Niðurgreiða sýningargjöld
Hrossaræktarfélag Hrunamanna mun niðurgreiða hluta sýningargjalda kynbótahrossa fyrir félaga sína.
„Okkur finnst mjög gaman að geta gert þetta. Það er eitt af markmiðum félagsins að styðja við hrossarækt í sveitinni og okkur finnst þetta kjörin leið,“ segir Guðríður Eva Þórarinsdóttir, formaður félagsins, sem telur um sjötíu meðlimi.
Niðurgreiðslan nemur tíu þúsund krónum á hvern hest sem mætti til fullnaðardóms árið 2024. Hrossið þarf að hafa verið ræktað af og í eigu félagsmanns þegar það var sýnt.
„Skráningargjöld á kynbótasýningum hafa hækkað mjög mikið og hratt á undanförnum árum. Í sumar kostaði til dæmis 40.675 krónur að fara með hross í fullnaðardóm. Það eru ekki mörg ár síðan það var á bilinu 25–28.000 krónur, svo með þessu tekst okkur eitthvað að koma til móts við þessa hækkun. Við vonumst til þess að félagar okkar verði áfram duglegir að mæta með hross í dóm,“ segir Guðríður.