Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Gætum hagsmuna hver annars
Skoðun 5. ágúst 2020

Gætum hagsmuna hver annars

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Það er áþreifanleg spenna í þjóðfélaginu þrátt fyrir að nú séu flestir landsmenn í sumarleyfum. Bannsett kórónuveiran er að sækja í sig veðrið á ný og fjöldi nýrra smita minnir okkur á að fara að öllu með gát.
 
Veðurspá verslunar­mannahelgarinnar er með þeim hætti að áhyggjur af útisamkomum sem ögra fjöldatakmörkunum virðast óþarfar. Einhver gárungurinn sagði að Þórólfur sóttvarnalæknir hefði verið bænheyrður þegar hann sá rigningarmerkin í veðurkortunum. Kári Stefánsson birtist í fréttatímanum í vikunni og tilkynnti þungur á brún að Íslensk erfðagreining ætlaði að taka til við skimun á ný. Hrós til Kára og hans fólks!
 
Þrátt fyrir ferðagleði landans hvílir skuggi yfir ferðaþjónustunni sem berst í bökkum. Þar hafa margir misst vinnuna á síðustu vikum og það er sárt. Fjöldi fyrirtækja er tæknilega gjaldþrota og ljóst að kraftaverk þarf til að rekstur margra þeirra geti haldið áfram óbreyttur. Samkvæmt mælingum Hagstofunnar var fjöldi atvinnulausra í júní 8.300 manns, eða um 4,1% af vinnuaflinu í landinu. Þessar tölur eiga vafalaust eftir að hækka í haust þegar sumarvertíðinni lýkur. Annars er óvissan mikil og enginn getur í raun og veru spáð fyrir um þróunina. Við sjáum hins vegar að staðan er alvarleg. Þær fréttir sem berast af lífróðri Icelandair endurspegla vandann í atvinnugreininni. Stjórnendur eru ekki öfundsverðir þegar þeir horfa fram á algjört tekjuhrap og kjarasamninga sem er ógjörningur að standa við í því ástandi sem nú ríkir. Vinnudeila flugfreyja og stjórnenda Icelandair sýnir svart á hvítu hvað harkan er mikil og veruleikinn óblíður þegar harðnar á dalnum. Flugfreyjum var stillt upp við vegg þegar þeim var sagt upp á einu bretti í kjölfar viðræðuslita. Svo náðist samningur sem báðir aðilar eru örugglega ekki fyllilega sáttir við þótt menn segi annað í sjónvarpsviðtölum. Eftir situr minna traust, beiskja og særindi.
 
Sú hætta er veruleg þegar illa árar í efnahagslífinu að brotið sé á réttindum launafólks eða mörg skref stigin til baka í þeirra réttindabaráttu. Á dögunum kom undirritaður á bensínstöð og gaf sig á tal við afgreiðslumann. Hann var þreytulegur og sagði farir sínar ekki sléttar. Eigendurnir eru búnir að skera allt inn að beini og fækka starfsfólki. Afgreiðslumaðurinn var einn á 8 tíma vakt þar sem hann hafði ýmis hlutverk; aðstoða bíleigendur, afgreiða pylsur og hella upp á kaffi. Hann þarf að læsa bensínstöðinni þegar hann bregður sér á salernið og engan hvíldartíma fær hann á meðan vinnutíma stendur, hvorki kaffi- né matartíma. Ég hváði og spurði hvort þetta væri yfir höfuð hægt að bjóða nokkrum manni. „Maður getur svo sem ekki kvartað þegar atvinnuástandið er eins og það er,“ sagði hann. 
 
Samfélagið ætti allt að hafa þetta í huga og halda vöku sinni. Pössum líka upp á okkar minnstu bræður og systur. Sparnaður og niðurskurður í velferðarkerfinu verður kominn á dagskrá áður en við vitum af. Fljótt gengur á féð í ríkiskassanum og alþingismenn geta tæplega stofnað til nýrra útgjalda á næstu misserum.
 
En það er ekki allt að fara til fjandans og best að minna sig á það í öllum bölmóðinum. Við sem störfum í landbúnaðinum höfum ástæðu til að gleðjast yfir góðri tíð og ágætri sölu á okkar afurðum. Ástæða er til að þakka tryggð neytenda sem hafa sýnt svo ekki verður um villst að þeir eru þakklátir fyrir íslenska matvælaframleiðslu og aðrar afurðir bænda.
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...