„Framtíðin er björt í garðyrkjunni“
Hólmfríður Geirsdóttir garðyrkjubóndi og Steinar Jensen rafvélavirki stofnuðu garðyrkjustöðina Kvista í Reykholti árið 2000. Á starfsferli sínum ræktuðu þau bæði skógarplöntur, berjaplöntur og ber en hafa nú dregið saman seglin og selt garðyrkjustöð sína, Jarðarberjaland.
Hólmfríður lauk námi við Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1982 og hefur starfað við garðyrkju síðan. Hólmfríður hefur séð um ræktunina en Steinar um allt viðhald og uppbyggingu.
„Ég er lærð í garðplöntuuppeldi og skógarplöntuuppeldi. Á þessum tíma voru landshlutaverkefnin að óska eftir framleiðendum á plöntum og voru með útboð í gegnum Ríkiskaup. Við tókum þátt í útboðinu og fengum verkefni. Við fórum því af stað að leita okkur að landi til að reisa garðyrkjustöð og skoða eldri stöðvar og enduðum hér í Reykholti.“
Upphaflega voru þau eingöngu með skógarplöntur í fjölpottabökkum en síðan þróaðist framleiðslan yfir í ýmsar tegundir garð- og skógarplantna, bæði ungplöntur í bökkum og eldri plöntur í pottum. „Þetta var svona aðaluppistaðan hjá okkur en við vorum líka í garðplöntuframleiðslu, trjám og runnum. Það var hugsað fyrir sumarbústaðamarkaðinn hérna í nágrenninu. Svo vorum við með opna sölu á hlaðinu hjá okkur þessi sumur.“
Hólmfríður segir að þetta hafi verið mikil tarnavinna. „Í mars, apríl, maí og júní er verið að fjölga og sá, taka græðlinga og stinga. Það er frekar mannfrek vinna en svo kemur ræktunartíminn yfir sumarið. Á haustin er svo aftur törn þegar þarf að undirbúa plönturnar fyrir vetrardvala, flokkun og pökkun á frystigeymslur. Síðan er rólegra yfir háveturinn. Þá er verið að þrífa bakka og annað, undirbúa og þrífa húsin og svo fer törnin aftur af stað. Þetta er mikil törn yfir sumarið en rólegra yfir vetrartímann.“
Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 ákváðu stjórnvöld að draga saman framlög til skógræktar í landinu. Það hafði þegar mjög neikvæð áhrif á starfsemi Kvista og neyddust þau hjón þá til að draga saman seglin í trjáplönturæktun. „Fyrir hrun vorum við með ágæta samninga við ríkið um skógarplöntuframleiðslu, bæði fyrir landshlutabundnu verkefnin og eins Hekluskóga. Í hruninu var þetta skorið niður um helming. Við vorum búin að reisa fleiri gróðurhús en við hrunið lendum við í að vera með tóm gróðurhús sem er náttúrlega alveg skelfilegt.“
Berjarækt töluvert öðruvísi en trjáplönturækt
Það er vont fyrir reksturinn að vera með tóm gróðurhús og því fóru Hólmfríður og Steinar að leita að nýjum verkefnum. Þá kom verkefnið Atlantberry eins og himnasending en það var sett á fót til að stuðla að framþróun í berjaframleiðslu í atvinnuskyni á Norður-Atlantshafssvæðinu. „Þetta verkefni átti að styrkja og efla ræktun á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og í norðurhluta Noregs. Við tökum þátt og fáum styrk. Gátum í raun leigt hluta af okkar gróðurhúsum í þetta verkefni. Við fengum þannig styrk til að starta þessu og það varð svo til þess að við helltum okkur út í berjarækt í framhaldinu.“
Berjarækt er töluvert öðruvísi en trjáplönturækt. „Það tekur sinn tíma að læra á berjaplöntur og maður er náttúrlega alltaf að læra. Ég var náttúrlega heppin að fá ráðunauta frá Belgíu og Hollandi til mín í gegnum ráðunautaþjónustuna. Þeir lögðu línurnar fyrir mig um hvernig ég ætti að standa að þessu. Ég hef alltaf fengið ráðunaut einu sinni eða tvisvar á ári. Þetta lærist smám saman.“
Hólmfríður og Steinar voru í áratug bæði í trjáplöntum og berjarækt. Hólmfríður segir það fara ágætlega saman. „Trjáræktin er tarnavinna þar sem mikið er að gera á vorin og svo aftur á haustin. Þar er rólegra á sumrin og því gott að hafa berjaræktina sem er meira á sumrin. Ég gat því flutt mannskapinn á milli verkefna.“
Þegar leið að árinu 2020 ákváðu þau samt að draga saman seglin og selja trjáplöntuhluta rekstursins. „Við ákváðum að fara að trappa okkur niður. Við vorum komin með þrjár garðyrkjustöðvar og ansi mikið að gera. Við hugsuðum með okkur að nú væri kominn tími á að róa sig aðeins.“
Þau sneru sér eingöngu að jarðarberjarækt í Jarðarberjalandi sem þau keyptu árið 2017.
Þar eru ræktuð jarðarber allt árið af yrkinu Sonata sem gefur sæt og bragðmikil ber. Berin eru tínd beint í söluöskjurnar og komið í kæli innan við tveimur klukkustundum eftir tínslu. Gróðurhúsið er 3.600 fm og á því eru sex burstir. Hverri burst er skipt í tvennt sem gefur tólf einingar. Með örlítilli einföldun er plantað með viku millibili í hverja einingu. „Þannig rúllar húsið í gegnum allt árið. Þannig að það er alltaf verið að planta og plönturnar á öllum stigum. Bæði nýjar plöntur og verið að klára tínslu á sumum plöntum. Ferlið frá útplöntun og þar til plöntunni er hent er svona fjórir til fjórir og hálfur mánuður.“
„Þetta var rosalegt áfall“
Garðyrkjustöðin varð fyrir þungu höggi árið 2017 þegar Costco kom inn á markaðinn. Salan hrundi en ári síðar var komið jafnvægi aftur á markaðinn. Enn verra áfall varð 22. febrúar 2022 þegar Jarðarberjaland eyðilagðist í aftakaveðri sem gekk yfir Suðurland. Ársframleiðslan var þá um 32 tonn en rúmlega 18 þúsund jarðarberjaplöntur eyðilögðust. „Þetta var rosalegt áfall. Við misstum alveg húsið okkar, það var tvö þúsund fermetrar þá. Það fór alveg. Við vorum nýbúin að græja húsið í mjög gott stand með alveg ágætum búnaði. Ég var búin að stilla ræktuninni eins og ég vildi hafa hana til að hér væri jöfn uppskera allt árið. Þetta fór bara allt saman. Þetta var rosalegt áfall.“
Tryggingar bættu tjónið að hluta en Hólmfríður og Steinar urðu fyrir miklu fjárhagslegu tjóni og ákváðu að hætta rekstri. Mánuði síðar skiptu þau um skoðun.
„Við vorum alveg samtaka í því að hætta en kannski ekki eins samtaka í að hætta við að hætta. Ég held að ég hafi kannski ýtt svolítið meira á að halda áfram. En við urðum sammála um að gera það. Þá settum við allt í gang til að finna sterkara hús sem þolir meira og byrjuðum uppbygginguna aftur.“ Þau rifu gamla húsið og byggðu nýtt 3.600 fm gróðurhús sem þolir meira veðurálag. Með nýjum lömpum og öðrum búnaði ná þau meiri framleiðslugetu. Fyrstu plönturnar voru settar í nýja húsið í desember 2022 og fyrsta uppskera fór á markað í mars 2023. „Fjöldi plantna sem við gróðursetjum yfir árið er svona 95 þúsund plöntur og uppskeran er áætluð sextíu til sextíu og fimm tonn.“ Þau seldu svo Friðheimum Jarðarberjaland nýlega.
Gróðrarstöðvarnar hafa verið að stækka á umliðnum árum en hefur fækkað að sama skapi. Sérhæfing hefur aukist. „Öll sérhæfing er auðvitað til góðs. Það er náttúrlega hagkvæmara að vera með færri tegundir. Vinnan verður léttari.“ Hólmfríður segir að þessi þróun muni halda áfram. „Ég held að þetta sé bara stefnan. Sérhæfingin verði meiri, stöðvarnar stækki og fjölgi vonandi. Ég held að Ísland hafi svo margt að gefa en stjórnvöld verða að stíga betur inn að mínu mati. Það þarf að styrkja nýliðun og uppbyggingu. Þetta snýst um fæðuöryggi.“
Lengra viðtal við Hólmfríði Geirsdóttur og fleiri brautryðjendur í garðyrkju má nálgast á bondi.is