Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hljómsveitin Trap á sviðinu á skemmtistaðnum Catalina í Kópavogi þar sem hún hefur spilað um árabil. Hljómsveitarmeðlimir eru, talið frá vinstri: Kristján Hermannsson sem spilar á hljómborð, Rúnar Þór Pétursson spilar á gítar og syngur, Rúnar Vilbergsson
Hljómsveitin Trap á sviðinu á skemmtistaðnum Catalina í Kópavogi þar sem hún hefur spilað um árabil. Hljómsveitarmeðlimir eru, talið frá vinstri: Kristján Hermannsson sem spilar á hljómborð, Rúnar Þór Pétursson spilar á gítar og syngur, Rúnar Vilbergsson
Mynd / Hörður Kristjánsson
Fréttir 3. júlí 2018

Meðlimir TRAP hafa komið við sögu á annan tug hljómsveita á hálfri öld

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Ísafjarðarpúkarnir sem stofnuðu skólahljómsveitina Trap veturinn 1969 eru enn að spila í sama  bandinu. Þeir hafa nú lokið upptökum á efni sem hefur verið á þeirra lagalista í gegnum tíðina og munu gefa út sína fyrstu breiðskífu í formi geisladisks og hugsanlega líka á vínyl í haust. 
 
Strákarnir ólust upp í öflugum fiskveiðibæ á Ísafirði og kynntust því vel slorinu og mikilli vinnuhörku sem fólk sleit sig frá með því að fara á kraftmikil böll um helgar. Margir voru þá með sauðfé í bænum til að fæða sínar fjölskyldur og jafnvel kýr. Þannig mátti jafnvel sjá fjárhús í bakgörðum neðst á Eyrinni þegar strákarnir voru að alast upp. Það var þó ekki síður tónlistarmenningin og tónlistarhefðin á Ísafirði sem hafði mest áhrif á drengina.   
 
Rúnar Þór, Reynir og Örn með öll grip á tæru.
 
 Það er greinilega seigt í þessum ísfirsku strákum sem troða reglulega upp og       skemmta einlægum aðdáendum sínum á veitingahúsinu Catalina í Kópavogi.       Þar spila þeir annað slagið á móti hljómsveitinni Klettum sem reyndar er að         hluta skipuð sömu áhöfn. Þeir eru ánægir með viðtökurnar á Catalina þar           sem gestir upplifa gömlu góðu ballstemninguna. Enda er Catalina einn af örfáum veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu sem býður upp á almennilegt dansgólf. Þar er enn iðkuð af miklum krafti ballmenning í líkingu við þá sem hvarf hægt og rólega við innleiðingu pöbbamenningarinnar í kjölfar afnáms bjórbannsins 1. mars 1989. 
 
Skólahljómssveitirnar í Gaggó á Ísafirði
Tíðindamaður Bændablaðsins leit inn á æfingu hjá Ísafjarðarpúkunum í Trap fyrir skömmu, en þá voru þeir að gera klárt fyrir spilamennsku þá helgina. Það má segja að allir tengist þeir í raun í gegnum gamla Gaggó, eða Gagnfræðaskólann á Ísafirði. Þar urðu til allmargar skólahljómsveitir á sjöunda áratug síðustu aldar sem spiluðu fyrir nemendur á kvöldvökum sem haldnar voru að jafnaði hálfsmánaðarlega og nefndar „dansæfingar“. Auk þess sem krakkarnir komu saman til að hlusta á músík og dansa, þá var opin sjoppa skólafélagsins og gjarnan sett upp borðtennisborð og bobspil. 
Hljómsveitin Trap varð einmitt til í tengslum við slíkar dansæfingar veturinn 1968 til 1969. Einn forsprakkinn í bandinu er tónlistarmaðurinn Rúnar Þór Pétursson sem er Ísfirðingur að uppruna og fæddur 1953, en á ættir að rekja til Súðavíkur og í Hrísey í Eyjafirði. Rúnar átti ekki langt að sækja músíkáhugann, með föður sinn spilandi á ýmis hljóðfæri. Þá lærði Rúnar líka spilamennsku hjá tónlistarkennaranum Ragnari H. Ragnar og konu hans, Sigríði Ragnarsdóttur. Þá spilaði Rúnar m.a. í lúðrasveit á sínum uppvaxtarárum.  Hann man vel hvernig Trap varð til. 
 
Varð til úr hljómsveitinni Skippers
„Þessi hljómsveit verður til úr hljómsveit sem ég, Örn Jónsson (fæddur 1953), Reynir Guðmundsson (f. 1952), Einar Guðmundsson (f. 1953) og Stefán Símonarson (f. 1953) vorum með og hét Skippers,“ segir Rúnar. 
Aðdragandinn var þó enn lengri. Þótt minnið sé farið að ryðga hjá sumum hljómsveitarmeðlimum segist Rúnar muna þetta eins og gerst hafi í gær. 
 
„Ég byrjaði að spila í hljómsveit með Erni Jónssyni. Hann var gítarleikarinn og stofnaði hljómsveitina „Hverjir“ og bauð mér að koma þar inn sem trommuleikari. Samúel Kárason spilaði á bassa og Stefán Símonarson og Örn á gítara. Við æfðum á gúmmíbátaverkstæðinu hjá Símoni Helgasyni, pabba Stebba. Við komum síðan inn sem aukanúmer á skólaballi hjá hljómsveitinni Hlekkjum og Örn  söng lagið „These Boots Are Made for Walkin“ [eftir Lee Hazlewood sem Nancy Sinatra gerði frægt í janúar 1966] og einnig lagið „I‘m on an island“ eftir hljómsveitina Kinks. Ég spilaði þarna á eina trommu,“ segir Rúnar.
 

 
Lagt á ráðin um stofnun á „alvöru“ hljómsveit
„Þarna um veturinn 1966 vorum við Örn búnir að ákveða að stofna alvöru hljómsveit. Þá fréttum við að Reynir Guðmundsson ætti gítar og hefði keypt forláta míkrófón og væri á leið heim til sín upp á Hlíðarveg.  Þá segir Örn: - Ef við förum upp fyrir kirkjuna og hlaupum inn göngustíginn fyrir ofan kirkjugarðinn þá náum við honum við Íshúsið [Íshúsfélag Ísfirðinga]. Það tókst og í framhaldinu varð til hljómsveitin Skippers. 
Þegar þetta var, vorum við búnir að fylgjast grannt með „Didda“ (Kristjáni Hermannssyni), sem var ári eldri en við flestir (fæddur 1952) og búinn að vera meira og minna í öllum skólahljómsveitum á Ísafirði um árabil. Við töldum okkur algjörlega trygga ef við fengjum hann með okkur.
Við vorum svo hræddir við þessa stjörnu að við vorum lengi að velta því fyrir okkur hvort við ættum að þora að tala við hann.  
Þá vorum við líka að fylgjast náið með Rúnari H. Vilbergssyni (fæddur 1951). Mér fannst hann alltaf besti trommarinn á svæðinu og hann er trommuleikarinn okkar í dag. Hann var þá að spila í skólahljómsveitinni Hlykkjum á Ísafirði, en kom ekki inn í Trap fyrr en löngu, löngu síðar,“ segir Rúnar Þór. 
„Einar, sem var á trommunum í Skippers, hætti svo í Gagn­fræðaskólanum og þó tók Reynir Guðmunds við sem trommari og hljómsveitin Skippers skipti um nafn.“  
 
Trap stofnuð veturinn 1969
Það varð svo niðurstaðan að hljómsveitin Trap var stofnuð um veturinn 1969 og á því 50 ára afmæli á næsta ári. Meðlimirnir voru Rúnar Þór Pétursson sem spilaði á gítar, Örn Jónsson spilaði á bassagítar, Reynir Guðmundsson á trommur, Stefán Símonarson á gítar og Kristján Hermannsson, sem strákarnir áræddu loks að tala við, var fenginn til að spila á gítar í þessari nýju alvöru hljómsveit. 
 
Félagarnir í Trapp í æfingarpásu á Catalina að rifja upp gamlar frægðarsögur úr tónlistarlífinu á Ísafirði á Bítalárunum.     Svipurinn á strákunum gæti bent til þess að sögurnar sem Reynir er að segja þeim séu kannski svolítil ryddaðar.
 
Spiluðu á skólaböllum og almennum dansleikjum
Fyrir utan skólaböllin spilaði Trap á almennum dansleikjum á Ísafirði og víðar. Nefnir Kristján þar t.d. Skíðavikuna á Ísafirði. Reynir félagi hans bætir inn í myndina og segir að eitt sinn hafi þeir farið með bát til að spila á balli í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Voru þá ýmsir fengnir til að hlaupa í skörð ef einhverjir forfölluðust.
Hljómsveitin Trap spilaði svo með hléum, en 2010 komu þeir saman að nýju að beiðni Spessa ljósmyndara sem óskaði eftir að þeir spiluðu á skólahittingi í Krúsinni á Ísafirði.  Byrjuðu meðlimir sveitarinnar sem bjuggu á Reykjavíkursvæðinu þá að æfa í sal FÍH.
 
Þetta var svo gaman
„Það var bara svo gaman þegar við byrjuðum að æfa aftur að við héldum bara áfram eftir Ísafjarðarferðina,“ sagði Kristján Hermannsson. Í framhaldinu fórum þeir að spila á Catalina í Kópavogi þar sem þeir hafa spilað nokkuð reglulega síðan. Einnig hafa þeir spilað víðar, eins og í Grindavík og í tvígang á Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins í Reykjavík.“ 
Eins spilaði Trap á 150 ára afmæli Ísafjarðarbæjar á útitónleikum við Landsbankann á Ísafirði þann 7. júlí 2016. 
Í dag er hljómsveitin Trap skipuð þannig að Rúnar Þór er gítarleikari og söngvari, líkt og Reynir Guðmundsson sem annars starfar sem pípulagningarmeistari. Þá spilar bifvélavirkinn Örn Jónsson á bassagítar, Kristján Hermannsson, lengst af bankamaður, spilar á hljómborð og Rúnar Vilbergsson, fagottleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands um árabil, spilar á trommur. 
Rúnar Þór Pétursson spilaði með fleiri hljómsveitum í og utan Gagnfræðaskólans á þessum tíma eins og Black bird með Reyni Guðmundssyni, Erni Jónssyni og Reyni Theodórssyni og tóku þeir m.a. þátt í hljómsveitakeppni. Þá var hann líka í hljómsveitunum Jönu og einnig Hörd. 
 
Auk þess að vinna að plötunni með Trap er Rúnar Þór nú á leið í Abbey Road studio Bítlanna í London til að taka upp eigin plötu. Hann segir nú að þetta verði sín síðasta plata. 
 
Rekinn úr Gaggó og fór á Núp
„Ég var svo rekinn úr Gagnfræða­skólanum vorið 1969,“ segir Rúnar Þór. - „Fór svo næsta vetur að spila með hljómsveit Ásgeirs Sigurðssonar ásamt Erni Jónssyni á almennum böllum vítt og breitt um Vestfirði.“
Þess má geta að Rúnar var ekki nógu gamall til að mega fara á dansleiki þegar hann byrjaði að spila með Ásgeiri og félögum. Þurfti hann því að fara í fylgd föður síns, Péturs Geirs Helgasonar. Hljómsveitina skipuðu þá Ásgeir Sigurðsson sem spilaði á hljómborð og söng líka. Kolbrún Sveinbjörnsdóttir var þó aðalsöngvari sveitarinnar. Halldór Guðmundsson spilaði á trommur, Rúnar Þór á gítar og Örn Jónsson á bassa. 
 
Tónlistarmaðurinn Rúnar H. Vilbergsson spilaði með fjölda hljómsveita líkt og allir félagar hans. Hann spilaði m.a. með Þursaflokknum á sínum tíma og um 35 ára skeið á fagott með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
 
Á skíðum á ball á Flateyri
„Eitt fyrsta ballið var að spila á Stútung á Flateyri. Þá vorum við dregnir upp á Breiðdalsheiðina sem var á kafi í snjó. Svo renndum við okkur á skíðum niður snarbratta Kinnina hinum megin. Geiri var á eldgömlum timburskíðum en ég á ágætis Kästle-skíðum. Ég sagði þá við Geira; ég myndi ekki fara hérna niður ef ég væri þú. Þessi öðlingur var ekkert að láta mig trufla sig  og lét sig bara fara og hvarf niður brekkuna. Hann endaði svo á kafi í skafli við enda brekkunnar og ég þurfi að draga hann út. Þarna var Geiri 25 eða 26 ára, eða 11 árum eldri en við Örn og eldgamall kall í okkar augum. Það var samt fínt að spila með honum, virkilega góður maður.“
Ýmis ævintýri áttu sér stað á ferðum þessarar hljómsveitar sem of langt yrði að telja upp hér.    
„Síðan fór ég í Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði,“ segir Rúnar. 
Þar stofnaði hann enn eina skólahljómsveitina ásamt Agli Ólafssyni og Benedikt Helga Benediktssyni og fékk hún nafnið Rassar. Hafa þeir verið að koma aftur saman og spila annað slagið á undanförnum árum.
 
Kristján Hermannsson, eða Diddi, eins og félagarnir kalla hann, hefur lengst af starfað sem bankamaður. Hann hóf sinn opinbera feril í spilamennsku aðeins 11 ára gamall.  
 
Spiluðu allir í mörgum hljómsveitum
Svipaða sögu má segja af hinum félögunum í Trap þegar frá leið. Allir komu þeir við sögu í fleiri hljómsveitum og sumum landsfrægum. Örn spilaði t.d. sem bassaleikari í hljómsveitinni Grafík sem stofnuð var 1981. Svo spilar hann að sjálfsögðu í Klettum sem er fastagestur á Catalinu. Reynir Guðmundsson kom líka víða við sögu. Hann var m.a. söngvari hljómsveitarinnar ÝR (1974–1979) sem var eins konar forveri Grafíkur. Reynir var síðan líka söngvari í hljómsveitinni Saga Class sem spilaði um árabil í Súlnasal Hótel Sögu. 
Rúnar Vilbergsson spilaði í skólahljómsveitinni Hlykkjum á Ísafirði, ásamt Ólafi Guðmundssyni, söngvara og gítarleikara, Kristjáni Hermannsyni, orgel- og gítarleikara og Bjarna Haukssyni bassaleikara. Einnig komu þeir Rúnar, Óli og Bjarni fram við ýmis tækifæri sem Trim tríóið og léku þá lög í þjóðlagastíl og tóku sér til fyrirmyndar The Kigston Trio og Savanna tríóið. Í framhaldinu tók nú við ballspilamennska með hverri sveitinni á fætur annarri; hljómsveitinni Leones og Sexmenn. Út úr Sexmönnum varð svo til hljómsveitin ÖX. Þá tók við hljómsveitin Jana, síðan var það hin margrómaða hljómsveit BG en með henni lék Rúnar á sumrin í um 7 ár milli þess sem hann stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Þá var hann m.a. líka í hinum fræga Þursaflokki sem stofnaður var 1978. Þar spilaði hann með Agli Ólafssyni, Þórði Árnasyni, Tómasi M. Tómassyni, Karli Sighvatssyni og Ásgeiri Óskarssyni. Svo er að nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem Rúnar H. spilaði á fagott um 35 ára skeið. Hann átti ekki langt að sækja tónlistargáfuna, en faðir hans, Vilberg Vilbergsson, Villi Valli rakari á Ísafirði, var m.a. með hljómsveitina VV og Barði um árabil. 
 
   Pípulagningameistarinn Reynir Guðmundsson spilaði um árabil og söng í Bændahöllinni, Súlnasal Hótel Sögu, með hljómsveit sinni Saga Class.  
 
Spiluðu á skólaböllum og almennum böllum til skiptis
Kristján Hermannsson segir að auk þess sem skólahljómsveitir í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði spiluðu á dansæfingunum hálfsmánaðarlega, þá hafi sumar þeirra líka spilað á dansleikjum utan skólans. 
„Við spiluðum t.d. á unglinga­böllum í Gúttó á Ísafirði (I.O.G.T., húsi Góðtemplarareglunnar í Sólgötunni).“ 
Greinilegt er að strákarnir sem stofnuðu Trap í upphafi litu mjög upp til Didda á unglingsárunum, því hann kunni á öll möguleg hljóðfæri. 
Kristján byrjaði að læra á harmonikku hjá föður sínum átta ára gamall og hóf svo nám í píanóleik og tónfræði hjá Ragnari H. Ragnar á Ísafirði árið 1965. 
 
Bifvélavirkinn Örn Jónsson kann sannarlega vel tökin á bassanum. Hann lék m.a. með hljómsveitinni Grafík þegar hún var stofnuð 1981. 
 
Hljómborðsleikari Trap spilaði sitt fyrsta gigg 11 ára gamall
Kristján segir að hans fyrsta gigg hafi verið þegar hann var 11 ára gamall og spilaði á árshátíð í Barnaskólanum á Ísafirði á harmonikku ásamt Hálfdáni Ingólfssyni sem er tveim árum eldri. Hann varð síðar flugmaður hjá flugfélaginu Ernir. Fengu þeir 50 krónur hvor fyrir spilamennskuna.
Kristján hefur komið víða við í hljómsveitum  og oft átt samleið með einhverjum úr Trap. 
Árið 1965 til 1966 spilaði hann í sinni fyrstu skólahljómsveit sem hét The Noise Makers. Árið 1966 til 1977 spilaði hann í hljómsveitinni Hlekkjum og árið 1967 til 1968 í hljómsveitinni Hlykkjum á Ísafirði. Veturinn 1968 til 1969 spilaði hann svo með Trap. Kom hljómsveitin m.a. fram á Skíðavikunni sem haldin var um páskana 1969 á Ísafirði. Mikið var þá um að vera í bænum, fjöldi aðkomugesta og var Gullfoss, farþegaskip Eimskipafélagsins, fengið til að vera sem fljótandi hótel við höfnina. 
Kristján spilaði með BG og Ingibjörgu á árunum 1970 til 1971. Einkum var þá spilað á böllum í Félagsheimilinu í Hnífsdal, Gúttó, Alþýðuhúsinu á Ísafirði og í Sjálfstæðishúsinu. Þá var líka spilað á Birkimel á Barðaströnd, Glaumbæ í Reykjavík, Sigtúni við Austurvöll og í Stapanum í Keflavík. 
Kristján spilaði á ný með BG veturinn 1973 til 1974. Þá var spilað að sögn Kristjáns án Ingibjargar, Ólafs og Rúnars, sem öll voru í skóla í Reykjavík. 
Á árunum 1971 til 1972 spilaði Kristján í hljómsveitinni Hörd á Ísafirði og á árunum 1976 til 2009 spilaði hann lítið opinberlega og ekki fyrr en Trap kom saman að nýju árið 2010. Þannig sýnir þetta sögubrot að ferill Kristjáns í hljómsveitum á Ísafirði um langt árabil var mjög fjölbreyttur og ótrúlega oft skarast hann við feril hinna félaganna í Trap. 
Þeir félagarnir eiga margar góðar minningar frá spilamennskunni  á liðnum árum. Tengjast þær yfirleitt áhugaverðum persónum og  prakkarastrikum í músíkbænum Ísafirði á sjöunda áratug síðustu aldar og síðar. 

Skylt efni: tónlist | saga

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...