Rannsókn ungra bænda
Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynslóðaskipta í landbúnaði.
„Það er mikilvægt fyrir okkur að fá að vita svart á hvítu hvað það er sem hvetur eða letur kynslóðaskipti svo við getum unnið að því að auka nýliðun í stéttinni,“ segir Steinþór Logi Arnarsson, formaður SUB. Samtökin standa því fyrir könnun þar sem þátttakendur eru spurðir um helstu hindranir og hvata í íslenskum landbúnaði
Allir sem tengjast landbúnaði eru hvattir til að taka þátt. Þátttakendur þurfa ekki að vera starfandi bændur, en samtökin hafa jafnframt áhuga á að heyra í þeim sem langar að verða bændur eða stunduðu nám í búvísindum og búfræði. Niðurstöðurnar verða kynntar á aðalfundi Samtaka ungra bænda í janúar.
Könnunin er hluti af rannsóknarverkefni SUB sem hlaut styrk úr byggðarannsóknasjóði Byggðastofnunar og er stýrt af Grétu Bergrúnu Jóhannesdóttur, sérfræðingi hjá Rannsóknasetri byggða- og sveitarstjórnarmála við Háskólann á Bifröst. Nánari upplýsingar og tengil á könnunina má finna á Facebook-síðu Samtaka ungra bænda.