Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ólöf Erla Halldórsdóttir og Sigurður Sigurðarson dýralæknir hafa gert víðreist um landið til að merkja staði þar sem grafin hafa verið dýr sem drepist hafa af miltisbrandi.
Ólöf Erla Halldórsdóttir og Sigurður Sigurðarson dýralæknir hafa gert víðreist um landið til að merkja staði þar sem grafin hafa verið dýr sem drepist hafa af miltisbrandi.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 2. janúar 2019

Merkingu á 152 miltisbrunagröfum er lokið

Höfundur: Sigurður Sigurðarson og Hörður Kristjánsson
Sumarið 2017 og einnig 2018 fóru Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Selfossi, og Ólöf Erla Halldórsdóttir, kona hans, um landið og merktu miltis­brunagrafir, en þær eru um allt land. Reynslan hefur sýnt hvað mikilvægt  er að þekkja og merkja grafirnar. 
 
Árið 2004 drápust þrír hestar á Vatnsleysuströnd úr miltisbrandi, en þar var 130 ára gömul gröf sem ágangur sjávar hafði raskað og smit borist í bithaga. Sigurður hófst þá handa við að kortleggja þá staði þar sem vitað var að miltisbrandsgrafir voru og jafnframt leita heimilda um gleymdar grafir.
 
 
Getur lifað í jarðvegi nær endalaust
 
Sýkillinn sem veldur miltisbrandi myndar dvalargró og lifir nær endalaust niðri í jörðinni en virðist verða hættulítill í yfirborðinu í grennd við grafirnar eftir fáar vikur væntanlega fyrir áhrif sólarljóss og veðrunar. Ef jörð er raskað t.d. við skurðgröft, ræktun, vegalagningar, byggingar og flagmyndun sem verður við nauðbeit hrossa  svo að hræ dýranna eða hlutar þeirra kunna að koma upp á yfirborðið er hætta á ferðum. Ef jörðin er látin óhreyfð, þar sem miltisbrunagrafirnar eru er engin smithætta. Veikin er þekkt í flestum suðlægum löndum, sums staðar er hún skæð og algeng. Á Spáni finnast um 40–60 ný tilfelli árlega.
 
 
Barst til Íslands með ósútuðum húðum frá Afríku 1865
 
Sýkingin barst til Íslands með innfluttum ósútuðum húðum um 1865, fyrst og fremst frá Afríku. Veikin kom fyrst upp í Miðdal í Mosfellssveit. Árið 1866 fórust á þeim bæ 20 stórgripir (12 hross og 8 nautgripir) og árið eftir 4 hross og 2 naut og auk þess 3 lömb og 2 hundar, sem snuðruðu í hræjunum. Sagnir benda til þess að hún hafi líka gert usla hér á landi á 17. öld (Hamrar í Grímsnesi).
 
Síðast fannst  miltisbrandur hér á landi árið 2004 á Sjónarhóli í Vatnsleysuströnd.  Þá hafði sjórinn brotið sjávarkamb og dreift efni úr honum yfir beitiland 4 hrossa, sem þar voru. Þrjú hrossanna drápust skyndilega, en 4. hrossið veiktist og var lógað. Sagnir herma að 130 árum áður hafi skepna, sem dó úr miltisbrandi, verið grafin í sjávarkambinum á Sjónarhóli. 
 
Næst áður fannst miltisbrandur 40 árum fyrr (1965) á Þórustöðum í Ölfusi. Þar  hafði rask verið gert á mógrafasvæði við túnið, skurðir grafnir og jörð plægð vegna  ræktunar á fóðurkáli. Í mógrafirnar á að hafa verið fleygt hræjum af hjörð, sem fargað var vegna miltisbrands um 1900. 
 
Að minnsta kosti 10 manns hafa látist af miltisbrandi á Íslandi
 
Smithætta er fyrir flestar dýrategundir með heitu blóði og fyrir fólk. Að minnsta kosti 10 manns hafa látist af þeim sökum hér á landi og margir tugir manna hafa veikst, sem tekist hefur að lækna. Áður en menn þekktu veikina og ráð gegn henni, dóu þúsundir manna erlendis úr miltisbrandi. Skepnur sem drápust úr miltisbrandi voru grafnar djúpt og girt í kringum grafirnar. Ef jörðin er látin óhreyfð,  á stöðum sem merktir hafa verið, þá er hættan engin. 
 
Þekktar eru um 150 grafir á um 120 stöðum. Merkingarnar eru nú varanlegri en áður þ.e. stálplata með ágröfnu númeri, sem gæti enst í 100 ár og endurskinslímborði, sem gæti enst í 20 ár.  Síðasta merkið rákum við Ólöf í jörð í haga Neslands á Seltjarnarnesi í október 2018. Þar veiktust 15 hross haustið 1870 og 10 þeirra dóu úr miltisbrandi.
 
Merkin eru hvítur sívalur stólpi, 50 cm hár og 7 cm í þvermál á jarðföstum teini (kambstál).
 
Fjöldi staða og bæja þar sem veikin hefur fundist eða má ætla að hún hafi fundist eru tilgreindir hér að ofan eftir landsvæðum og einnig hvernig merkingum hefur verið háttað á hverju svæði. Fjölda staða og bæja þarf að taka með fyrirvara. Bókstafurinn A stendur fyrir -Anthrax-, sem er hið erlenda heiti á miltisbrandi. 
 
Varð ljóst að hér á landi voru miltisbrunagrafir tifandi tímasprengjur
 
„Ég fór að undirbúa merkingar á gröfunum árið 2004. Þá hafði ég verið á ráðstefnu í Svíþjóð, þar sem fjallað var um miltisbrand í villtum dýrum. Þar hitti ég menn frá Suður-Afríku, sem sögðu mér að þeir þekktu dæmi þess að miltisbrunasýking hefði lifað í 200 ár. Mér varð þá ljóst að hér á landi væri miltisbrunasýking frá skepnum, sem grafnar hefðu verið í jörðu um allt land, eins og tifandi tímasprengjur,“ segir Sigurður Sigurðarson.  
 
Unnið á eigin kostnað auk fjölmargra sem lagt hafa verkefninu lið
 
„Eftir að ég hætti störfum hjá yfirdýralækni um 2006 hefur þetta starf þ.e.; öflun upplýsinga, staðsetning, merking og skráning að mestu verið sjálfboðavinna mín, en kostnaður sem undirritaður hefur greitt úr eigin vasa vegna þessa verks er kominn í 950.000. Í þeirri upphæð eru engin vinnulaun, enda hafði ég ætlað mér að láta eftirlaunin mín duga til þess.  
 
Í fyrravor var ég orðinn vondaufur um að geta lokið þessu verkefni, einkum vegna daufra undirtekta og æpandi þagnar stjórnvalda við beiðni minni um aðstoð. Þá gekkst Guðni Ágústsson, fyrrum landbúnaðarráðherra, fyrir því að útvega bíl og eldsneyti  svo að fara mætti á milli miltisbrunastaðanna til að merkja og safna upplýsingum. Guðni er sá sem mestan skilning hefur á þessu verkefni mínu og hve nauðsynlegt það er. Heiður og þökk sé honum fyrir það. Svo fékk ég Ólöfu konu mína til að vinna með mér við merkingarnar, en það var og er ómetanlegt.
 
Ýmsir fóru að styrkja þetta verkefni þegar þeir fréttu af því og fjölmargir hafa lýst ánægju sinni. Hjartans þökk. Það hjálpaði okkur Ólöfu af stað. Bílaumboðið BL lagði til fjórhjóladrifinn bíl og N 1 lagði til eldsneyti. Baldur Baldursson, BB-skilti ehf., gekk fram af drengskap og krafti við að koma þessu verkefni af stað og fengu ýmsa góða menn til að styðja það t.d: Micro ryðfrí sérsmíði, Wurth, Verkfæralagerinn, Arkir ehf. o.fl. og Björn Jenson rennismiður hefur lánað rafmagnsborvél og draghnoðatöng. Mjólkursamsalan, Bændasamtökin, Sláturfélag Suðurlands og Kaupfélag Skagfirðinga hafa styrkt þetta verkefni. Hjartans þakkir til þessara aðila allra.“
 
Hlutverk annarra að taka við ábyrgðinni
 
„Ég geri mér ljóst, að ég mun ekki geta tekið þetta verkefni með mér yfir í aðra heima.
Aðrir verða að taka við ábyrgðinni. Ég hef nú rætt við Matvælastofnun. Hún tekur því vel að taka við starfi mínu og eftirliti og gera tillögur um reglugerð, sem tryggi öryggi merkinganna og endurnýjun merkja, sem kunna að falla út af eða týnast, en sem betur fer virðist merkingarlag okkar traust og endingargott.“
 
Merki  troðin í svaðið af hrossum
 
„Hrossum verður þó að halda frá slíkum merkjum. Slíkt eftirlit og ábyrgð verður í fyrstu lotu að falla á ábúendur og eigendur jarða, þar sem grafirnar eru og hætta fyrir umhverfið. Því miður hafa ekki allir þessir aðilar áttað sig á nauðsyn þess og sum merki hafa týnst eða verið troðin í svað af hrossum,“ segir Sigurður. 
 

Gró miltisbrands geta lifað í jarðvegi í hundruð ára

Miltisbrandur er sjúkdómur sem sýkill að nafni Bacillus anthracis veldur. Það eru einkum grasbítandi dýr sem taka þennan sjúkdóm en menn geta þó af og til sýkst af honum. Sjúkdómar sem finnast í dýrum en geta jafnframt lagst á menn eru nefndir súnur (zoonosis).
 
Sýkillinn getur myndað dvalagró eða spora. Sporarnir geta lifað í hundruð ára í rökum og súrum jarðvegi og segir Sigurður Sigurðarson dæmi um allt að 500 ár. Á yfirborði endist miltisbrandur hins vegar ekki lengi m.a. vegna áhrifa sólarljóss og súrefnis. 
 
Af þessum ástæðum getur miltisbrandur verið alvarlegt vandamál í búfjárrækt. Stærð sporanna, sem eru 2–6 míkron (míkrómetrar, milljónustu partar úr metra) í þvermáli, gerir þá kjörna til að setjast á slímhúð í öndunarvegum manna og dýra. Sporarnir loða hins vegar við jarðveginn en það dregur úr líkum á því að menn smitist með beinum hætti frá jarðvegi. Þegar sporar komast hins vegar í hýsil þar sem skilyrði eru hagstæð breytast þeir í það form sem sýkillinn hefur þegar hann er að vaxa. Sýkillinn ber með sér eiturefni eða toxín sem er afar skaðlegt og veldur drepi.
 
Einkenni 
 
Einkenni miltisbrands ráðast að nokkru af því hvernig smitið berst. Algengasta smitleið sýkilsins til manna er gegnum húð sem er rofin. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir sýktra dýra eru í mestri hættu. Sýkillinn veldur kýlum sem síðar rofna og eru þá með svörtum sárbotni vegna dreps. Húðsýking er vægasta mynd sýkingarinnar og leiðir til dauða í 20% tilfella ef hún er ekki meðhöndluð. Meðgöngutími húðsýkingar er 3–5 dagar.
 
Neysla mengaðrar fæðu getur leitt til sýkingar í meltingarfærum eða hálsi. Einkenni í byrjun eru almenns eðlis en geta síðan þróast yfir í alvarleg einkenni frá meltingarfærum eða hálsi með fylgjandi blóðþrýstingsfalli og dauða. Í mönnum kemur sýkingin oftast eftir neyslu kjöts af sýktu dýri. Meðgöngutími sýkingar er 3–7 dagar.
 
Loks geta sporar sýkilsins borist í öndunarveg og þaðan komist í eitilvef og valdið þar sýkingu, drepi og blóðsýkingu. Þetta er sú smitleið sem helst er notuð til að dreifa miltisbrandi í hernaði og hryðjuverkastarfsemi. Við náttúrulegt öndunarfærasmit hafa starfsmenn í ullariðnaði reynst í mestri áhættu.
 
Fyrstu einkenni lungnasmits eru lík inflúensu með hita, vöðvaverk, höfuðverk, þurrum hósta og smávægilegum óþægindum fyrir brjósti sem vara í örfáa daga. Næstu 1–3 daga eftir upphafseinkenni líður sjúklingi betur en versnar svo skyndilega með háum hita, andnauð og losti. Oft má sjá bjúg á brjóstkassanum og geta sjúklingar fengið blæðandi heilahimnubólgu. Meðgöngutími frá lungnasmiti þar til einkenni gera vart við sig er oftast 1–6 dagar en getur verið lengri, allt að 43 dagar.
 
Heimildir: 
Vísindavefurinn – Sigurður Sigurðarson
og embætti landlæknis

7 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...