Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Jötunn verður rekinn með nær óbreyttu sniði á Selfossi
Mynd / Aflvélar
Fréttir 24. apríl 2020

Jötunn verður rekinn með nær óbreyttu sniði á Selfossi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Fyrirtækið Aflvélar ehf. í Garða­bæ keyptu í byrjun apríl þrotabú Jötunn véla ehf. á Selfossi. Ráðgert er að halda þar uppi svipaðri starfsemi með órofinni þjónustu við landbúnaðinn og hafa margir af lykilstarfsmönnum í Jötni verið endurráðnir til fyrirtækisins.

Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri Aflvéla, sagði í samtali við Bændablaðið að vissulega væri svolítið sérstakt að fara út í slíkar aðgerðir á jafn undarlegum tímum og nú ríktu vegna COVID-19 faraldursins. Þeir þyrftu að treysta nær alfarið á sjálfan sig og eigið fé við að koma þessum kaupum í kring, þar sem aðgengi að lánastofnunum væri nú mjög skert vegna ástandsins.

Verður rekið á kennitölu Aflvéla

„Það er í raun með ólíkindum að láta sér detta það í hug að fara í svona aðgerð á þessum tímum og búið að vera mjög erfitt. Jötunn verður hluti af starfsemi Aflvéla og verður rekið á kennitölu Aflvéla. Við erum búnir að ráða margt af því fólki sem áður vann hjá Jötunn vélum og það mun halda sínu starfi óbreyttu. Á Selfossi mun því að mestu starfa sami kjarni og áður.“

Aflvélar flytja úr Garðabænum á Selfoss síðar á árinu

„Svo erum við með fyrirtækið Aflvélar í Garðabæ, en það er stefnt á það síðar á þessu ári að Aflvélar flytji líka starfsemi sína á Selfoss. Þó þetta verði allt saman rekið á sömu kennitölu, þá verður landbúnaðarhlutinn áfram rekinn undir merkinu Jötunn. Þá verður heimasíðan jotunn.is óbreytt og áfram verða sömu símanúmer og áður voru hjá Jötni vélum. Fyrir viðskiptavinina ætti þetta því að verða lítil breyting,“ segir Friðrik Ingi.

Munu reyna að halda í vélaumboð

–  Nú voru Jötunn vélar með öflug umboð á borð við Massey Ferguson, og Valtra, verða þau áfram?
„Já, ég vonast til að við verðum með eitthvað af þeim umboðum, en það er verið að vinna í þeim málum og mun skýrast betur á næstunni. Allt tekur þetta smá tíma. Við erum allavega með alla varahluti í þau tæki sem þarna voru til sölu.“

Aflvélar urðu til 2004

Fyrirtækið Aflvélar var stofnað árið 2004 og á rætur að rekja til Burstagerðarinnar og Besta sem voru í eigu sömu aðila. Í raun hafa Aflvélar selt tæki frá árinu 1984 þegar innflutningur á Beilhack og Danline flugbrautarsópunum byrjaði í kjölfar sölu Burstagerðarinnar á burstum fyrir flugvallarsópa frá árinu 1979.

„Við höfum í gegnum  árin verið með mikið af snjóruðningstækjum og búnaði fyrir Isavia og flugvellina, Vegagerðina, bæjarfélög um land allt og einnig til bænda,“ segir Friðrik Ingi. „Það skarast svo sem ekkert við þá þjónustu sem Jötunn hefur verið að bjóða. Hjá Aflvélum  höfum við verið að selja mikið af búnaði fyrir verktaka og m.a. verið að breyta vörubílum í snjóruðningstæki.“

Bjartsýnn á þjónustu við verktaka og bændur

Friðrik Ingi segir að þrátt fyrir erfiða stöðu í landinu vegna COVID-19 faraldursins, þá horfi hann með nokkurri bjartsýni til áforma ríkisins um aukin  umsvif við uppbyggingu vega og annarra samgöngumannvirkja.

„Þá er maður líka á horfa á þau tækifæri sem felast í þjónustu við landbúnaðinn sem heldur áfram starfsemi og þarf sín tæki og tól. Það var líka dálítill hvati til að fara út í þessi kaup að menn hafa verið að horfa á nauðsyn þess að auka innlenda framleiðslu á landbúnaðarafurðum.“

Með um 17 starfsmenn á Selfossi og í Garðabæ

Friðrik Ingi segir að á Selfossi muni starfa um tíu manns til að byrja með og þá séu um sjö starfsmenn í Garðabænum. Hann segir að það sé hins vegar ekki í kortunum í bili að halda úti starfsemi á Akureyri og Egilsstöðum.

Aflvélar með fjölda umboða

Meðal umboða og þjónustu sem Aflvélar eru  með er ASH Aebi Schmidt Holding sem er stórfyrirtæki í sumar- og vetrarvélum með höfuðstöðvar í Zürich í Sviss. Fyrirtæki í eigu ASH eru m.a. AEBI í Sviss, Schmidt í Þýskalandi, Nido í Hollandi, Beilhack í Þýskalandi, DMI (hugbúnaðarfyrirtæki) í Þýska­landi, Tellefsdal í Noregi og Meyer í Bandaríkjunum.

Hundruð tækja frá ASH Aebi Schmidt til snjóruðnings og sumarstarfa eru nú í notkun á landinu og þau eru þjónustuð af starfsmönnum Aflvéla ehf.

Einnig er Aflvélar með umboð fyrir ýmis tæki fyrir sumar og vetur frá Pronar í Póllandi, veghefla frá Veekmas oy í Finnlandi, ásamt fleiri umboðum s.s. Weber burstaverksmiðjunum í Þýskalandi, GMI í Noregi og Monroe í USA, slitblöðum frá Kuper í Þýskalandi og Nordic steel í Noregi ásamt vélum til innanhússþrifa; i-Team og Cleanfix frá Sviss.

Aflvélar er með stórt og full­komið eigið verkstæði að Vesturhrauni 3, sem getur tekið við öllum stærðum af tækjum. Á verkstæði fyrirtækisins starfa sérþjálfaðir starfsmenn og sinna þeir öllum viðgerðum auk þess að veita tæknilega aðstoð.

Skylt efni: Aflvélar | Jötunn vélar

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...