Best í heimi að búa í sveit
Nú kynnast lesendur búskapnum á Lynghóli í Skriðdal en þar er fjölbreytnin í fyrirrúmi. Geta lesendur fylgst með fjölskyldunni á Instagramreikningi Bændablaðsins á næstu dögum.

Býli: Lynghóll í Skriðdal.
Ábúendur: Guðni Þórðarson og Þorbjörg Ásbjörnsdóttir.
Fjölskyldustærð: Mjög teygjanleg, þeir sem eru heima á býlinu erum við tvö og tvær 23 ára dætur okkar.
Stærð jarðar: U.þ.b. 350 ha en svo nytjum við jarðirnar sem eru báðum megin við okkur.
Gerð bús:100 geitur, 350 vetrarfóðraðar kindur, 60 nautgripir á ýmsum aldri. Nokkur hross og hænur. Framleiðsla á afurðum úr geitamjólk, svo sem ostum og skyri.
Hvers vegna veljið þið þessa búgrein?: Fjölbreytnin, hafa ekki öll eggin í sömu körfunni, eins höfum við bara gaman af því að bardúsa við alls konar. Geiturnar hafa átt hug okkar meira en annað undanfarið, vegna þróunar á afurðum sem þær gefa af sér.

Hefðbundinn vinnudagur: Hann getur verið alls konar og sjaldan mjög hefðbundinn, fer mjög mikið eftir árstíma hvað er verið að gera. En almennt er byrjað á að fara í gjafir, kindum og geitum gefið hér heima og nautum í fjósi. Ostagerð er alltaf hluti af dögunum, það þarf að snúa þroskaða ostinum á hverjum degi og svo að gera ost þegar birgðir minnka. Hvað er gert milli verka fer bara eftir hvað liggur fyrir hverju sinni, undanfarið hefur smíði gjafagrinda í fjárhúsið verið aðalverk á milli gjafa og að taka á móti kiðlingum sem hafa hrunið í heiminn undanfarið, svo hefjast bara gegningar aftur að kvöldi.
Skemmtilegustu bústörfin: Sauðburður og geitburður eru í miklu uppáhaldi, alltaf jafngaman að fá að taka á móti öllu þessu nýja lífi og þá er líka alltaf svo mikið fjör í húsunum, þá sérstaklega þegar kiðin eru komin. Það kemur manni alltaf í gott skap að mæta í húsin og sjá kiðlingana og/ eða lömbin vera að leika sér. Smalamennskurnar eru svo alltaf jafnskemmtilegar, að fara um landið og tína saman féð, svo notalegt þegar skjáturnar eru komnar heim aftur.

Hvernig er að búa í dreifbýli?: Best í heimi bara, annars væri maður ekki þar.
Hvað er það jákvæða við að vera bóndi?: Vera sinn eigin herra, ásamt því að umgangast skepnur alla daga, þær gera allt betra í lífinu.
Hverjar eru áskoranirnar?: Óstöðugt umhverfi, erfitt að gera langtíma fjárhagsáætlun því afurðaverð er síbreytilegt ásamt styrkjakerfinu, það er í sama pakka, maður veit sjaldnast almennilega hvað kemur úr pottinum hverju sinni. Verð á aðföngum er líka mjög misjafnt.
Hvernig er hægt að gera búskapinn hagkvæmari?: Ég veit það ekki alveg, þetta er eilíflega eitthvað sem verið er að glíma við, en ef hægt væri að gera langtímaáætlun sem myndi standast þá væri margt auðveldara.
Hvernig sjáið þið landbúnaðinn á Íslandi þróast næstu árin?: Vonandi stígur hann upp með hagkvæmari fjármögnun fyrir þá sem þurfa á henni að halda og afurðaverði sem stendur undir kostnaði.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin: Þegar rétt náðist að koma inn fé í ný fjárhús rétt fokheld, undan öskubyl sem var í uppsiglingu, féð átti að vera þar meðan hann gengi yfir en fór út um vorið, því það fylltist allt af snjó og var ekki hægt að setja út meir. En fegin vorum við að koma öllu inn.