Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Skjámynd af rásinni á YouTube.
Skjámynd af rásinni á YouTube.
Mynd / Skjámynd
Fréttir 29. apríl 2020

Burðarhjálp á YouTube

Höfundur: smh
myndbandarás hefur verið stofnuð á YouTube með það að markmiði að auðvelda bændum burðarhjálpina á sauðburðinum þegar snúin vandamál koma upp.
 
Það er Karólína Elísabetudóttir, sauðfjárbóndi og rithöfundur í Hvammshlíð, sem hefur haft veg og vanda að verkefninu; faglega umsjón með leiðbeiningunum hefur Axel Kárason í Vík (Staðarhreppi), dýralæknir og búfræðingur. Þau fengu til liðs við sig sauðfjárbændur víðs vegar að við upptökur á kennslumyndböndunum. 
 
Karólína segir að hún hafi auðvitað rekið sig sjálf á að ekki gangi alltaf allt smurt á sauðburði. „Reyndir sauðfjárbændur geta auðvitað leyst flest vandamál en sumar uppákomur eru sjaldgæfar eins og legsnúningur eða að lambið ber mjög skakkt að. Auk þess er sum vandamál erfiðara að leysa en hin, til dæmis ef stórt lamb kemur afturábak. Þá er gott að geta horft á myndbönd þar sem aðrir bændur sýna hvernig þeir finna út úr þessu og þar sem dýralæknir útskýrir með hjálp líkans hvað er eiginlega að gerast inni í kindinni á meðan. Ekki síst þegar börnin eru að læra burðarhjálp eða minna vant aðstoðarfólk eru upplýsingar sem þessar ómetanlegar,“ segir hún.
 
Er þetta eðlilegur burður - þarf ég að veita burðarhjálp?
 
Fyrsta leiðbeiningarefni sinnar tegundar
 
„Svoleiðis efni, sem miðar auk þess við íslenskar aðstæður, hafði ekki verið til. Jafnvel á öðrum tungumálum eru skýr og skipulögð leiðbeiningarmyndbönd afar sjaldgæf. Youtube-rásin heitir Leiðbeiningarefni um burðarhjálp og er öllum opin og aðgangur er ókeypis. Um 15 mismunandi myndbönd – á milli 3 og 17 mínútur að lengd – eru nú þegar aðgengileg þar og bætast fleiri við á næstunni. Útbúið hefur verið eins konar ákvarðanatré, sem hjálpar við að finna myndbandið sem á best við í hvert skiptið,“ segir Karólína sem sér sjálf um skipulag, upptökur og uppsetningu. Axel kemur sjálfur fram sem leiðbeinandi í myndböndunum. 
 
Upptökur frá 2016
 
Að sögn Karólínu hófust upptökurnar á sauðfjárbúum vorið 2016 í Hvammshlíð, en meginparturinn hafi verið tekinn upp 2019 á Halldórsstöðum í Skagafirði, svo í Breiðavaði, Steinnesi, Sölvabakka og Stafni í Austur-Húnavatnssýslu. „Auk þess bárust upptökur frá öðrum bæjum svo sem Helgafelli á Snæfellsnesi, Hrísum í Borgarfirði, Hofi í Vatnsdal og Höfða I í Grýtubakkahreppi. Fram koma þaulreyndir bændur eins og Einar Kári Magnússon, Jón Árni Magnússon, Anna Margrét Jónsdóttir, Sævar Sigurðsson, Bjarki Benediktsson, Stefanía Egilsdóttir, Sigursteinn Bjarnason, Þórdís Sigurbjörnsdóttir, Lára Björg Björgvinsdóttir, Jón Gíslason og Ásta F. Flosadóttir.
 
 Síðan er notast við líkan af „alvöru“ mjaðmagrind og þremur mismunandi lömbum í raunstærð, búnum til úr íslenskri ull í þremur litum, sem veitir innsýn í kindina í orðsins fyllstu merkingu. Til að tryggja gæði og notendavænleika fóru um tíu „prufunotendur“ yfir myndböndin, bæði reyndir sauðfjárbændur og minna vanir,“ útskýrir hún.
 
Karólína segir að þetta umfangsmikla verkefni hefði ekki getað orðið að veruleika án styrktaraðila, fyrst að efnið sé öllum opið og engar tekjur væntanlegar. Aðalstyrktaraðilinn er Framleiðnisjóður landbúnaðarins, en níu fyrirtæki lögðu líka fram talsverðar upphæðir; Fóðurblandan, Kaupfélag Skagfirðinga, Kaupfélag Vestur-Húnvetninga, Kaupfélag Borgfirðinga, Lífland, SAH afurðir, Kraftvélar, Lely Center Ísland og H. Hauksson.
 
Eftirfylgjandi myndbönd verða í boði þegar allt er klárt, en efnið verður í sífelldri endurskoðun með hvað hægt sé að gera betur og bæta við:
  • Fyrir byrjendur
  • Góð ráð, tæki og tól
  • Notkun handklæðis
  • Notkun snúru/vírs/„lambahjálpar“
  • Eðlilegur burður
  • Eðlilegur burður – aukaefni
  • Vantar framfót/bara haus
  • Vantar framfót – aukaefni
  • Afturábak
  • Afturábak – aukaefni
  • Tvö (eða þrjú) lömb
  • Kolskakkt lamb
  • Stór horn
  • Stórt lamb
  • Legsnúningur
  • Skeiðarsig
  • Blæðandi naflastrengur
  • Að venja undir
  • Notkun magaslöngu

Hægt að gerast áskrifandi

Vefslóðin að rásinni er tinyurl.com/burdarhjalp og hægt er að gerast áskrifandi til að fá tilkynningu þegar nýtt efni er komið inn í rásina. 
 

Kallað eftir myndefni og upptökum af sjaldgæfum vandamálum

Af sumum frekar sjaldgæfum vandamálum ásamt lausn er enn bara lítið eða ekkert myndefni til. Því eru upptökur, helst myndbönd, vel þegnar: 
  • legsnúningur, 
  • skeiðarsig, 
  • notkun magaslöngu hjá lambi sem getur ekki kyngt sjálft
  • keisaraskurður.
Myndgæði skipta engu máli í þessu tilfelli og heldur ekki hvort allt sé vísindalega „rétt“ framkvæmt, öll dæmi gera gagn. Best er ef upplausnin er góð og ef myndin er lárétt, ekki lóðrétt, en allt efnið er vel þegið. Það má senda á burdarhjalp@gmail.com eða í FB-skilaboðum (Karólína í Hvammshlíð) – eins með ábendingar og nýstárlegar aðferðir.
 

 

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...