Haustrúningur í fullum gangi
Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þrettán þúsund kindur á hverju ári.
Starf rúningsmanna afmarkast mest við tvær tarnir. Haustrúningur hefst þegar líða tekur á október og klárast í byrjun desember. Vetrar- og vorrúningur byrjar í febrúar og stendur fram í apríl. „Ég hef verið að byrja í kringum 20. október,“ segir Baldur. Tíðarfarið ræður miklu hvenær törnin byrjar, en á mildum haustum er féð tekið seinna á hús sem seinkar rúningi.
Misjafnt er hvort bændur rýja ærnar einu sinni eða tvisvar á ári. Þeir sem hafa aðgang að fjörubeit eða aðstöðu til að láta kindurnar ganga við opið allan veturinn láta sér oft nægja að klippa ærnar einu sinni um miðjan vetur. Eftirsóknarvert getur verið að klippa tvisvar til að fá ull af sem mestum gæðum. Haustrúningurinn skilar þá af sér bestu ullinni að því gefnu að snoðið hafi verið klippt að vori.
Þarf að vera úthvíldur
Að jafnaði klippir Baldur 200 til 250 kindur á fullum vinnudegi frá átta á morgnana til sex á kvöldin. Hann segir þetta mátulegt magn til þess að ofgera ekki skrokknum. „Ef vel gengur er ég að miða við að klippa frá 30 upp í 35 kindur á klukkutíma í haustrúningi. Svo er ég fljótari á vorin þegar ég er að taka snoðið,“ segir Baldur, en þá er ullin á kviðnum og í klofinu skilin eftir.
Í byrjun dags segir Baldur að sé mikilvægt fyrir rúningsmann að vera úthvíldur og vel upp lagður. Þá skiptir máli að vera í hreinum fötum ásamt því að vera með klippur og búnað í góðu lagi. Þegar hann mætir á verkstað stillir hann klippunum upp á þrifalegum stað í fjárhúsunum þar sem er góð lýsing og hægt að hengja upp gormarólu. Rúningsklippurnar eru knúnar af rafmagnsmótor sem er hengdur í loftið. Úr honum kemur barki eða stangir sem færa aflið í handfang sem er með kamb og hníf.
Í tilfelli Baldurs er alltaf einhver fulltrúi frá bænum sem sér um að leggja kindurnar og ganga frá ullinni en sumir rúningsmenn eru með svokölluð fellibúr og geta lagt kindurnar sjálfir úr þeim. „Bæði leggjari og rúningsmaður þurfa að nálgast kindurnar af virðingu og rólegheitum. Ef rúningsmaðurinn hefur lag á að láta kindinni líða vel á meðan hún er klippt þá gengur þetta ágætlega.“ Mikilvægt er að ærnar séu ekki úttroðnar af heyi eða of svangar, en Baldur segir að þá geti þær verið geðillar. „Passlega södd kind finnst mér alltaf róleg og góð,“ segir Baldur.
Bændur skilja erfiðið
„Þú þarft að rýja mörg þúsund kindur til þess að verða góður,“ segir Baldur. „Ef þú byrjar rólega og hugsar um að hafa kindurnar í réttum stellingum mun hraðinn smátt og smátt koma.“ Hann prufaði rúning fyrst mjög ungur heima í Klifshaga sem hann lærði af fyrirmynd föður síns. Þegar hann fór í búfræðinám á Hvanneyri á árunum 2012 til 2014 skrópaði hann á rúningsnámskeiði þar sem hann var upptekinn við að rýja fyrir bændur. Baldur hefur haft atvinnu af rúningi hvern vetur síðan þá.
Baldur telur að flestir rúningsmenn taki 450 til 550 krónur án virðisaukaskatts fyrir alrúning á hverri kind. „Þetta er vertíðarvinna sem tekur á bæði andlega og líkamlega þannig að þú verður að hafa sæmilega gott upp úr þessu. Ég hef aldrei orðið var við það að bændur séu ósáttir við verðið því þeir skilja að þetta er líkamlega erfið vinna þegar þú ert í langri törn.“ Baldur notar þar til gerða rúningsrólu sem tekur þungann af bakinu og segir hann hana skipta höfuðmáli til þess að hann geti stundað þetta starf.
Baldur stundar rúning mest hjá bændum í sínu nágrenni í Öxarfirði og Þistilfirði. Þá fer hann alltaf á nokkra bæi í Eyjafirði og tekur eina viku í rúning í Dölunum og Borgarfirði