Afríki fíllinn er meðal þeirra dýra í heiminum sem sögð eru vera í alvarlegri útrýmingarhættu.
Fréttir 20. september 2019

Bannað að flytja afríska fíla í dýragarða

Vilmundur Hansen

Nýjar reglur um viðskipti með villt dýr banna að afrískir fílar sem veiddir hafa verið í náttúrunni verði fluttir í dýra­garða. Bannið gerir ráð fyrir undan­þágum sé það talið til hags­bóta fyrir dýrin.

Bannið var samþykkt á fundi Cites, alþjóðlegra samtaka um verndun villtra dýra, í Sviss fyrir skömmu. Samþykktin var gerð þrátt fyrir mótmæli fulltrúa Simbabve og Botsvana en bæði ríki hafa verið leiðandi í sölu á afrískum fílum til dýragarða víða um heim. Dýragarðar í Kína hafa til dæmis keypt yfir hundrað unga fíla frá Simbabve frá árinu 2102.

Afríki fíllinn er meðal þeirra dýra í heiminum sem sögð eru vera í alvarlegri útrýmingarhættu. Af þjóðum heims sem áttu fulltrúa á fundinum samþykktu 87 bannið, 25 sátu hjá og 29 höfnuðu því, þar á meðal fulltrúi Bandaríkja Norður-Ameríku.