Bjarki Freyr Sigurjónsson, kjötiðnaðarmeistari hjá Sláturfélagi Suðurlands á Hvolsvelli, hlaut titilinn Kjötmeistari Íslands 2020. Hann er einnig í nýju landsliði kjötiðnaðarmanna sem hugðist taka þátt í heimsmeistarakeppni kjötiðnaðarmanna, „World Butcer
Fréttir 14. apríl 2020

Bjarki Freyr Sigurjónsson er kjötmeistari Íslands 2020

Hörður Kristjánsson

Bjarki Freyr Sigurjónsson, kjöt­iðnaðarmeistari hjá Slátur­félagi Suðurlands á Hvolsvelli, hlaut titilinn Kjö­tmeistari Íslands 2020. Það var niðurstaða dómara í „Fagkeppni kjötiðnaðarmanna“ sem fram fór í fyrri viku.

Bjarki Freyr er verkstjóri í pylsugerð og farslögun hjá SS á Hvolsvelli. Hann er líka í landsliði kjötiðnaðarmanna sem ráðgert er að taki þátt í heimsmeistarakeppni  kjötiðnaðarmanna, „World Butcer Challange (WBC)“, sem halda átti í Sacramento í Bandaríkjunum í september 2020. Henni hefur nú verið frestað fram í ágúst 2021. Keppnin fer fram á tveggja ára fresti og árið 2018 vann landslið frænda okkar Íra þessa keppni. Íslenska liðið tók einmitt þátt í keppni á Norður-Írlandi dagana 2.–3. október síðastliðinn og keppti þar við lið frá Skotlandi, Englandi, Þýskalandi og Írlandi.

Meistarafélag kjötiðnaðarmanna 30 ára

Meistarafélag kjötiðnaðarmanna (MFK), sem stendur fyrir fagkeppni kjötiðnaðarmanna á Íslandi, var stofnað 1990 og á því 30 ára afmæli á þessu ári. MFK er búið að halda þessa fagkeppni síðan 1992 og líta þeir m.a. á þetta sem lið í að hvetja kjötiðnaðarmenn til góðra verka og ekki síður að vera aðdráttarafl til að draga fólk inn í greinina. Vegna COVID-19 faraldursins var ekki uppskeruhátíð með verðlaunaafhendingum eins og venja hefur verið, heldur voru úrslit kynnt í sérstöku riti sem gefið var út á vef Meistarafélags kjötiðnaðarmanna.

Hver keppandi mátti senda inn allt að 10 vörur

Keppnin fór þannig fram að kjöt­iðnaðar­menn sendu inn vörur með nafnleynd til dómarahóps sem dæmdi vörurnar eftir faglegum gæðum. Hver keppandi mátti senda inn allt að 10 vörur til keppninnar. Dómnefnd fór síðan yfir allar innsendar vörur í kennslueldhúsi Menntaskólans í Kópavogi.

Allar vörur byrjuðu með fullt hús, eða 50 stig. Dómarar leituðu síðan að öllum hugsanlegum göllum. Við hvern galla sem finnst fækkar stigum. Með þessu fyrirkomulagi gátu margar vörur fengið gull-, silfur- eða bronsverðlaun. Af innsendum vörum fengu 38% gullverðlaun og 31% fengu silfurverðlaun.

Til þess að fá gullverðlaun þurfti varan að fá 49 til 50 stig og vera nánast gallalaus.

Til þess að fá silfurverðlaun þurfti varan að fá 46 til 48 stig og mátti aðeins vera með lítils háttar galla.

Til þess að fá bronsverðlaun þurfti varan að fá 42 til 45 stig.

Titilinn Kjötmeistari Íslands hlaut svo sá kjötiðnaðarmaður sem fékk flest stig samanlagt úr fimm stigahæstu vörum sínum.

Kjötmeistari Íslands 2020

Að þessu sinni var það Bjarki Freyr Sigurjónsson, kjötiðnaðarmeistari hjá Sláturfélagi Suðurlands, sem hlaut flest stig samanlagt og var því réttnefndur Kjötmeistari Íslands 2020. Þrír stigahæstu einstak­ling­arnir í fag­keppn­inni voru:

Bjarki Freyr Sigurjónsson, Sláturfélagi Suðurlands, með 243 stig.

Steinar Þórarinsson, Sláturfélagi Suðurlands, með 241 stig.

Þorri Helgason, Ísfugli, með 230 stig.

Athyglisverðasta nýjung keppninnar

Fyrir athyglisverðustu nýjungina var veitt sérstök viðurkenning og var það fyrirtækið NOKK sem veitti þar verðlaun.

Athyglisverðasta nýjungin reyndist vera Kalkúnasnakk sem Þorri Helgason hjá Ísfugli gerði.

Athyglisverðasta nýjungin reyndist vera Kalkúnasnakk sem Þorri Helgason hjá Ísfugli gerði.

Verðlaun búgreinafélaga

Besta varan úr svínakjöti:
Svínaræktarfélag Íslands veitti sérstök verðlaun fyrir bestu vöruna unna úr svínakjöti. Þar var um að ræða Rauðvínssalami eftir Benedikt Benediktsson hjá Sláturfélagi Suðurlands.

Besta varan úr alifuglakjöti:
Félag kjúklingabænda veitti sérstök verðlaun fyrir bestu vöruna unna úr alifuglakjöti. Það var Kjúklingapaté eftir Björgvin Bjarnason hjá Reykjagarði hf.

Besta varan úr folalda- og hrossakjöti:
Kjötframleiðendur og hrossa­ræktendur veittu sérstök verðlaun fyrir bestu vöruna unna úr hrossa- eða folaldakjöti. Það var Fjalla-Cayen grafið hrossafille eftir Jónas Pálmar Björnsson hjá Sláturfélagi Suður­lands.

Besta varan úr nautakjöti:
Landssamband kúabænda veitti verðlaun fyrir bestu vöruna unna úr nautakjöti. Það var Grafið nautafille m/lakkrískeim eftir Jónas Pálmar Björnsson hjá Sláturfélagi Suðurlands.

Grafið nautafille m/lakkrískeim eftir Jónas Pálmar Björnsson hjá Sláturfélagi Suðurlands.

Lambaorðan
Landssamtök sauðfjárbænda veittu lambaorðuna þeim kjötiðnaðarmanni sem á bestu vöruna unna úr lambakjöti. Það var Tindfjalla hangikjet eftir Odd Árnason hjá Sláturfélagi Suðurlands.
Sérverðlaun

Besta varan í flokknum eldaðar kjötvörur:
Þar veitti Ölgerðin verðlaun, en besta varan var Sviðasulta eftir Steinar Þórarinsson hjá Sláturfélagi Suðurlands.

Besta varan í flokknum sælkera­vörur:
Saltkaup veitti þar verðlaun, en besta sælkeravaran var Grafið nautafille m/lakkrískeim eftir Jónas Pálmar Björnsson hjá Sláturfélagi Suðurlands.

Besta varan í flokknum soðnar pylsur:
Það veitti PMT verðlaun, en besta varan í þeim flokki var Piparostapylsur með sveppum eftir Jón Sigurðsson hjá Slátur­félagi Suðurlands.


Besta varan í flokknum kæfur og paté:
Fyrirtækið ÍSAM veitti verðlaun í þessum flokki, en þar var hlutskarpast Kjúklingapaté eftir Björgvin Bjarnason hjá Reykjagarði hf.

Besti reykti eða grafni laxinn:
NOKK veitti verðlaun í þessum flokki, en bestur þótti Grafinn lax eftir Loga Brynjarsson hjá Hafinu fiskverslun ehf.

Besti reykti eða grafni silungurinn:
ÍSAM veitti þar verðlaun, en bestur þótti Reyktur regnboga­silungur eftir Loga Brynjarsson hjá Hafinu fiskverslun ehf.

Besta matarpylsan 2020 að mati MFK og almennings:
Þar veitti Katla verðlaun, en þar var sigurvegari Ostapylsa frá Sláturfélagi Suðurlands með 38% atkvæði.
Í öðru sæti var HM pylsa Chili Ananas Papaya frá Kjötpól-pylsumeistaranum með 32% atkvæði.

Starfsmenn keppninnar og stjórn MFK

Starfsmenn keppninnar voru fjölmargir. Þar var yfirdómari Kristján G. Kristjánsson. Aðrir dómarar voru; Árni Níelsson, Ing­ólfur Þ. Baldvinsson, Ómar B. Hauks­son, Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson, Erla Jóna Guðjónsdóttir og Þorsteinn Þórhallsson. Ritari var Björk Guðbrandsdóttir.

Piparostapylsur með sveppum eftir Jón Sigurðsson hjá Slátur­félagi Suðurlands.

Fagkeppnisnefnd

Í fagkeppnisnefnd MFK sátu Arnar Sverrisson, formaður, Sigurfinnur Garðarsson, Ingólfur Baldvinsson og Hafþór Hallbergsson. Ráðgjafi fagkeppnisnefndar var Eðvald Sveinn Valgarðsson. Á bak við þetta allt saman er svo stjórn Meistarafélags kjötiðnaðar­manna (MFK). Það er Oddur Árnason, formaður, Þorsteinn Þórhallsson, varaformaður, Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson, gjaldkeri, Magnús Friðbergsson, ritari, Jóhannes Númason, meðstjórnandi, Arnar Sverrisson, formaður fag­keppnis­nefndar og Kjartan Bragason varamaður.

Þakkir

Meistarafélag kjötiðnaðarmanna vill koma á framfæri þakklæti til Landssamtaka sauðfjárbænda, Lands­­samtaka kúabænda, Svína­ræktarfélags Íslands, Félags kjúk­linga­bænda, Kjötframleiðenda/hrossa­rækt­enda, landbúnaðar­ráðuneytisins og Menntaskólans í Kópavogi. Einnig þakkar MFK fyrirtækinu Kötlu, sem gaf verðlaunapeninga, og fyrirtækjunum sem gáfu verðlaun, en það voru pmt, Multivac, AVO, Ölgerðin, NOKK ehf., ÍsAm, Samhentir og Saltkaup Nordic. 

Kristján G. Kristjánsson yfirdómari að störfum. Fyrir framan hann er skemmtileg smurkæfa sem heitir Eistnaflug. Hún er úr lambaeistum og lambaafskurði.