Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Þessi elgur er í Þelamörk í Noregi, en vel má vera að hann hugsi sér til hreyfings og feti í slóð fimm frækinna frændsystkina sinna frá Svíþjóð sem hyggjast setjast að á flatlendinu í Danmörku.
Þessi elgur er í Þelamörk í Noregi, en vel má vera að hann hugsi sér til hreyfings og feti í slóð fimm frækinna frændsystkina sinna frá Svíþjóð sem hyggjast setjast að á flatlendinu í Danmörku.
Fréttir 28. júní 2018

Elgir á ný í danskri náttúru eftir 5.000 ára fjarveru!

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Elgir eru taldir hafa horfið úr danskri náttúru á síðari hluta steinaldartímabils landsins eða um 3.000 árum f.Kr., en hafa þó sést stöku sinnum í landinu á síðustu 100 árum og alltaf hafa það þá verið flækingselgir frá Svíþjóð sem hafa synt yfir Eyrarsund. 
 
En eftir um fimm þúsund ára fjarveru úr danskri náttúru, eru elgir nú á ný í landinu en árið 2016 voru flutt inn 5 dýr í tilraunaskyni frá Svíþjóð til Danmerkur. Þeim var komið fyrir í griðlandinu Lille Vildmose í Himmerland á Norður-Jótlandi, sem er stærsta friðaða náttúrusvæði landsins og er alls um 21 ferkílómetri að stærð.
 
Elgurinn er stærsta hjartardýrið og er einkennisdýr í mörgum norðlægum héruðum í Noregi, Svíþjóð, Rússlandi, Bandaríkjunum (Alaska) og Kanada. Þeir lifa einkum á laufi birkis og víðis, smágreinum, könglum og trjáberki en geta ekki bitið gras eða mosa á jörðu niðri vegna þess hve þeir eru hálsstuttir. 
 
Stærðarinnar skepnur
 
Elgir eru af ætt hjartardýra og lifa fyrst og fremst á norðlægum slóðum í heiminum. Náttúruleg heimkynni þeirra eru í skóglendi frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi í vestri, í Eystrasaltslöndunum og í Rússlandi allt austur að Kyrrahafi. Þá eru elgir útbreiddir bæði í Kanada og Alaska auk þess sem þá er að finna í Bandaríkjunum suður eftir Klettafjöllunum. 
 
Elgstarfarnir geta verið um 5-700 kíló á fæti eða eins og góðar íslenskar kýr, en munurinn er sá að þeir eru afar háfættir og hæð upp á herðarkamb allt að tveir metrar. Elgirnir eru mjög hálsstuttir og geta því ekki bitið lággróður auðveldlega eins og margar aðrar skepnur og lifa því fyrst og fremst á greinum, blöðum, berki og stönglum. Þrátt fyrir mikla stærð eru elgirnir góð sunddýr og geta t.d. kafað eftir botngróðri í vötnum niður á 5-6 metra dýpi.
 
Fella rúmlega 100.000 elgi árlega
 
Eins og áður segir er elgi að finna víða á hinum Norðurlöndunum og er t.d. talið að í Svíþjóð einni saman séu um 300.000 elgir og auk þess er töluverður fjöldi bæði í Finnlandi og Noregi. Í þessum löndum er jafnframt stunduð veiði á elgum og er henni stýrt svo ekki gangi um of á stofninn, en veiðin er umtalsverð og fella veiðimenn árlega rúmlega 100 þúsund dýr í löndunum þremur.
 
Trjágróðurinn vandamál
 
Ástæða þess að ákveðið var að flytja inn elgi til landsins, til að byggja upp nýjan stofn þeirra, var fyrst og fremst sú að þeir hafa einstaka eiginleika til að halda trjágróðri í skefjum. Náttúrusvæðið Lille Vildmose er eitt stærsta friðaða hámýrasvæði Evrópu, en hámýrar eru mýrar með barnamosagrunni og þar ofan á kemur hávaxnari mosi þannig að gróðurinn verður hærri en landið í kring sem skýrir nafnið. 
 
Svæðið hefur átt í vök að verjast undanfarna áratugi vegna ásóknar trjágróðurs inn í mosabreiðurnar. Í þessu friðlandi, sem er afgirt, eru nú þegar krónhirtir, dádýr, konungsernir, hafernir, trönur, ýmis smádýr og villisvín en þessi dýr hafa ekki náð að hamla framgangi trjágróðurs sem sótt hefur fram undanfarin ár og náttúruvísindafólk leitaði því út fyrir landsins steina að heppilegri dýrategund sem gæti sinnt þessu þarflega verki en ekki var né er vilji til þess að gera það með vélum eða mannafla. Var það mat sérfræðinga að elgir myndu líklega henta best til þessa og því var leitað eftir því við stjórnvöld og heilbrigðisyfirvöld að fá heimild til innflutnings á lífdýrum frá Svíþjóð.
 
Náttúrulegt vistkerfi
 
Forsvarsmenn Lille Vildmose hafa lagt mikla áherslu á að reyna að endurbyggja og viðhalda náttúrulegu vistkerfi hámýranna og helst auka þær. Þegar elgirnir éta og halda aftur af trjágróðrinum standa vonir til þess að votlendið nái sér á strik á ný með tilheyrandi vexti mosans en þegar hann vex, bindur hann einnig meira af koltvísýringi svo segja má að verkefnið sé einnig afar umhverfisvænt í raun.
 
Sérstyrkt girðing
 
Áður en elgunum var sleppt út í hin nýju heimkynni sín þurfti að setja upp sérstyrkta girðingu í kringum allt svæðið sem þeim var ætlað, enda mikilvægt að halda þeim á nýju heimkynninum auk þess sem mikil hætta getur stafað af elgum ef þeir sleppa út á vegi. Þeir eru svo háfættir að ef fólksbíll keyrir á þá lendur sjálfur búkurinn ofan við vélarhlíf flestra bíla og skrokkurinn skellur því nokkuð óhindrað á framrúðu bílanna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir farþegana. Það var því mikilvægt að koma upp girðingu sem hægt væri að treysta á og er hún bæði há, sterk og 30 kílómetra löng og nær utan um 2.100 hektara svæði.
 
Í fyrstu var þó minna svæði stúkað af til þess að venja elgina við nýju heimkynnin en óttast var að þeir myndu ráfa mikið um ef þeir hefðu strax aðgengi að stóru svæði. Aðlögunin fór fram jafnt og þétt og voru elgirnir á þeim tíma algjörlega einangraðir frá fólki, en óttast var að eftir að þeir voru veiddir í Svíþjóð og færðir til Danmerkur að þeir myndu e.t.v. hænast að fólki og það var alls ekki ætlunin með verkefninu. Þeir voru því inni í girðingu sem ekki sást í gegnum, svo tryggt væri að þeir myndu ekki einu sinni sjá fólk! Þeim var síðan sleppt út í náttúruna og tókst þetta tilraunaverkefni vonum framar.
 
Gengið vel til þessa
 
Í upphafi voru fluttir inn tveir tarfar og þrjár kýr og nú þegar er komin góð reynsla á hin nýju heimkynni elganna. Kýrnar hafa borið kálfum og komið þeim upp sem bendir til þess að fæðuúrvalið sé heppilegt en stjórnendur verkefnisins hafa lagt mikla áherslu á að dýr séu ekki fóðruð í friðlandinu og að náttúruan eigi að sjá sjálf um að fóstra þau dýr sem þar eru. Eftir að í ljós kom að verkefnið fór vel af stað voru flutt inn fimm dýr í viðbót í fyrra og nú stendur jafnvel til að flytja inn elgi frá öðrum heimshlutum til að tryggja fjölbreyttni í erfðaefninu til lengri tíma litið. Áætlað er að friðlandið Lille Vildmose henti fyrir 30-40 elgi og þegar þeirri hópstærð verður náð munu umframdýr verða felld.
 
Gera sitt gagn
 
Það að elgirnir skulu þrífast vel er einungis önnur hlið málsins en hin hliðin er hvort tilraunin virki, þ.e. að elgunum takist að koma í veg fyrir að trjágróður nái sér á strik á þessum miklu mosabreiðum. Fyrstu athuganir virðast benda til að tilraunin hafi virkað og sjást nú þegar vísbendingar um að elgirnir, sem éta allt að 10 kíló á dag, geri sitt gagn og haldi aftur af trjágróðrinum.
 
Aukin ásókn ferðamanna
 
Eftir að elgirnir voru fluttir inn til Danmerkur á ný hefur ásókn ferðamanna að Lille Vildmose aukist enda vilja margir sjá þessi sérstöku dýr á ný í danskri náttúru. Elgir eru að eðlisfari afar varir um sig og því er ekki sjálfgefið að gestir nái að sjá elgina en þegar hópstærðin verður komin í 30-40 ætti það að vera nokkuð tryggt og mun væntanleg aukin ásókn ferðamanna þá um leið styrkja starfsemina í friðlandinu.

Skylt efni: elgir | Danmörk

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...