Stórgripaslátrun í níu sláturhúsum
Alls var 103.750 stórgripum slátrað hér á landi árið 2023. Slátrað var á níu stöðum.
Nautgripir, hross og svín teljast til stórgripa við slátrun. Níu sláturhús framkvæmdu stórgripaslátrun árið 2023 samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun.
Mest var slátrað af svínum, eða 72.404 gripum, sem eru tæplega 70 prósent af allri stórgripaslátrun landsins. Langmest var slátrað hjá Stjörnugrís, eða 54.876 gripum. Það gerir tæplega 53 prósent af allri stórgripaslátrun landsins en aðeins svínum er slátrað hjá fyrirtækinu. Rúm 8.600 svínum var slátrað í sláturhúsi Kjarnafæði Norðlenska á Akureyri og tæplega 4.000 á SS á Selfossi.
Þá var 23.169 nautgripum slátrað í átta sláturhúsum, mest hjá SS á Selfossi, eða um 6.600 gripum, tæplega 6.000 á Sláturhúsinu á Hellu og ríflega 5.000 hjá Kjarnafæði Norðlenska á Akureyri. Rúmlega 2.200 nautgripum var slátrað á Sauðárkróki, um 1.600 á Blönduósi og um 1.500 hjá B. Jensen í Hörgársveit. Minna en 100 gripum var slátrað í Borgarnesi og á Vopnafirði.
Tæplega 8.200 hrossum var slátrað árið 2023, langmest hjá SS á Selfossi, eða ríflega 3.700 gripum sem eru um 45,5 prósent af heildinni. Um 2.000 gripir fóru í gegnum sláturhús Kjarnafæði Norðlenska / SAH afurða á Blönduósi og ríflega 1.300 hrossa var slátrað á Sauðárkróki.
Aðeins þrjú sláturhús slátra öllum gerðum stórgripa. SS á Selfossi slátraði 13,82% af öllum stórgripum landsins, 14.335 talsins, og slátruðu mest allra sláturhúsa af nautum og hrossum. Sláturhús Kjarnafæði Norðlenska á Akureyri slátraði 13,36% allra stórgripa, mest af svínum en lítið af hrossum. Sláturhús B. Jensen á Akureyri slátraði 6,31% af öllum stórgripum landsins.