Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu
Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Laxabraut 31 við Þorlákshöfn.
Samkvæmt því er lóðinni skipt upp í sjö hluta, eina stóra lóð og sex minni og í auglýsingu er sagt að lóðirnar henti vel fyrir súrefnisframleiðslu þar sem landeldisfyrirtæki rísi hvort sínum megin við lóðirnar.
„Ferli súrefnisframleiðslu felur í sér að notast þarf við háa turna þegar súrefni er aðskilið frá öðrum gastegundum. Í ljósi þess er heimilt í skipulaginu að reisa mannvirki sem geta verið allt að 55 m á hæð,“ segir í auglýsingunni.
Haft var eftir Páli Marvini Jónssyni, framkvæmdastjóra þekkingarsetursins Ölfus Cluster í Bændablaðinu í september, að tvö fyrirtæki hafi leitað til þeirra og rætt möguleikann á að byggja upp súrefnisframleiðslu á svæðinu. Samkvæmt heimildum eru það fyrirtækin Linde Gas og Veldix.
Skipulagið var samþykkt í bæjarstjórn Ölfuss þann 30. október sl. og verður til kynningar á bæjarskrifstofunni. Hægt verður að senda ábendingar eða athugasemdir til sveitarfélagsins til 19. desember.