Mynd/Guðmundur Jóhannsson Völlur var langvinsælasti hrúturinn á Sauðfjársæðingastöð Suðurlands á fengitímanum í desember 2019. Hrúturinn er frá Snartarstöðum í Núpasveit.
Fréttir 27. janúar 2020

Sæði úr Velli frá Snartarstöðum í Núpasveit var vinsælast

Magnús Hlynur Hreiðarsson
Sæðistökuvertíðinni hjá Sauð­fjár­sæðingastöðinni í Þorleifskoti í Laugardælum lauk 21. desember síðastliðinn. Mest af sæði var sent úr Velli 18-835 frá Snartarstöðum í Núpasveit, eða í 1.755 ær.
 
Samkvæmt frétt á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands var heildarútsending 16.030 þúsund skammtar af hrútasæði og miðað við 70% nýtingu þýðir það að rúmar 11.000 þúsund ær hafi verið sæddar. Sæðistakan gekk þokkalega en hrútarnir voru að venju misgjöfulir á sæði.
 
Eins og fyrr segir var mest af sæði sent frá stöðinni úr Velli 18-835 frá Snartarstöðum í Núpasveit, eða í 1.755 ær. Næstvinsælast var sæði úr Stapa 16-829 frá Kirkjubæjarklaustri sem fór í 1.565 ær. Úr Glæponi 17-809 frá Hesti var sett í 1.260 ær og Glámi 16-825 frá Svartárkoti í  1.075 ær.  Af kollóttum hrútum var mest sent úr Vidda 16-820 frá Fremri-Gufudal, eða í 925 ær.