Fréttir 30. janúar 2020

Minni aukning á umferð en undanfarin ár

Margrét Þóra Þórsdóttir

Samdráttur varð á umferð um Hringveg í síðasta desembermánuði, umferð dróst saman um 1% miðað við umferð í sama mánuði árið á undan. Í heild jókst umferðin á Hringvegi árið 2019 um 2,4 prósent sem er mun minni aukning en undanfarin ár þegar umferðin hefur aukist árlega um 5 og upp í 14%.

Vegagerðin er með 16 lykilteljara á Hringvegi. Fram kemur á vefsíðu Vegagerðarinnar að umferð hafi mest dregist saman á Norðurlandi, eða um 8,2%. Umferðin jókst aðeins á tveimur landsvæðum eða yfir teljara á og í grennd við höfuðborgarsvæðið en þar jókst umferðin um 1,4% og um Vesturland um 0,2%. Segir á vefnum að trúlega stafi samdráttur í umferð í desember að stórum hluta vegna veðurs í þeim mánuði.

Samdráttur í þremur mánuðum

Samdráttur mældist í þremur mánuð­um síðastliðins árs miðað við árið á undan, eða í mars, september og desember. Mest jókst umferðin í febrúar, eða um 15,8%, en mestur samdráttur varð í mars, eða 4,1%. Þegar árið er gert upp í heild hefur umferðin um lykilsniðin 16 aukist um 2,4%. Samdráttur varð á tveimur landsvæðum, um Austurland 2,3% og Suðurland 1,5%.  Mest jókst umferðin um Vesturland eða um 5,2%.    

Skylt efni: Hringvegurinn | umferð