Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Lars Rinnan heldur fyrirlestra í Noregi um tækni og stafrænu byltinguna ásamt stjórnun og nýsköpun. Hann hefur 25 ára leiðtogareynslu og rekur fyrirtækið NextBridge Group.
Lars Rinnan heldur fyrirlestra í Noregi um tækni og stafrænu byltinguna ásamt stjórnun og nýsköpun. Hann hefur 25 ára leiðtogareynslu og rekur fyrirtækið NextBridge Group.
Mynd / NextBridge Group
Á faglegum nótum 16. maí 2018

Innrás vélmenna og gervigreindar hafinn

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Lars Rinnan er einn eftirsóttasti fyrirlesari í Noregi þegar kemur að málefnum vélmenna, gervigreindar og algóryþma. Hann segist furða sig á því í hverri viku hversu margir, þar á meðal stjórnmálamenn, átta sig ekki á því hversu hröð tækniþróunin er á þessum vettvangi. Á næstu tveimur árum muni 5 milljónir starfa verða tekin yfir af vélmennum og innan 2030 verði helmingur af öllum núverandi störfum í heiminum tekin yfir af vélmennum. 
 
„Vélmennin eru nú þegar komin og í nokkrum greinum hefur það verið svo í mörg ár eins og í bílaiðnaði og hjá verðbréfafyrirtækjum. En núna hefur magn af gögnum og vinnslukraftur þróast svo mikið að vélmennin geta stöðugt gert hlutina jafn vel eða betur en mannfólkið. Þegar tækniþróunin er á þessum mikla hraða þar sem hraðinn tvöfaldast á hverju ári verða vélmennin verulega mikið betri ár eftir ár. Innan ársins 2029 munu vélarnar verða jafn klárar og manneskjur, greina gögn jafn hratt og heili í manneskju og geta framkvæmt allar þær athafnir sem mannfólkið getur. Hingað til höfum við aðeins séð byrjunina á þessari þróun,“ útskýrir Lars.
 
Þróun á ógnarhraða
 
World Economic Forum spáir því að fimm milljónir starfa muni verða tekin yfir af vélmennum innan ársins 2020 og Google spáir því að tveir milljarðar starfa, helmingur af öllum núverandi störfum í dag, muni verða tekin yfir af vélmennum innan ársins 2030. 
 
„Þrátt fyrir mismunandi tíma­ramma hafa báðir aðilar rétt fyrir sér. Ef maður tekur spá World Economic Forum um fimm milljónir starfa og tvöfaldar á hverju ári í 10 ár þá fer maður yfir í tvo milljarða. Þessi fyrirtæki hafa varla rætt þetta sín á milli. Ástæðan fyrir því að báðir hafa rétt fyrir sér er að hægt er að reikna út hversu góð tæknin er. Þetta byggist á lögum Moore sem segir að fjöldi transistora (þættir sem reikna út í tölvum) á ákveðnu svæði tvöfaldast á 18 mánaða fresti, þar að auki hefur maður vöxtinn í tölvum og þróun á hugbúnaði sem til samans bendir til þess að þróunin sé á ógnarhraða,“ segir Lars og bætir við:
 
„Stjórnmálamenn vilja lítið ræða þessa þróun, annaðhvort af því að þeir hafa ekki áttað sig á henni eða af því að það kemur sér ekki vel fyrir þá í næstu kosningum. Þetta er stórt lýðræðislegt vandamál. Þeir horfa á sögulegar tölur og fullyrða að það hafi ekki horfið mörg störf til vélmenna og það er auðvitað rétt því þetta er í raun bara rétt að byrja. Það mun ekki gerast svo mjög mikið næstu árin heldur. En innan fimm ára munu einnig stjórnmálamenn sjá hvað er að fara gerast. Ef þeir hafa ekki byrjað að hugsa um það núna hvernig þeir eigi fyrir hönd samfélagsins að tengjast veruleika með 50% atvinnuleysi þá byrjar það í nánustu framtíð að verða aðeins of seint.“
 
Krefjandi félagsleg tilraun
 
„Fólk þarf bæði að óttast og gleðjast yfir þessari þróun. Fyrir þá sem vinna í einföldum starfsgreinum þar sem mikið er af endurtekningum og litlar kröfur eru um vitsmunalega hæfileika og þar sem ekki þarf að leysa vandamál á skapandi hátt þá er mjög stutt í að þau störf hverfi sjálfvirkt á braut. Ef ég væri strætóbílstjóri eða endurskoðandi myndi ég íhuga strax í dag að leita mér að öðru starfi. Endurskoðandinn getur kannski látið vélmenni halda bókhaldið og í staðinn unnið með fjármálaráðgjöf til viðskiptavina sem byggist á bókhaldinu en aftur á móti fyrir strætóbílstjórann eru ekki svo margir aðrir augljósir möguleikar. Það mun ekki verða auðvelt að fara frá því að vera strætóbílstjóri í að hanna sýndarveruleika sem dæmi. Þetta mun gilda fyrir mjög margar starfsgreinar í þessum flokki. Það er möguleiki að hægt verði að endurmennta sig í átt að störfum sem eiga sér framtíð en þetta á við um störf innan heilsu, umönnunar, þjálfunar, upplifana og fleira. 
 
Sama á við um þá sem eru að mennta sig í dag til starfa sem mun ekki lengur verða eftirspurn eftir. Þá mæli ég með að skipta um námsvettvang áður en það er of seint. Hvort ráðgjafar í skólum og háskólum eru meðvitaðir um þessa stöðu er síðan annað mál,“ útskýrir Lars og segir jafnframt:
 
„Ég held reyndar að nýr veruleiki með borgaralaunum geti verið mjög jákvæð þróun. Kannski er það innrætt skynjun að allir verði að vinna? Ég held að það séu margir sem eru ekki að tengjast í gegnum vinnuna heldur að þetta sé eingöngu samfélagslega smíðuð nauðsyn til að lifa af. Þó eru borgaralaun krefjandi félagsleg tilraun og ég sé fyrir mér að þar geti þróast óreiðuástand áður en þetta mun virka. Þess vegna finnst mér að stjórnmálamenn nútímans ættu að gefa þessu meiri gaum og átta sig á því sem er að koma ásamt því að verða sér úti um reynslu í gegnum tilraunaverkefni. Það eru nokkur slík verkefni í gangi í heiminum í dag eins og í Finnlandi, á Indlandi og í Kanada. Niðurstöðurnar hingað til eru jákvæðar en verkefnin eru auðvitað ansi takmörkuð. Það sýnir sig að það er til annar valkostur en almannatryggingakerfið sem er við lýði á Norðurlöndunum.“
 
Skattleggja ofurarðbær fyrirtæki
 
Árið 2029 munum við ekki þekkja þann sama heim og við lifum í dag. Það munu verða vélmenni úti um allt og þau munu hafa áhrif á hversdaginn hjá öllum á jörðinni. Þá munu um 50% af störfum dagsins í dag að hluta til eða öllu leyti vera tekin yfir af vélmennum. „Sennilega verður líka búið að skapa mörg ný og spennandi störf á þessum tíma. Þetta getur verið námuvinnsla á smástirnum eða þróun á sýndarveruleikum. Þrátt fyrir það munu færri störf skapast en þau sem hverfa og að öllum líkindum verða ekki þeir sem missa vinnuna í „gömlu“ starfsgreinunum hafa hæfni í „nýju“ starfsgreinunum. Lausn á þessu getur falist í borgaralaunum. Það er stórt málefni sem maður getur talað um fram og til baka í marga daga en hin mikla áskorun í því er hvernig á að fjármagna þetta fyrirkomulag. Ég held kannski, já þetta er ekki einfalt, að rétta leiðin sé að skattleggja ofurarðbær fyrirtæki. Ofurarðbæru fyrirtækin eru þau sem hafa gert mest af virkri starfsemi sinni sjálfvirk og hafa óeðlilega háa framlegð, það er að segja ekki 10% heldur kannski 70%. Við sjáum nú þegar útlínur af slíkum fyrirtækjum í dag. Instagram sem dæmi höfðu 13 starfsmenn þegar Facebook keypti það fyrir 1 milljarð Bandaríkjadala. Það virkar sjálfbærara og sanngjarnara að hluta af ofurframlegðinni sé hægt að deila á alla sem hafa verið skipt út fyrir vélmenni og eru á borgaralaunum. Þar að auki þurfum við verulega lægri framfærslukostnað vegna vélmennavæðingarinnar og þá þurfum við ekki eins háar tekjur og við höfum í dag. Bílar verða sjálfvirkir og ódýrir vegna þrívíddarprentunartækni, við munum hafa næstum ókeypis sólarorku, hús og innanstokksmunir verða prentuð með þrívíddartækni, meiri bjartsýni mun gæta í matvælaframleiðslu, meiri áhersla verður lögð á svæðisbundna og ódýra framleiðslu og svo framvegis.“
 
Bóndinn mun ekki hverfa
 
Lars bendir á að samkvæmt skýrslu­ World Economic Forum um „fjórðu iðnbyltinguna“ er líklegast að eftirfarandi starfsgreinar verði teknar yfir af vélmennum innan tveggja ára: Símasölufólk, starfsfólk sem sinnir fjármálum, ljósmyndafyrirsætur ásamt leigu- og strætóbílstjórum. 
 
„Það sem mér finnst mest spennandi við tæknina og gervigreind eru framtíðarhorfurnar. Það eru margir sem eru ekki svo ákafir í að vinna ef þeir þurfa þess ekki og þannig verða borgaralaun kannski fín ný framtíð. Sú staðreynd að gervigreind geti hjálpað til við að leysa áskoranir í heilbrigðisgeiranum og gera heiminn aðeins grænni gerir mig bæði bjartsýnan og ákafan yfir þróuninni,“ segir Lars og bætir við:
 
„Þegar kemur að landbúnaði þá verður þróunin ekkert öðruvísi þar en í öðrum greinum og sjáum við nú þegar mikla þróun í notkun vélmenna til notkunar í landbúnaði og nýja tækni. Bóndinn mun ekki hverfa en hann mun geta unnið mun skilvirkara með aðstoð vélmenna og gervigreindar. Mikið af erfiðu, skítugu og hættulegu vinnunni verður hægt að koma yfir á vélmennin sem er góð þróun, bæði fyrir bóndann og fyrir þá sem kaupa landbúnaðarvörur.“
 
Byltingin er hafin
 
„Við höfum ákveðinn ramma til að skilja þróun á tækninni í dag og öll tækni sem er gerð stafræn fylgir þessari þróun sem flokkast undir hin 6 D. Það byrjar með Digitized. Tækni sem er gerð stafræn skapar mikið gagnamagn sem hægt er að deila og greina. Næsta stig er Deceptive þar sem þróun á tækninni gerist á ógnarhraða en byrjar mjög hægt og er þess vegna lítið sýnileg í byrjun. Sem dæmi þá er þrívíddarprentun meira en 30 ára gömul tækni. Hún byrjaði hægt og rólega en stefnir nú í að bylta framleiðslu á vörum um allan heim. Þá verða fyrirtæki Disrupted þegar þau hugsa línulega á meðan tækniþróunin er á veldishraða. Hinn mikla mun er hægt að sýna með því að taka 30 skref. Ef þú tekur 30 línuleg skref, 1-2-3-4-5…, kemst þú litla 30 metra. Ef þú tekur hins vegar 30 skref á veldishraða sem tvöfaldast við hvert skref, 1-2-4-8-16…, kemst þú 1.073.741.824 metra. Það jafnast á við 26 sinnum í kringum Ekvador! Flestir skilja ekki þennan mun og það er ekki svo skrýtið. Ég lít á það sem verkefni mitt að hjálpa fólki og fyrirtækjum að skilja þetta,“ útskýrir Lars og segir jafnframt: 
 
„Næsta stig er Dematerialize sem þýðir að við erum á leiðinni inn í raunveruleika þar sem við eigum ekki neitt og allt snýst um þjónustu. Tækni sem verður stafræn verður að þjónustu. Hugsaðu um öll öpp sem þú hefur á snjallsímanum þínum, áður fyrr voru þetta líkamlegar vörur. Hið sama mun gerast til dæmis með bíla. Við notum bílinn í kringum 4% af tíma dagsins, þar fyrir utan er hann í kyrrstöðu og verður minna virði með hverjum degi sem líður. Það er brjálæði! Bættu við það að sitja fastur í umferðinni, árekstrum og óteljandi bílastæðum og þá skilur maður að eitthvað þarf að gera. Bílar verða sjálfkeyrandi og við kaupum okkur aðgang að þeim eins og þjónustu. Þegar líkamlegar vörur verða að þjónustu þá verða þær einnig Demonetized, það er, að kostnaður verður nánast enginn og hægt er að bjóða vöruna allt að því ókeypis. Hvað kostar til dæmis fyrir Spotify að taka inn nýjan notanda í tónlistarþjónustu sína? Næstum ekkert. 
 
Við enda rammans finnum við Democratized sem er jákvætt orð. Þegar vörur verða að þjónustu og nánast ókeypis þá verða þær aðgengilegar fyrir alla jarðarbúa fyrir sama verð og sömu gæði. Það hefur aldrei gerst áður. Þetta mun eiga við um menntun, heilsu, upplýsingar og svo framvegis. Þeir þrír milljarðar manna sem hafa ekki nettengingu í dag munu á næstu 4–5 árum tengjast í gegnum risaverkefni sem Google, Amazon og Facebook eru með í gangi á þessu sviði. Þá getur maður til dæmis greint heilbrigði sitt í gegnum gervigreindarlausnir í skýinu með sömu gæðum og fyrir sama lága verð hvort sem maður situr í Úganda eða á Manhattan. Þetta er bylting fyrir alla jarðarbúa, bylting sem er nú þegar hafin.“

6 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...