sem oftast felst í því að koma upp úðara-kerfi sem sprautar vatni á kýrnar.
 
Þriðja erindið flutti mjólkur­gæðaráðgjafinn Bent Truelsen en erindi hans snéri að því hvernig mjaltakerfin geta haft neikvæð áhrif á mjólkurgæðin. Erindið byggði á athugun sem gerð var á 5 kúabúum með nýleg hefðbundin mjaltakerfi og kom í ljós að þrátt fyrir að mjaltakerfin væru frá heimsþekktum framleiðendum var oft um bæði hönnunargalla og uppsetningargalla sem ollu frávikum á mjólkurgæðum. Afar breytilegt var á milli mjaltakerfa hvað það var sem var að, en í stuttu máli sagt var niðurstaða Bent sú að þó svo að bændur kaupi tæki og tól frá þekktum framleiðendum, þá sé full ástæða til þess að kalla til óvilhalla úttektaraðila sem geta framkvæmt gæðamat á bæði tækninni og uppsetningunni. Í Danmörku er einmitt boðið upp á slíka þjónustu af starfandi mjólkur-gæðaráðgjöfum ráðgjafafyrirtækisins SEGES.
 
Síðustu tvö erindi málstofunnar fjölluðu um júgurheilbrigði og voru bæði flutt af lands-ráðunautnum og dýralækninum Michael Farre. Annað var sérstaklega tileinkað júgur-heilbrigðismálum á kúabúum með stórar hjarðir kúa en hitt að því hvernig á að hámarka árangur í júgurheilbrigðismálum með því að horfa sér í lagi til síðari hluta mjalta-skeiðsins og geldstöðunnar. Í Danmörku var staðan þannig um síðustu áramót að af 2.833 kúabúum þá voru ekki nema 1.436 með frumutölu að jafnaði undir 200.000 frumur/ml eða rétt um helmingur. Það er því dagljóst að mörg kúabú í Danmörku glíma við mikinn vanda enda er yfirlýst markmið Dana að stefna að landsmeðaltali sem er lægra en 150.000 frumur/ml.
 
Fram kom í máli Michael að eitt af vandamálunum sem ráðunautar í Danmörku hafa rekist á er að kúabændur hafa ekki breytt vinnubrögðum sínum þrátt fyrir að meðalnyt kúnna hafi aukist verulega. Þannig eru t.d. hinar svartskjöldóttu Holstein kýr með um 11.400 lítra að meðaltali á ári en flestir bændur sinni þeim enn eins og gert var þegar meðalnytin var um 9.000 lítrar fyrir um 20 árum! T.d. fara flestir í það að gelda upp kýr þegar þær eru komnar niður í 15 kg af mjólk á dag, sem er fráleitt með afurðaháar kýr. Þá séu margir enn að berjast við að reyna að ná tökum á frumuháum kúm við upphaf mjaltaskeiðs þrátt fyrir að vitað sé að árangurinn sé oft lítill. Samandregið sagði Michael það sama og hefur nú verið sagt í allnokkur ár að áhrifaríkasta leiðin til að ná tökum á frumtuölunni er að meðhöndla kýrnar á því tímabili þegar júgurvefurinn er í lítilli framleiðslu og helst í dvala, þ.e. í geldstöðu. Auðvitað þarf þó að meðhöndla veikar kýr óháð því hvar þær eru staddar á mjaltaskeiðinu en ef dulin júgurbólga er vandamálið þá sé allra best að sinna meðhöndluninni í geldstöðu og helst að nota bæði lyf og spenakítti en þá má vænta hámarks árangurs.
 
Með því að auka aðgengi nauta að kjarnfóðri, t.d. með því að setja upp einföld fóðurtrog sem þetta, má auka át þeirra og þar með vöxt.
 
5. Nautakjötsframleiðsla
 
Þessi málstofa var sérstaklega tileinkuð þeim kúabændum sem eingöngu kaupa gripi til kjötframleiðslu, oftar en ekki nautkálfa frá kúabúum í mjólkurframleiðslu. Alls voru flutt sex erindi í málstofunni og voru tvö þeirra tileinkuð innri hagsmunamálum greinarinnar.
 
Þrátt fyrir að Danir séu í raun stórþjóð þegar horft er til kúabúskapar þá er landið ekki sjálfum sér nægt með nautakjöt og kemur það líklega mörgum á óvart. Þetta kom m.a. fram í erindi Louise Juul Toft sem er markaðssérfræðingur dönsku bændasamtakanna. Síðasta ár var alls slátrað 470 þúsund nautgripum í landinu og þar af voru ungnaut 212 þúsund. Heildarframleiðsla nautgripakjöts landsins var 121 þúsund tonn í fyrra og því var meðalþungi þessara 470 þúsund falla 257 kíló. Af þessum 121 þúsund tonnum var um helmingur fluttur út eða um 63 þúsund tonn en á sama tíma voru 81 þúsund tonn flutt inn til landsins! Þá vakti athygli í þessu erindi Louise að á listanum yfir þau sex lönd sem Danir flytja mest af nautakjöti til og á listanum yfir þau sex lönd sem Danir kaupa mest nautakjöt frá þá eru þrjú lönd á báðum listum! Þannig seldu Danir 38 þúsund tonn af nautakjöt til Þýskalands, Ítalíu og Hollands í fyrra og fluttu svo inn nautakjöt frá þessum nákvæmlega sömu löndum 52 þúsund tonn. Í raun stórmerkileg staðreynd að allt þetta kjöt sé að flæða svona fram og til baka í Evrópu með tilheyrandi sótspori svo ekki sé nú horft til fleiri þátta.
 
Annað sérlega áhugavert erindi sneri að fóðurþörf kálfa og þá sérstaklega fyrir vatn! Að erindinu stóðu sérhæfðir ráðgjafar í sláturkálfaeldi og í erindinu komu fram ýmis góð rök fyrir þeirri alkunnu staðreynd að nautgripir eiga alltaf að hafa aðgengi að góðu vatni og það óháð aldri. Einn algengasti sjúkdómurinn sem herjar á smákálfa er skita og þegar hún kemur upp eykst vatnsþörf kálfanna um 25-50% og afar brýnt að þeir komist alltaf í vatn þegar á þarf að halda. Þá er gott aðgengi að vatni forsenda þess að kálfar éti vel af gróf- eða kjarnfóðri og því fyrr sem þeir gera það, því jákvæðari áhrif hefur það á vambarþroskann og vöxt. Þannig kom m.a. fram að ef bændur ætla að ná því að láta kálfana þyngjast um 1000 grömm á dag þegar þær hætta á mjólk, þá ættu kálfarnir að vera komnir í 2,0-2,5 kg át á kjarnfóðri á dag og að drekka 8-10 lítra af vatni daglega. Ennfremur kom fram að ef bændur ætla virkilega að fá kálfana til að drekka mikið af vatni þá gefur góða raun að hafa það um 35-38 gráðu heitt en þá getur drykkjan nærri því tvöfaldast.
 
Það vita það flestir sem eru í kjötframleiðslu að það er ekki alltaf auðvelt að fá dæmið til að ganga rekstrarlega upp. Íslandsvinurinn og landsráðunauturinn Per Spleth tók þetta einmitt fyrir í fimmta erindinu og greindi frá átaksverkefninu „Frá kálfi á krók“ en það snéri að því að bjóða upp á sérhæfða ráðgjöf fyrir kúabændur í sláturkálfaeldi. Tók hann dæmi af einum bónda sem er með um 1.200 dýra slátrun á ári en búið var rekið með tapi þegar það óskaði eftir þessari sérhæfðu ráðgjöf. Á búinu voru ýmis vandamál s.s. of hátt hlutfall af kálfum sem veiktust og drápust, of lítill daglegur vöxtur nautanna og mikil almenn lyfjanotkun. Ráðunautarnir gerðu allsherjarúttekt á búinu og í samstarfi við bóndann og dýralækni búsins var sett upp nýtt vinnuskipulag og gerðar ýmsar úrbætur. Þannig var t.d. búið til sérstakt fóðurplan fyrir þau naut sem búið kaupir og eru léttari en 60 kíló þegar þeir koma á búið. Þessi naut fá nú þurrefnisbætta mjólk svo vöxturinn taki vel við sér. Þá var aðgengi nautanna að kjarnfóðri bætt og til viðbótar því að geta étið kjarnfóður á fóðurgangi þá voru settar upp einfaldar fóðurrennur inn í stíu nautanna. Þá var rými aukið á gripum sem voru í léttara lagi og í raun má almennt segja að allir verkferlar á búinu voru endurskoðaðir og bættir. Í raun var samt um minniháttar breytingar að ræða en þær skiluðu miklum ábata í rekstri búsins. Niðurstaða verk-efnisins var sú að til að ná góðum árangri við eldi sláturgripa þá sé gríðarlega mikilvægt að vera með staðlaða verkferla og sinna nautunum með sama hætti á hverjum degi. Sé það gert er næsta víst að góður árangur náist.
 
Síðasta erindi málstofunnar var flutt af ráðunautum SEGES í lífrænni rætkun, þeim Mogens Vestergaard og Arne Munk. Í Danmörku er mikil eftirspurn eftir lífrænt vottuðum matvörum og er nautakjöt þar á meðal. Það eru þó afar fáir sem eru í sérhæfðri lífrænt vottaðri nautakjötsframleiðslu og síðasta ár nam slátrum slíkra gripa ekki nema 1% af heildarslátruninni. Framleiðsla á lífrænt vottuðu nautgripakjöti er þó mun meiri, en það kjöt kemur frá kúabúum í mjólkurframleiðslu. Greindu þeir félagar m.a. frá því að þeir sem eru í sérhæfðu eldi fá sérstaka styrki frá Evrópusambandinu og nam meðalstuðningurinn árið 2018 um 80 krónum á hvert kíló fallsins. Erindið snéri þó að mestu um það hvernig best sé að standa að því að vera með graðnautaeldi utandyra, en það er nauðsynlegt eigi að fá lífræna vottun. Eigi að takast vel til, í Danmörku, er mælt með skiptibeit með mörgum hólfum og að færa nautin á tveggja vikna fresti á milli hólfa. Eldistími á nautum sem er beitt á gras er auðvitað töluvert lengri en þeirra nauta sem eru alin innandyra. Oft er nautum í Danmörku slátrað í krinum 10–12 mánaða aldur en algengur aldur við slátrun nauta í lífrænni framleiðslu eru 16–17 mánuðir og er þá fallþunginn frá 260–360 kíló eftir því hvort um er að ræða naut af mjólkurkúakyni eða naut sem eru blendingar af holdakyni og mjólkurkúakyni.
 
6. Mjólkurkúakynin
 
Tíunda málstofan fjallaði fyrst og fremst um innri málefni rækunarfélaganna sem halda utan um þau kúakyn sem notuð eru til mjólkurframleiðslu í Danmörku þ.e. hið svart-skjöldótta Holstein kyn, um Jersey kúakynið og hið þekkta danska rauða mjólkurkúakyn sem oftast er eingöngu kallað RDM. Þar sem ekkert þessara er í notkun hér á landi verður látið ógert að fara nánar út í þau erindi sem voru flutt í þessari málstofu.
 
Í næsta Bændablaði lýkur umfjöllun um þetta áhugaverða fagþing en þess má geta að hægt er að skoða og hlaða niður öllum erindum af fagþinginu með því að fara inn á upplýsingasíðu danska landbúnaðarins www.landbrugsinfo.dk. Þar þarf svo að velja „Kvæg“ (þ.e. nautgriparækt) og þar undir „Kvægkongressen“.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...