Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Christian Lund er kúabóndi og formaður KVÆG, sem er það svið innan dönsku bændasamtakanna sem snýr að nautgriparækt.
Christian Lund er kúabóndi og formaður KVÆG, sem er það svið innan dönsku bændasamtakanna sem snýr að nautgriparækt.
Á faglegum nótum 31. mars 2020

Styrkur nautgriparæktarinnar felst í samstöðunni

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snorri.sigurdsson@outlook.com

Nýverið var haldinn hin árlega Kvæg­kongres í Herning í Dan­mörku en um er að ræða ársfund dönsku nautgripa­ræktar­innar. Líkt og áður var um að ræða blandaða ráðstefnu þ.e. bæði aðalfund þarlendra nautgripa­bænda en einnig fagþing með fjölda fróðlegra erinda um málefni greinarinnar.

Þessi tveggja daga fundur, sem rúmlega 2.200 kúabændur, ráðunautar og annað áhugafólk um nautgriparækt sóttu, vekur alltaf mikla athygli meðal fagfólks í Evrópu enda er dönsk nautgripa-rækt leiðandi í heimsálfunni og horfa því margir til þess sem þar gerist.

Sterkari saman

Sem fyrr voru það skýrslur formanns og framkvæmdastjóra Kvæg, búgreinafélags nautgripa-ræktarinnar innan dönsku bænda­samtakanna, sem voru megin málefni aðalfundar samtakanna. Formaðurinn, kúabóndinn Christian Lund, lagði áherslu á það að fram undan væru ýmsar áskoranir fyrir búgreinina í heild s.s. varðandi umhverfismál, loftslagsumræðuna og breytingar á neyslumynstri sem búgreinin yrði að takast á við í sameiningu.

„Heimurinn er stöðugt að breytast og þróast og kúabúin okkar þurfa að vera í stakk búin að takast á við þessar breytingar og vera nógu stöndug til þess,“ sagði formaðurinn m.a. og vísaði með þeim orðum til uppbyggingar kúabúa í heild sinni, enda um langtímafjárfestingu að ræða þegar kúabú er byggt upp og oft er getan til að takast á við snöggar breytingar takmörkuð.

Gekk betur 2019

Christian Lund lagði einnig áherslu á að þrátt fyrir nokkuð ófyrirséða framtíð þá væru dönsk kúabú vel í stakk búin og bráðabirgðauppgjör á rekstrarniðurstöðum síðasta árs sýna að reksturinn gekk að jafnaði betur árið 2019 en árið 2018 bæði hjá kúabúum í hefðbundinni mjólkurframleiðslu og þeim fjöl­mörgu sem eru í lífrænt vottaðri framleiðslu.

Kúabúin í uppgjörinu sem voru í hefðbundinni mjólkurframleiðslu voru rekin að jafnaði með töluverðum afgangi, fyrir laun eigenda, eða frá 3-20 milljónum íslenskra króna og lífrænu búin voru að skila að jafnaði frá 8-24 milljónum íslenskra króna í hagnað fyrir laun eigenda. Þau bú sem voru eingöngu í sláturkálfaeldi gengu einnig betur í fyrra en árið 2018 og var meðalhagnaður þeirra, fyrir greiðslu launa til eigenda, 8 milljónir íslenskra króna.

Ráðgjafa- og þróunarfyrirtækið SEGES hefur umsjón með og stendur fyrir Kvægkongres á hverju ári.

Aflífun smákálfa bönnuð eftir tvö ár

Sum mjólkurkúakyn í dag eru svokölluð blönduð kyn, þ.e. nautin sem fæðast geta verið alin til kjötframleiðslu og dæmi um þetta eru t.d. rauðu norrænu kynin og Holstein kynið. Holstein kynið hentaði hreint ekki til þess fyrir nokkrum áratugum, en hefur tekið miklum breytingum í seinni tíð vegna mikilla kynbóta og ná naut þess nú að vaxa hratt og vel. En á sama tíma eru sum kúakyn þess eðlis að nautin sem fæðast vaxa ekki sérlega hratt né hafa góða fóðurnýtingu. Af þeim sökum hafa bændur stundum neyðst til að aflífa þessi naut eða senda í sláturhús fljótlega eftir fæðingu. Fullyrða má að enginn kúabóndi vill aflífa heilbrigð dýr snemma í framleiðsluferlinu en þetta framleiðslukerfi er þó algengt í heiminum í dag, sérstaklega hjá bændum sem búa með Jersey kýr.

Christian Lund sagði búgreinina ekki lengur geta staðið á bak við þetta framleiðsluferli og sagði erfitt siðferðilega að verja svona framgang jafnvel þó svo að hið danska Siðferðis- og dýravelferðarráð hafi samþykkt þetta framleiðsluferli. Vegna þessa hefur búgreinin nú tekið ákvörðun um að banna þessa aðferð frá og með árinu 2022 en það verður þó framvegis heimilt að aflífa kálfa í neyð s.s. vegna alvarlegra sjúkdóma eða af öðrum slíkum ástæðum. Athygli vekur að það eru ekki yfirvöld sem hafa tekið þessa ákvörðun heldur búgreinin sjálf.

Hvatti til samvinnu

Formaðurinn hafði fleiri hugmyndir sem hann henti fram á ársfundinum og voru margar þeirra fyrst og fremst í tengslum við danska löggjöf eða varðandi vandamál sem eiga ekki beint erindi við íslenskar aðstæður. Eitt sagði hann þó sem er allrar athygli vert en það var að hann lagði til að kúabændur ættu að horfa meira til samvinnu í tengslum við gróffóðuröflunina. Þetta hefur greinarhöfundur bent á nokkrum sinnum áður í tengslum við umfjöllun um góðan árangur kúa-bænda í Ísrael og er afar jákvætt að sjá danska kúabændur byrja að feta þessa sömu leið núna. Christian Lund sagði m.a.

„Þegar við erum að hugsa um framleiðslu á gróffóðri ættum við etv. að horfa til samvinnu og hugsa út fyrir okkar eigin bújörð,“ sagði hann og gat þess að sumir væru einfaldlega afar góðir í jarðrækt og aðrir í fjósverkum og hér væri upplagt að horfa til víðtækrar samvinnu.

Eftir 20 ár?

Christian sagði að þegar hann hóf búskap fyrir 20 árum þá hefði hann ekki getað ímyndað sér stöðu búgreinarinnar eins og hún er í dag og að sama skapi sagði hann að hann hefði ekki hugmynd um hvernig staðan yrði árið 2040. Eitt væri þó víst, að staða búgreinarinnar þá verður ekki eins og hún er í dag.

„Við þurfum öll að finna okkar leið inn í framtíðina en ég er þess fullviss að sú leið verður betri ef við förum saman frekar en í sitt hvoru lagi. Saman sköpum við það umhverfi sem við búum í og gerum okkur sjálfum og þeim sem taka við búum okkar mögulegt að halda áfram í búskap í framtíðinni,“ sagði Christian að lokum.

Ida Storm, framkvæmdastjóri KVÆG, ræddi m.a. um mögulegar breytingar á starfsumhverfi danskra kúabænda í framtíðinni.

„Mjólkur“prótein í tönkum?

Framkvæmdastjóri samtakanna, Ida Storm, kom inn á í erindi sínu að miklar og örar breytingar eigi sér stað nú og breytt neyslumynstur og veðurfar gæti gert það að verkum að kúabú framtíðarinnar gætu þurft að breyta rekstri sínum á komandi áratugum.

„Sumir setja spurningamerki við framtíð okkar búgreinar og hvort hún muni hafa tilgang í framtíðinni eða hvort kýr muni yfirhöfuð hafa eitthvað hlutverk eftir um áratug eða svo. Sumir telja að við eigum frekar að rækta gras eða þörunga sem svo megi nota áfram til að framleiða „mjólkur“ prótein með erfðabreyttum örverum í gerjunartönkum“, sagði Ida og bætti við að það megi vel vera að hlutverk búgreinarinnar muni breytast í framtíðinni en hvað svo sem gerist, þá trúi hún því að danskir kúabændur muni skipa mikilvægt hlutverk um ókomna tíð í matvælaframleiðslunni.

„Fólki í heiminum fjölgar stöðugt og hlutfall þeirra efnameiri hækkar jafnt og þétt. Allt þetta fólk þarf bragðgóðan og næringarríkan mat og þá koma bæði mjólk og kjöt sem náttúrulegur hluti af fjölbreyttu fæði“.

Hluti virðiskeðjunnar

Ida lagði þó áherslu á það að kúabændur landsins ættu ekki að velkjast í vafa um það að í framtíðinni yrði hörð samkeppni um hylli neytenda og að ef vörur búgreinarinnar eigi að enda í innkaupakörfum neytenda framtíðar­innar þá þurfi búgreinin að sanna að vörurnar væru með sérstöðu. Hluti af því væri að bændur tækju meiri ábyrgð á þeim matvælum sem þeir framleiða og skynji sig sem hluta af virðiskeðjunni, en ekki einungis fyrsta þrep framleiðslunnar eins og svo margir gera.

Hjartamerking

Í því samhengi ræddi Ida nýtt opinbert merkingakerfi á landbúnaðarvörur en Danir kalla kerfið „Hjartakerfið“. Þetta er sérstakt merkingakerfi sem var komið upp af danska ríkinu, samtökum þarlendra verslana og ýmissa dýravelferðarsamtaka og eru matvörurnar merktar með einu hjarta, tveimur eða þremur eftir því dýravelferðarmati í hverju tilfelli fyrir sig. Því fleiri hjörtu sem varan er merkt með, því betri er dýravelferðin talin vera og snýst þetta m.a. um að gefa kálfi og kú meiri tíma saman svo lítið dæmi sé tekið.

Ida minnti á að almennar kröfur í danskri nautgriparækt væru þannig í dag að þó svo að kúabúið hefði ekki fengið framangreinda hjartavottun, þá væri dýravelferðin góð. Það væri þó þannig að markaður væri fyrir sérmerkingar og fengu þeir bændur sem leggja á sig auka vinnu við að uppfylla kröfur „Hjartakerfisins“ greitt aukalega fyrir afurðirnar.
Vilja bæta mjólkurgæðin

Ida kom einnig inn á að of mörg kúabú landsins fari á mis við gæðaálagsgreiðslur á mjólkina. Of margir lentu í einhverskonar áföllum annað hvort vegna frumutölu eða líftölu sem kostaði búin mikla peninga. Sýna útreikningar að meðal 50% bestu búanna megi þó að jafnaði bæta hag þeirra allra um 2.000 ÍKR á árskúna, með því að bæta mjólkurgæðin. Það væru þó mörg bú sem gætu bætt hag sinn mun betur og meðal þess hluta búa sem tapaði mestu vegna mjólkurgæða þá sýndu útreikningar að 25% búa landsins gætu bætt hag sinn um 6 þúsund ÍKR á árskúna ef mjólkurgæðin væru betri og síðasti fjórðungur búa landsins gætu bætt hag sinn um 20 þúsund á árskúna ef þau taka á mjólkurgæðamálunum! SEGES hafi því ákveðið að koma á fót nýju ráðgjafartilboði sem snúi að því að bæta mjólkurgæðin enn frekar. Í þessu kerfi munu bændur geta farið í áskrift að ráðgjöf og með ábyrgð, þ.e. tryggingu fyrir því að ná árangri.

Básafjósin eiga rúm sex ár eftir

Danski matvælaráðherrann, Mogens Jensen, hélt ræðu á ársfundinum og kom víða við. Hann gat þess m.a. að í dag væri búið að banna básafjós til mjólkurframleiðslu en í raun ekki til kjötframleiðslu. Þetta sagði hann einfaldlega mistök sem þyrfti að leiðrétta, það væri fráleitt að leyfa að binda holdakýr en ekki mjólkurkýr að sjö árum liðnum, en í Danmörku verður ekki lengur heimilt að framleiða mjólk í básafjósum eftir áramótin 2026-2027.

Mogens boðaði það að hann myndi setja á bann við bindingu allra nautgripa frá sama tíma og sagði um leið að hann væri með öllu mótfallinn því að lengja í tímanum, þ.e. seinka gildistöku laganna en búgreinin hefur reynt að fá frestun á gildistökunni til ársins 2032.

Kvægkongres er stærsta árlega nautgriparæktarráðstefnan í norðurhluta Evrópu og er alltaf afar fjölmenn. Í ár sóttu hana heim um 2.300 gestir.

Vill hækka styrkina!

Danski ráðherrann kom einnig með ánægjulegar fréttir inn á aðalfundinn en hann sagði dönsku ríkisstjórnina hafa vilja til að efla stuðning sinn við dönsku nautgriparæktina enn frekar. Þannig hafi hann lagt til við danska þingið að auka stuðning við nautakjötsframleiðslu um 1,3 milljarða íslenskra króna frá og með árinu 2021 og að þeirri upphæð verði allri varið til gripagreiðslu á sláturgripi.

Tilgangurinn með þessari aðgerð væri að efla innlenda framleiðslu á nautakjöti enn frekar og styrkja samkeppnisstöðu danskra kúabænda gagnvart kúabændum í öðrum löndum Evrópu en margir danskir bændur hafa selt smákálfa til uppeldis erlendis, þar sem bændur í öðrum löndum Evrópu hafa getað greitt mun hærra verð fyrir smákálfa en danskir bændur í nautaeldi. Með þessum sértæku aðgerðum telur danski ráðherrann að samkeppnisstaðan styrkist og dönsk nautakjötsframleiðsla muni eflast enn frekar. Þá sé þetta skref einnig jákvætt fyrir markaðinn enda séu dýravelferðarkröfurnar í Danmörku strangari en í nágranna­löndunum og þar með muni hlufall kjöts af gripum, sem hefur verið hlúið betur að, hækka.

Byggt á ýmsum dönskum greinasöfnum.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...