Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Minningarorð um Framleiðnisjóð landbúnaðarins
Lesendarýni 1. október 2019

Minningarorð um Framleiðnisjóð landbúnaðarins

Höfundur: Bjarni Guðmundsson
Ég hef stundum skrifað nokkur minningar­orð um horfna samferða­menn, þó aldrei fyrr en þeir hafa kvatt.
Nú segir í fréttum að ríkisstjórnina með atbeina Alþingis langi til þess að gera eitthvað í mál­efnum landbúnaðarins: Hún hyggst leggja niður Framleiðni­sjóð sem þar með mun hverfa úr tölu lifandi stofnana. Því verðskuldar sjóðurinn dálitla minningargrein byggða á nokkrum kynnum mínum af honum.
 
Framleiðnisjóður var stofnaður árið 1966 og var angi af ýmsum umbótum sem unnið var að á Viðreisnarárunum svonefndu. Brýnt var talið að efla framleiðni landbúnaðar, bæði í hinum hefðbundna búrekstri sem og úrvinnslugreinum hans. Lagðir voru fram myndarlegir fjármunir sem beint var til vænlegra verkefna. Að stjórnarborði komu fulltrúar stjórnvalda og bænda svo tryggja mætti eðlileg samráð um verkefni. Sjálfur minnist ég þess frá fyrstu árum sjóðsins að hafa unnið að rannsóknaverkefnum hjá Bútæknideild Rala á Hvanneyri sem fjármögnuð voru af sjóðnum – verkefnum sem sneru að bættri heyverkun, sem þá var talin nauðsynjaverk. 
 
Studdi hagræðingu og umbætur
 
Framleiðnisjóður studdi hagræðingu og umbætur í afurðastöðvum bænda, bæði hvað snertir sláturhús og mjólkurbú. Þegar ný tækni við mjólkurmeðferð tók að breiðast út átti Framleiðnisjóður þátt í að létta mjólkurbrúsabaxi af bændafólki með stuðningi sínum við tankvæðinguna svonefndu. Voru það hvað fyrstu beinu kynnin sem bændafólk hafði af starfi Framleiðnisjóðs. 
 
Um miðjan níunda áratuginn var gerð mikil breyting á framleiðslu­umhverfi landbúnaðar. Meðal annars var umtalsverðum fjármunum sem áður höfðu farið til útflutningsbóta nú beint í Framleiðnisjóð sem skyldi með þeim leggja lið nauðsynlegum búhátta­breytingum. Vitanlega sýndist sitt hverjum eins og jafnan þegar breytingar eru óumflýjanlegar. Víst er þó að sjóðurinn studdi marga bændur sem þá og síðar vildu skjóta nýjum og fleiri stoðum undir búrekstur sinn. Nýbúgreinarnar loðdýrarækt og fiskeldi reyndust ekki henta öllum, en mörg glæsilegustu ferðaþjónustu­býli landsins í dag rekja sig til upphafs þar sem Framleiðnisjóður lagði dugandi og hugmyndaríku bænda­fólki fjárhagslegt lið. Hið sama á við glæsilega hestabúgarða víða um land að ekki sé gleymt smávirkjununum sem bændur tóku ýmist að endurnýja eða reisa nýjar um síðustu aldamót, og þykja nú spennandi kostur til orkuöflunar að stórvirkjunum kvöddum. 
 
Árangursríkt starf Smáverkefnasjóðs
 
Handverk í dreifðum byggðum naut sérstakrar athygli undir hatti Framleiðnisjóðs með árangursríku starfi Smáverkefnasjóðs hans. Stór og öflug fyrirtæki eins og t.d. Límtré Vírnet hf. er svo heitir í dag, fór af stað austur á Flúðum með myndarlegum stuðningi Framleiðni­sjóðs og fyrirtækið ORF-líftækni naut hins sama með mikilvægu framlagi til ungra og hugmynda­ríkra vísindamanna er það fyrirtæki sköpuðu.
 
Í útflutningi hesta stríddu menn við sumarexem erlendis svo illa horfði. Tilraunastöðin á Keldum og samstarfsaðilar hennar hófu rannsóknir með myndarlegu fjár­framlagi sjóðsins og hafa nú unnið sleitulaust og við vaxandi athygli annarra sjóða og fagaðila svo nú er lausn vandans í augsýn. 
 
Stuðningur við rannsókna­verkefni í þágu lands og land­búnaðar hefur alla tíð verið á verkefnalista Framleiðnisjóðs. Um tíma var þar höfð samvinna við Rannsóknaráð ríkisins um val verkefna og fjármögnun þeirra svo unnt var að sinna fleiri fyrsta flokks rannsóknaverkefnum. Og enn styður sjóðurinn slík verkefni, sbr. ársskýrslu hans fyrir árið 2018, og fyrri ársskýrslur sem lesa má á heimasíðu Framleiðnisjóðs. Væri of langt upp að telja, nefna má þó rannsóknir á kornrækt sem skapað hafa þeirri búgrein nýjan grundvöll hérlendis, sem og öðrum rannsókna- og þróunarverkefnum í jarðrækt og plöntukynbótum, sem og í búfjárrækt er stuðla að jöfnum og stöðugum framförum búgreinanna.  
 
Hefur komið að ótrúlega mörgum verkefnum
 
Þegar nánar er að gáð sést að Framleiðnisjóður hefur á æviskeiði sínu allt til þessa dags komið að ótrúlega mörgum verkefnum sem hafa átt eða eiga sinn þátt í að bera uppi atvinnu í byggðum landsins og að skapa fjölbreytileika í afurðum og þjónustu landbúnaðarins. Að þessu rituðu skal tvennt sérstaklega áréttað: 
 
Í fyrsta lagi það að fjárhags­legur stuðningur Framleiðnisjóðs í hinum ýmsu verkefnum hefur sjaldnast numið tugum prósenta af heildarkostnaði þeirra. Þar hefur meira munað um dugnað þeirra sem fyrir verkum stóðu, vinnu þeirra og önnur framlög. En aurar Framleiðnisjóðs hafa verið og eru frumkvöðlum og athafnafólki hvatning og viðurkenning sam­félagsins á því að það hafi verið að gera rétt. 
 
Í öðru lagi það að við stjórnar­borð Framleiðnisjóðs sitja og hafa setið fulltrúar ríkisvaldsins og stofnana þess annars vegar en samtaka bænda hins vegar. Með samráði þar um ráðstöfun fjármuna sjóðsins, sem jafnan hafa verið hluti af starfskjarasamningum bænda og ríkis, hefur mátt hafa veruleg áhrif á landbúnaðarstefnuna í reynd, ekki síst með verkefnum er stuðlað geta að nýsköpun svo og öflun og miðlun nýrrar þekkingar, sem samfélaginu er svo nauðsynleg.
 
Áður en Framleiðnisjóður verður borinn til grafar hvet ég bæði bændur og stjórnvöld til þess að gefa reynslu af hvetjandi starfi sjóðsins í áranna rás gaum en spyrja jafnframt hvort og hvernig stuðningur við margvísleg framfaramál landbúnaðarins verði tryggður nýr farvegur.  
 
Starfsformin geta verið fleiri en eitt en tilgangi og starfi til stuðnings margvíslegra og vænlegra vaxtarsprota í síbreytilegu umhverfi má ekki glutra niður. Gerist það veri blessuð minning Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.  
 
Bjarni Guðmundsson
Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...