Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Íslendingar eru önnur stærsta fiskveiðiþjóðin í Vestur-Evrópu. Hvergi eru sköpuð meiri verðmæti í sjávarútvegi á hvern íbúa en á Íslandi, ef Færeyjar eru undanskildar. Myndin er frá Hornafjarðarhöfn. Mynd / HKr.
Íslendingar eru önnur stærsta fiskveiðiþjóðin í Vestur-Evrópu. Hvergi eru sköpuð meiri verðmæti í sjávarútvegi á hvern íbúa en á Íslandi, ef Færeyjar eru undanskildar. Myndin er frá Hornafjarðarhöfn. Mynd / HKr.
Fréttaskýring 8. október 2018

Hversu stórir (litlir) erum við?

Höfundur: Guðjón Einarsson

Við Íslendingar lítum gjarnan á okkur sem stóra sjávarútvegsþjóð, þótt þess sjáist kannski ekki merki í hinu alþjóðlega samhengi. Við getum alla vega fullyrt að við séum stórir miðað við höfðatölu.

Eins og títt er um smáþjóðir erum við Íslendingar talsvert uppteknir af því að bera okkur saman við aðrar þjóðir á öllum hugsanlegum sviðum, ekki síst ef samanburðurinn er okkur hagstæður. Við gleðjumst yfir því að vera í hópi hamingjusömustu þjóða heims, hérlendis mælist spilling minni en víða annars staðar, lífskjörin eru sögð með því besta sem þekkist, og svo framvegis.

Sjávarútvegurinn hefur lengst af verið burðarásinn í íslensku efnahagslífi (þótt ferðaþjónusta hafi skotist fram fyrir hann í gjaldeyrisöflun á allra síðustu árum) og íslenskur sjávarútvegur skipar sér í fremstu röð á alþjóðavísu, eins og forsætisráðherrann okkar orðaði það í ræðu í síðustu viku. En hversu stórir og mikilvægir erum við Íslendingar á þessu sviði í samanburði við aðra?

Stærstu fiskveiðiþjóðir

Nærtækast er að byrja á að skoða hvar í röðinni við erum í hópi stærstu fiskveiðiþjóða miðað við aflamagn (fiskeldi undanskilið). Lengi vel var Ísland í 10.-15. sæti á lista Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) yfir heimsaflann eftir löndum en á árinu 2016 var það komið niður í 19. sæti. Breytingin stafar aðallega af samdrætti í loðnuafla hér við land. Þegar best lét í loðnuveiðum komst heildarfiskafli Íslendinga vel yfir 2 milljónir tonna (svipað og í Noregi). Heildarafli Íslendinga árið 2016 var hins vegar tæplega 1,1 milljón tonna á sama tíma og heimsaflinn var 92 milljónir tonna. Hlutur Íslands var því 1,2% af heimsaflanum þetta tiltekna ár. Kínverjar eru langlangstærsta fiskveiðiþjóð heims með 17,7 milljónir tonna á árinu 2016 sem er 19,6% af heild (sjá töflu).

Norðmenn eru 9. mesta fiskveiðiþjóð heims og fengsælastir þjóða í Vestur-Evrópu með 2,3 milljónir tonna árið 2016. Íslendingar koma þar næst á eftir í þeim heimshluta en eru samt aðeins hálfdrættingar á við Norðmenn. Spánverjar eru svo nokkru neðar á listanum og síðan Danir.

Aflaverðmæti á mann

Íslendingar eru sem sagt önnur stærsta fiskveiðiþjóðin í Vestur-Evrópu sem er hreint ekki svo slæmt. Ef við beitum svo höfðatölureglunni sem okkur er svo töm í svona samanburði kemur í ljós að hvergi eru sköpuð meiri verðmæti í sjávarútvegi á hvern íbúa en á Íslandi, ef Færeyjar eru undanskildar.

Aflaverðmæti á Íslandi á árinu 2015 svaraði til 468 þúsund króna á hvert mannsbarn. Í Færeyjum, þar sem allt byggist á fiski en þjóðin er fámenn, var þessi tala 1,1 milljón íslenskra króna. Þessar þjóðir hafa algjöra sérstöðu meðal þjóða í Vestur-Evrópu. Til samanburðar má nefna að aflaverðmæti á hvern Norðmann var 46 þúsund krónur (þ.e. einn tíundi miðað við Ísland), í Danmörku og Írlandi 10 þúsund krónur á hvert mannsbarn í hvoru landi og í Bretlandi aðeins 2 þúsund krónur á mann.

Ríkisstyrkir víðast hvar

Þetta sýnir auðvitað hversu þungt sjávarútvegur vegur í efnahagnum á Íslandi og í Færeyjum samanborið við hin nágrannalöndin. Þótt Norðmenn veiði tvöfalt meira af fiski en Íslendingar er sjávarútvegur þar í landi ekki sú meginstoð efnahags sem hún er hérlendis. Raunar er hlutverk sjávarútvegsins í Noregi fyrst og fremst það að halda uppi byggð í Norður-Noregi. Í hinum löndunum sem nefnd voru er mikilvægi sjávarútvegs ennþá minna í efnahagslífinu og víða þurfa þessar atvinnugreinar háa opinbera styrki til þess að halda sér gangandi. Fram hefur komið að íslenskur sjávarútvegur sé sá eini í OECD-löndunum sem greiðir veiðigjöld. Færeyingar hafa nú einnig tekið upp veiðigjöld á ákveðnar fisktegundir en aðrar ekki. Nánast alls staðar annars staðar er sjávarútvegur ríkisstyrktur.

Samherji í 40. sæti

En hversu stór eru stærstu íslensku sjávar­­útvegs­fyrirtækin í alþjóðlegum samanburði? Hér á landi er gjarnan talað um þau stærstu, eins og Samherja, sem sjávarútvegsrisa og vissulega má það til sanns vegar færa á íslenskan mælikvarða. Á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) kemur fram að Samherji sé eina íslenska fyrirtækið á lista yfir 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims og skipi þar 40. sætið. Rétt er þó að minna á í þessu sambandi að stór hluti af starfsemi Samherja felst í útgerð og fiskvinnslu erlendis.

Samanlagðar tekjur dóttur- og samstarfsfélaga í fimmtán löndum innan samstæðu Samherja námu um 77 milljörðum króna í fyrra. Þótt Samherji sé stór í okkar augum bliknar hann þó í samanburði við allra stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims sem eru m.a. frá Japan, Taílandi, Noregi, Spáni, Kína, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum.

Stærstu risarnir

Þrettán stærstu sjávarútvegs_fyrirtæki heims ráða yfir 11-16% heimsaflans eða 9-13 milljónum tonna, að því er fram kemur í skýrslu Arion banka sem unnin var í samvinnu við Sjávarklasann árið 2015. Stærst þessara fyrirtækja, Maruha Nichiro, er með yfir 100 starfsstöðvar í fimm heimsálfum. Árstekjur þess árið 2014 námu yfir 1.000 milljörðum íslenskra króna og starfsmenn voru ríflega 12.000 talsins. Til samanburðar má nefna að um 8.000 manns starfa í fiskveiðum og fiskvinnslu hérlendis og útflutningsvermæti greinar­innar nam tæpum 200 milljörðum króna á síðasta ári. Tekjur þessa eina fyrirtækis nema sem sagt fimm sinnum hærri upphæð en tekjur allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi samanlagt.

Hvergi ráðandi afl

Þótt Íslendingar séu að sönnu ekki umsvifamiklir í sölu sjávarafurða á heimsmarkaði með sín 1% af sölunni samanborið við Japani með 39%, Bandaríkjamenn með 12% og Norðmenn með 10% (að meðtöldum eldisfiski) er hlutur Íslands í ákveðnum tegundum og á ákveðnum mörkuðum umtalsverður.

Þetta á til dæmis við um frystan og ferskan þorsk í Bretlandi og Frakklandi og saltfisk á Spáni. Ekki er þó þar með sagt að Íslendingar séu ráðandi afl í verðlagningu þessara afurða því verðið ræðst af framboði og eftirspurn á þessum mörkuðum. Ekki aðeins eru þessar vörur í samkeppni við samsvarandi afurðir frá öðrum löndum heldur keppa þær einnig við aðrar fisktegundir og aðrar matvörur um hylli neytenda.

Stór þótt lítil sé

Á einu sviði má þó segja að Ísland, þótt lítið sé, hafi vakið á sér athygli í alþjóðlegum sjávarútvegi. Þótt Íslendingar sjálfir deili hart um ágæti íslenska fisksveiðistjórnunarkerfisins og margir finni á því stóra galla verður ekki horft framhjá því að erlendis er gjarnan litið á kerfið sem fyrirmynd að góðum stjórnunarháttum í fiskveiðum. Hér er nýting fiskistofnanna sjálfbær og ráðamenn fara nánast undantekningarlaust að veiðiráðgjöf fiskifræðinga. Kvótakerfið hefur stuðlað að hagræðingu og aukinni arðsemi með fækkun fiskiskipa og vinnslustöðva, þrátt fyrir svipaðan afla og fyrr. Sjávarútvegurinn hefur fætt af sér hátæknifyrirtæki sem framleiða vélar og búnað sem leitt hafa til stóraukinnar sjálfvirkni sem aftur hefur skilað sér í aukinni hráefnisnýtingu og arðsemi. Nýjasta skrefið er svo líftækniiðnaður sem vinnur verðmætar lyf- og heilsuvörur úr fiskúrgangi sem áður var fleygt.

Því má í vissum skilningi segja að við Íslendingar séum stór sjávarútvegsþjóð, þótt lítil sé. 

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...