Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
COVID-19 ekki búið
Skoðun 6. júlí 2020

COVID-19 ekki búið

Höfundur: HKr.
Heimsfaraldur vegna COVID-19 er hvergi nærri yfirstaðinn. Íslendingar hafa verið minntir óþyrmilega á það síðustu daga, sem leitt hefur til þess að hundruð manna hafa verið sett í sóttkví. Það er því full ástæða fyrir Íslendinga að fara varlega og haga sér skynsamlega á ferðalögum og á mannamótum sem fram undan eru í sumar. 
 
Ýmsir töldu í febrúar og fram í mars að heimsfaraldur vegna COVID-19 væri ekki mikið mál og vart alvarlegri en svona meðal flensa. Jafnvel voru þeir til sem sögðu þetta samsæri sem runnið væri undan rifjum vondra Kínverja til að valda uppnámi í efnahagskerfi heimsins. 
 
Í dag er trúlega flestum orðið ljóst að COVID-19 er ekkert til að gera grín að. Staðfest andlát vegna COVID-19 eru í það minnsta komin í ríflega hálfa milljón og fer dauðsföllum ört fjölgandi. Staðfest smit voru þegar Bændablaðið fór í prentun í gær komin yfir 10,5 milljónir og fjölgaði af ógnarhraða. Þó staðfest hafi verið að ríflega 5 milljónum smitaðra manna hafi batnað, þá verður að hafa það í huga að skimun fyrir COVID-19 hefur hingað til aðeins náð til lítils hluta þeirra sem eru í hættu á að smitast á heimsvísu. Fyrir ríflega sjö milljarða jarðarbúa er því enn mikið í húfi. 
 
Það er ekki bara sjúkdómurinn sjálfur sem veldur mönnum áhyggjum, því afleiðingarnar á efnahagskerfi heimsins, iðnað, matvælaframleiðslu og heilbrigðis­kerfið munu verða hrikalegar. Þótt bóluefni fyndist fyrir alla jarðarbúa strax í dag, þá er skaðinn þegar orðinn mjög mikill og enginn getur í raun spáð fyrir um framhaldið. Það eina sem við Íslendingar getum í raun gert er að fara að ráðleggingum þeirra sem mesta þekkingu hafa á svona fyrirbærum og að haga okkur skynsamlega.
 
Auðvitað hljótum við samt að reyna að rýna út úr sortanum og horfa með bjartsýni fram á veginn. Allt annað væri uppgjöf. Þrátt fyrir allt höfum við yfir að ráða flestum þeim þáttum sem gefa okkur tilefni til bjartsýni ef vel er á spilum haldið. 
 
Við höfum þokkalega skynsama og hrausta þjóð sem hefur sýnt það að hún kann að takast á við erfiðleika. Við höfum efnahagskerfi sem er í mun betri stöðu en flest efnahagskerfi í kringum okkur. Við höfum yfir að ráða gríðarlegum orku­auðlindum og gætum tæknilega, ef í harðbakkann slær, framleitt allt það eldsneyti sem við þörfnumst. Við höfum fjölbreytta atvinnuvegi, við höfum öflugan sjávarútveg og öflugan landbúnað sem hefur mikla vaxtarmöguleika. Við höfum í raun allt til að geta verið að mestu sjálfbær þjóð og staðið af okkur meiri háttar heimshörmungar. 
 
Þessi staða lítillar þjóðar meðal þjóða er alls ekki sjálfgefin. Því skiptir afar miklu máli að við höfum bein í nefinu og skynsemi til að verja þá stöðu af mikilli hörku. Það er nefnilega afskaplega auðvelt að glata þessari sérstöðu ef menn láta glepjast af gylliboðum hamingjusölumanna sem bjóða eilífan æskuljóma í túpum gegn vægu gjaldi.
 
Okkur er tjáð að það kosti okkur svo sem ekkert að flytja inn alla okkar hamingju. Bara örlitla eftirgjöf af forræði þjóðarinnar yfir eigin lögum, smá afsal af landi, örlitlu vatni og afsal á „dass“ af öðrum auðlindum. Bara svona örlítið í einu, eða þar til örlítið verður aðeins meira og við sitjum uppi með ekki neitt í höndunum. – Í von um að við séum skynsamari en svo, þá fer ég í fríið, eins og Þorgeir Ástvaldsson vinur okkar söng svo eftirminnilega, og tek áskorun yfirvalda um að ferðast um landið, sem við eigum þó enn, að stærstum hluta.
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...