Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Vistheimt á Skeiðarársandi. Stærsti birkiskógur landsins vex nú upp á Skeiðarársandi án aðkomu manna.
Vistheimt á Skeiðarársandi. Stærsti birkiskógur landsins vex nú upp á Skeiðarársandi án aðkomu manna.
Mynd / Snorri Baldursson
Skoðun 5. desember 2019

Að græða „fjóshaug mannkyns“

Höfundur: Snorri Baldursson - deildarforseti við Landbúnaðarháskóla Íslands

Pétur Halldórsson birti grein í Bbl. hinn 21.11.19 sem ber titilinn „Fjóshaugur mannkyns“: Grein Péturs fjallar annars vegar um kolefni og hins vegar um meint ómálefnaleg skrif mín um vistheimt og ræktun (Bbl. 24.10.19), sem séu til þess fallin að afvegaleiða lesendur. 

Pétur segir mig „uppnefna ræktaða skóga á Íslandi“ og „tala [….] niður til skógræktar og annarrar ræktunar“. Ég verð að vísa þessum ásökunum Péturs til föðurhúsanna, enda hefur málsmetandi fólk sem ég hef borið greinina undir ekki fundið þeim stað. Grein mín var innblásin af þátttöku í alþjóðlegri ráðstefnu um vistheimt í Suður-Ameríku fyrr í haust og í tilefni þess að að Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að nefna næsta á áratug, 2021–2030, Áratug vistheimtar.

Þótt ég taki skýra afstöðu með vistheimt sem aðferð til að græða stór (áhersla á stór) landsvæði á Íslandi og þótt ég gjaldi varhug við plantekruskógrækt – ræktun einnar eða fárra trjátegunda á stórum svæðum – sem lausn við loftslagsvanda, fer því fjarri að ég tali niður alla skógrækt eða ræktun. Ég tek þetta meira að segja skýrt fram, sbr. „Eðli skógræktarinnar skiptir öllu máli í þessu sambandi“. Um ræktun segi ég m.a.  „Ræktun hefur brauðfætt mannkyn um árþúsundir og séð okkur fyrir timbri og pappír og ýmsum öðrum nauðsynjavörum, en mikilvægi vistheimtar fer sífellt vaxandi í heimi þar sem umgengni um náttúrleg vistkerfi hefur verið áfátt svo vægt sé til orða tekið…“.

Tvennt í greininni minni virðist hafa farið sérstaklega í taugarnar á Pétri. Annað er orðið „plant­ekruskógrækt“ og hitt setningin „Vistheimt – endurheimt náttúruskóga eða annarrar upprunalegrar gróðurþekju – er í raun eina ásættanlega leiðin sem hægt er að fara til að bæta kolefnisbúskap stórra landsvæða sem eru illa farin vegna ósjálfbærrar landnýtingar.“

Skoðum þetta aðeins. Orðið plantekra er íslenska yfir það sem á ensku er nefnt „plantation“, sem skv. Merriam-Webster orðabókinni þýðir m.a. „a usually large group of plants and especially trees under cultivation“ og skv. Cambridge orðabókinni: „an area where trees are grown for wood“ og sem dæmi „plantations of fast-growing conifers“. Á Wikipedia (Ísl.) er plantekra skilgreind sem  „stórt býli sem sérhæfir sig í ræktun fárra tegunda [plöntu]afurða“.  Samkvæmt orðanna hljóðan er plantekra ekra sem plantað er í. Þetta er að mínu mati mjög gott og hlutlaust orð yfir þá skógrækt sem Pétur kýs að kalla frekar nytjaskógrækt og felst í kerfisbundinni og tiltölulega þéttri útplöntun fárra trjátegunda í land til framleiðslu viðarafurða.

Ég gerði það mér til gamans að „googla“ nokkur hugtök sem skógræktarmenn hafa notað yfir ræktaða skóga í gegn um tíðina (fjöldi tilvika sem Google fann innan sviga): blandskógar (13.200), landgræðsluskógar (6.200), nytjaskógar (4.090), skjólskógar (3.180), útivistarskógar (1.500), timburskógar (640), fjölnytjaskógar (397), yndisskógar (163), iðnviðarskógar (137), landbótaskógar (116). Flest ef ekki öll þessi hugtök eru að mínu mati mun gildishlaðnari en plantekra eða plantekruskógur.

Vinninginn hefur þó hið ónothæfa hugtak, eða kannski „uppnefni“ (sbr. nálgun Péturs), blandskógar sem ég hef raunar gagnrýnt oft áður á prenti fyrir markleysu. Hugtakið gefur til kynna að með því að blanda nokkrum trjátegundum saman verði allt gott og blessað, að blanda af t.d. sitkagreni, stafafuru og birki sé jafngild náttúrulegum birkiskógi. Hugtök sem þessi blekkja og afvegaleiða umræðuna miklu frekar en að kalla hlutina sínu rétta nafni.

Ég hef í gegn um tíðina skrifað margar greinar gegn ofuráherslu Skógræktarinnar á ræktun innfluttra tegunda í úthaga landsins, oft í hróplegri andstöðu við sjónarmið lífríkis- og landslagsverndar. Þar með er ekki sagt að ég sé á móti allri skógrækt. Ábyrgð þjóðarinnar og allra þjóða felst ekki í einhliða áherslu á timburframleiðslu eða kolefnisbúskap með hámarks framleiðni að leiðarljósi. Ábyrgðin felst í því að ástunda ræktun og landbætur í sátt við land og þjóð með fjölþætt markmið að leiðarljósi, sem lúta m.a. að vernd og endurheimt upprunalegs lífríkis, vernd jarðvegs og landslags, betra loftslagi, nytjum og yndisauka.

Í nýjum skógræktarlögum er lögð áhersla á þessa samþættingu ólíkra markmiða, sbr. 1. grein:

„Markmið laga þessara er:
a. að vernda náttúruskóga lands-
ins og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra,
b. að vernda og endurheimta líf-
ræðilega fjölbreytni,
c. ræktun nýrra skóga til að
byggja upp fjölbreytta skógarauðlind til sjálfbærra nytja,
d. að  nýting  skóga  sé  sjálfbær
þannig að skógarnytjar skili sem mestum hagrænum, félagslegum og umhverfislegum ávinningi fyrir samfélagið,
e. að skógrækt verði í samræmi
við skipulagsáætlanir og náttúruvernd,
f. að auðvelda aðgengi fólks að
skógum til útivistar og auka þekkingu fólks á málefnum skóga og skógræktar,
g. að stuðla að kolefnisbindingu með ræktun skóga og aðlögun þeirra að loftslagsbreytingum,
h. að skógrækt stuðli að verndun jarðvegs og dragi úr hugsanlegu tjóni vegna náttúruvár.“

Fjögur af átta markmiðum Skógræktarlaga falla beint undir náttúruvernd og vistheimt (a, b, e og h). Markmiðum a og b verður ekki náð með ræktun innfluttra tegunda. Náttúruskógur í skilningi laganna er: „Land, a.m.k. 0,5 ha að flatarmáli, þar sem sjálfsánar, innlendar trjátegundir, þ.e. ilmbjörk, reyniviður, blæösp, gulvíðir eða loðvíðir, eru ríkjandi..“ Það er ekki fræðilega mögulegt að vernda og breiða út náttúruskóga á Íslandi með útplöntun sitkagrenis eða stafafuru.

Blandað skóg- og kjarrlendi með innlendum tegundum bindur líka umtalsvert kolefni og mestur ávinningur fæst með því að endurheimta illa gróin vistkerfi á stórum svæðum – enda er það moldin ekki síður en gróðurinn sem bindur kolefnið. Þess vegna stend ég keikur við það að vistheimt sé í raun eina ásættanlega leiðin sem hægt er að fara til að bæta kolefnisbúskap stórra landsvæða. Sú staðhæfing Péturs að endurheimt gróðurlendi verði ekki nákvæmlega eins og hin upprunalegu er að mínu mati hártogun til þess fallin að afvegaleiða umræðuna (sbr. ásökun Péturs). Flóra og fána endurheimts skóg- og kjarrlendis, ásýnd í landslaginu og fjölbreytt þjónusta við land, þjóð og lífríki (t.d. vatnsmiðlun, jarðvegsvernd, kolefnisbinding, útivist, yndisauki, smíðaviður, ber) verður í grundvallaratriðum sambærilegt við náttúruskóg, öfugt við ræktaðan skóg þar sem meiri hlutinn eru barrviðir.

Setjum sem svo að 2.000 km2 af illa grónum þjóðlendum neðan 400 m y.s. (af nógu er að taka) verði teknar til vistheimtar með birki og víði. Þá má þess vænta áður en langt um líður og án mikilla fjárútláta að svæðið bindi yfir 400.000 tonn CO2 á ári. Þar með væri gengið langt í að kolefnisjafna allan landbúnað á Íslandi á sama tíma og lagður er grunnur að náttúrulegum vistkerfum sem falla vel að ásýnd landsins. Í verkefnum af þessum toga liggja stóru tækifærin hjá Skógræktinni.

Spurning Péturs í greinarlok, „Skiptir kannski meira máli hvaða þjónustu skógarnir veita en hvaða trjátegundir vaxa þar?“ er því ákaflega afvegaleiðandi, sbr. ofanskráð. Náttúruskógar veita alla sömu þjónustu og ræktaðir skógar – fyrir utan grófari timburafurðir (borðvið, burðarvið o.fl.) – og á sumum sviðum mun víðtækari þjónustu fyrir minni útlagðan kostnað.

Hvað heillar okkur Íslendinga og erlenda ferðamenn við landið? Er það ekki miklu frekar víðáttan, víðsýnið og lágstemmdur jurta- og trjágróður frekar en hávaxnir, þéttir greniskógar?

Skylt efni: Skógrækt | Landgræðsla

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...