Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Úlfar hafsins eða  hundar faraós
Fréttaskýring 7. maí 2019

Úlfar hafsins eða hundar faraós

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Steinbítur hefur sérstöðu meðal botnfisktegunda. Hann sker sig meðal annars úr fyrir þá sök að megnið af aflanum er tekið á línu og smábátar veiða óvenjuhátt hlutfall af honum. Tæpur helmingur aflans kemur á land á Vestfjörðum.

Steinbítur veiðist víða í Norðurhöfum en hvergi í miklu magni. Íslendingar eru stærsta veiðiþjóð steinbíts í heiminum. Á almanaksárinu 2018 veiddust hér við land rúm 9.600 tonn af steinbít og er aflaverðmætið rúmir 1,2 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar en þangað eru tölulegar upplýsingar í þessari grein sóttar nema annað sé tekið fram.

Útflutningur á steinbít og steinbítsafurðum héðan nam rúmum 5 þúsund tonnum að verðmæti rúmir 2,5 milljarðar króna á síðasta ári. Þótt steinbíturinn sé mikilvæg nytja­tegund, sérstaklega á Vestfjörðum, þá vegur hann ekki þungt í heildarmyndinni. Útflutnings­tekjur sjávarafurða námu alls tæpum 240 milljörður árið 2018. Útflutningur steinbíts er því aðeins rúmt 1% af heildinni. 

Hverjir veiða steinbítinn?

Eitt af því sem einkennir steinbítsveiðar eins og að framan greinir er hve hátt hlutfall er tekið á línu í samanburði við aðrar helstu botnfisktegundir, svo sem þorsk og ýsu. Á árinu 2018 voru veidd um 5.660 tonn af steinbít á línu sem eru tæp 60% af heildinni. Í öðru sæti er dragnót með um 2.185 tonn og botnvarpa með rúm 1.690 tonn. Sókn í steinbítinn með botnvörpu jókst á árunum 1999 til 2008 en hefur síðan þá farið minnkandi.

Þá er einnig óvenjulegt miðað við aðrar botnfisktegundir hvað krókaaflamarksbátar, þ.e. smábátar, veiða mikið af stein­­bítnum. Þeir veiddu um 4.685 tonn í fyrra sem er tæpur helmingur ársaflans. Engin önnur botnfisktegund er veidd í jafn­miklum mæli hlutfallslega af smábátum eins og steinbíturinn.

Krókabátarnir eru að jafnaði með tæp 40% af úthlutuðum steinbítskvóta á hverju fiskveiðiári en þeir geta aukið hlutdeild sína í veiðunum með svonefndri línuívilnun, nýtingu byggðakvóta og leigu á aflaheimildum frá stærri bátum.

Fríða Dagmar ÍS efsti bátur

Að framansögðu kemur ekki á óvart að krókaaflamarksbátar raða sér í efstu sæti yfir aflahæstu báta í steinbít. Af 10 aflahæstu bátunum árið 2018 eru 7 smábátar en aðeins 3 stærri skip í aflamarkskerfinu, að því er sjá má á vef Fiskistofu.

Aflahæsti báturinn á árinu er smábáturinn Fríða Dagmar ÍS frá Bolungarvík með um 564 tonn. Þar á eftir kemur annar smábátur frá Bolungarvík, Einar Hálfdáns ÍS, með um 407 tonn. Aflahæsti báturinn í stóra kerfinu er Hvanney SF frá Hornafirði með um 391 tonn en Hvanney veiðir steinbítinn í dragnót.
Bolungarvík hæsta löndunarhöfnin

Steinbíturinn er vertíðarfiskur. Aðalveiðin er frá mars og fram í júní. Á síðasta ári kom mest á land í apríl, um 2.145 tonn sem er umtalsverður hluti ársaflans.

Steinbítur finnst við allt land en bestu veiðisvæðin eru vestur af landinu, frá Breiðafirði og alveg norður að Horni. Miðin á Vestfjörðum eru gjöfulust. Tæpur helmingur steinbítsaflans 2018 kom á land á Vestfjörðum. Vestfirðingar hafa líka sérstakt nafn yfir þennan fisk og kalla hann sladda og er það nafn þeim jafnvel tamara á tungu en steinbítur.

Bolungarvík er langstærsta löndunarhöfnin fyrir sladdann. Þar komu á land tæp 2.650 tonn í fyrra, eða um 27% heildaraflans á árinu. Í öðru sæti er Suðureyri með um 730 tonn. Þar á eftir koma Ólafsvík og Grundarfjörður með 590 tonn og tæp 530 tonn.

Frakkland trónir á toppnum

Þrjú lönd eru áberandi þegar tölur um útflutning á steinbítsafurðum eru skoðaðar. Þar trónir Frakkland á toppnum en þangað fóru steinbítsafurðir fyrir 938 milljónir króna í fyrra. Þar á eftir kemur Þýskaland með 589 milljónir og Bretland er í þriðja sæti með 303 milljónir. Samanlagt gáfu þessi þrjú lönd rúma 1,8 milljarða, eða 37% af heild.

Fersk steinbítsflök og bitar eru verðmætasta afurðin og skiluðu 1,2 milljörðum í fyrra. Aðrar afurðir eru frystar og svo heill ferskur steinbítur, sem er óunninn fiskur. Á árinu 2018 voru flutt út um 2.430 tonn af óunnum steinbít fyrir rúmar 500 milljónir. Það þýðir að um það bil fjórðungur steinbítsaflans hafi verið fluttur út óunninn á árinu. Megnið fór til Frakklands, eða 1.560 tonn.

Yfirleitt er óunnum fiski sem sendur er héðan landað beint í gáma til útflutnings. Svo er ekki um steinbítinn. Hann er aðallega keyptur á fiskmörkuðum innanlands. Erlendir framleiðendur hafa þá gjarnan íslenska umboðsmenn sem kaupa fyrir þá fiskinn á mörkuðunum og senda út.

Hundar faraós

Í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir að þegar Egyptalandsmenn gengu í vatnsgöngum í hafinu rauða á eftir Ísraelsfólki og sjórinn féll saman hafi faraóinn og allt hans lið orðið að selum. Aftur á móti urðu hundar þeir sem fylgdu Egyptunum allir að steinbítum og mun það vera uppruni steinbítsins. Þetta kemur fram í fróðlegri grein sem Vilmundur Hansen blaðamaður skrifaði í Fiskifréttir fyrir nokkrum árum.
Steinbíturinn er stór, frekar langur fiskur, yfirleitt um 50 til 60 sentímetrar, en sá stærsti sem veiðst hefur á Íslandsmiðum mældist yfir 120 sentímetrar. Vöxtur er frekar hægur en steinbíturinn getur orðið meira en 20 ára gamall.

Auk steinbíts- og sladdanafnsins hefur tegundin meðal annars gengið undir nöfnum eins og bláhaus, steinbítsgóma, blámaður, bjargræði, gonta, stemsi, horslæpa og Vestfirðingur.

Steinbíturinn lifir á 10 til 500 metra dýpi en er algengastur á 40 til 180 metrum og kann vel við sig á leir- eða sandbotni. Hann hrygnir við Ísland á haustin. Hjá steinbít á sér stað innri frjóvgun og eftir hrygningu klappar hrygnan eggjunum saman í stóran kökk á stærð við handbolta. Hængurinn annast hrognin í nokkra mánuði eins og greint var frá í rammagrein í síðasta pistli greinarhöfundar í Bændablaðinu sem fjallaði um rauðmagann.

Um hrygningartímann missir steinbíturinn tennurnar og er tannlaus um tíma og tekur ekki til sín fæðu og verður oft mjög rýr. Eftir að nýjar tennur taka að vaxa fer steinbíturinn upp á grunslóð í leit að æti. Fæða hans á þeim tíma eru ýmiskonar botndýr eins og ígulker, sniglar, öðuskel og kúfiskur. Auk þess fúlsar hann ekki við loðnu sé hún til staðar. Steinbíturinn hefur gríðarlega sterka kjálka og tennur. Í raun svo sterka að sjómenn þurfa að meðhöndla hann með varúð.

Allir sem séð hafa steinbít vita að hann er ófrýnilegur útlits. Um það bera erlend heiti hans vitni. Á nokkrum erlendum tungumálum er hann kallaður úlfur hafsins, þýska nafnið er Seewolf, það franska Loup de mer og það enska Catfish eða Atlantic Wolffish.

Lítil nýliðun

Veiði á steinbít á Íslandsmiðum hefur sveiflast nokkuð í áranna rás. Á tímabilinu 1997 til 2006 var aflinn frá tæpum 12 þúsund tonnum á ári og upp 16.500 tonn. Frá 2007 hefur aflinn dalað og hefur haldist undir 10 þúsund tonnum frá fiskveiðiárinu 2012/2013. Hafrannsóknastofnunin metur stofninn þó stóran í sögulegu samhengi. Nýliðun hefur hins vegar verið lítil frá árinu 2006 miðað við tvo áratugi þar á undan. Því er ekki búist við því að veiðistofninn stækki á næstu árum.

Hráefni í tískuvarning

Ekki er hægt að minnast á steinbítinn án þess að nefna að roð hans hefur verið nýtt til margra hluta í gegnum aldirnar. Það var haft til matar en einnig þurrkað og sniðið í skó sem þóttu níðsterkir.

Í seinni tíð hefur roð steinbíts, og einnig frænda hans hlýrans og reyndar fleiri tegunda, verið sútað og búið til úr því „sjávarleður“ sem er eftirsótt í ýmsa smávöru og til fatagerðar. Vestfirski sladdinn getur þannig endað sem eftirsótt hráefni í tískuvarning.

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...