Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fólk að skoða sig um í Hlöðuhelli en hann er tengdur Fjárhelli með göngum. Framan af 20. öld voru hellarnir tveir notaðir, eins og nöfnin benda til, sem hlaða og fjárhús. Árið 1927 voru grafin 10 metra göng milli Hlöðuhellis og Fjárhellis.
Fólk að skoða sig um í Hlöðuhelli en hann er tengdur Fjárhelli með göngum. Framan af 20. öld voru hellarnir tveir notaðir, eins og nöfnin benda til, sem hlaða og fjárhús. Árið 1927 voru grafin 10 metra göng milli Hlöðuhellis og Fjárhellis.
Mynd / Hellarnir við Hellu
Fréttir 3. janúar 2020

Hellarnir við Ægissíðu á Hellu hafa slegið í gegn hjá ferðamönnum

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Manngerðir hellar eru víða á Suðurlandi en þeir hellar sem eru mest í umræðunni um þessar mundir eru hellarnir við Ægissíðu við bæinn Ægissíðu sem stendur við Ytri-Rangá rétt áður en komið er að Hellu. 
 
Hellarnir hafa verið opnaðir almenningi þar sem hægt er að fá skemmtilega og fróðlega leiðsögn um þá. Einnig eru stundum óvæntar uppákomur í hellunum, t.d. tónleikar, sögulestur og fleira í þeim dúr. 
 
Ægissíða hefur um aldir verið vinsæll áningarstaður en staðurinn var m.a. miðstöð vöru- og póstflutninga fyrir sveitina, auk þess sem fyrsta símstöðin á svæðinu var reist á bænum árið 1909. 
 
Margrét Blöndal fjölmiðlakona er markaðsstjóri hellanna við Ægissíðu og Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur ólst upp á bænum. Þau svöruðu nokkrum spurningum um hellana og allt það sem þeir hafa upp á að bjóða.
 
Dularfull og spennandi saga
 
„Saga hellanna er bæði dularfull og spennandi, ekki síst vegna þess að enginn veit með vissu hver gerði þá og hvenær. En sé vitnað í sunnlenskar munnmælasögur, sem sumir rekja til Einars Benediktssonar, þá eru hellarnir verk Kelta sem voru hér fyrir þegar norrænir menn námu land. Okkur finnst spennandi að velta þeim möguleika fyrir okkur því það er margt í hellunum sem bendir til þess að þeir hafi verið bústaðir kristinna manna fyrir langa, langa löngu. Má þar nefna sem dæmi að í Fjóshelli er að finna einstaka krossa, höggna í bergið, sérstakar ristur sem enginn kann skil á og fagurlega höggvin sæti sem augljóslega hafa verið ætluð höfðingjum,“ segir Margrét.
 
Margrét Blöndal og Baldur Þórhallsson sem hafa yfirumsjón með markaðssetningu á hellunum við Ægissíðu við Hellu. Skemmtilegt verkefni sem þau halda vel utan um með sínu fólki. 
 
12 hellar á jörðinni
 
Þegar Margrét er spurð hvernig hellar þetta séu og hvað þeir eru margir kemur fram hjá henni að þetta séu manngerðir móbergshellar og alls er vitað um 200 slíka frá Ölfusi að Vík í Mýrdal. Þeir eru misstórir og flestir á milli Þjórsár og Ytri-Rangár. Elstu heimildir um manngerða hella á Íslandi eru í Jarteinabók Þorláks helga frá 1199 og fyrstu skráðu heimildir um hellana á Ægissíðu eru í þulu sem Guðlaug Stefánsdóttir í Selkoti á að hafa farið með fyrir Vigfús Þórarinsson sýslumann í lok 18. aldar þar sem hún nefnir átján hella á Ægissíðu. 
 
„Nú er vitað um 12 hella á jörðinni og þar af 10 rétt við bæjarhólinn. Þeir bera nöfn eins og Hlöðuhellir, Fjárhellir og Lambahellir, svo einhverjir séu nefndir, og heiti þeirra vísa til þess hvernig þeir voru nýttir á síðari öldum. Fjóshellir var þó ekki fjós heldur hlaða og úr honum voru göng upp í fjósið sem stóð uppi á bæjarhólnum.  Einn hellanna, Kirkjuhellir, dregur nafn sitt af því að í honum er fagurlega höggvin hvelfing sem minnir helst á kirkjuhvelfingu. Því miður er ekki óhætt að fara inn í hann í dag en það stendur til bóta,“ segir Margrét.
 
Geymslur fyrir saft, sultur og jarðávexti
 
Baldur segir að hellarnir hafi aðallega verið notaðir fyrir búfénað, hey og matvæli og einn þeirra, Skagahellir, var notaður sem íshús eða frystigeymsla á þriðja áratug 20. aldar. 
 
„Þá var refabú á Ægissíðu og hellirinn notaður til að geyma fóður fyrir refina, aðallega kjöt og svo að það skemmdist ekki var hafður ís í hellinum. Og það var þekkt víðar að nota hella sem íshús, þá var snjó mokað ofan í þá að vetri og matvælin geymd í snjónum. Allt þar til nýlega voru hellarnir geymslur fyrir saft og sultur og jarðávexti sem voru ræktaðir á bænum. Hellarnir voru öldum saman nýttir af bændum á Suðurlandi og gríðarleg búbót og spöruðu bændum kostnaðarsamar húsbyggingar,“ segir Baldur.
 
Gamall draumur að rætast
 
Baldur er spurður að því hvað varð til þess að fólkið á Ægissíðu fór að grafa hellana út og koma þeim í „umferð“ aftur? „Já, það hefur lengi verið draumur minn að standsetja hellana og gera þá aðgengilega á ný. „Það vill svo skemmtilega til að það var einmitt Margrét sem kom að máli við mig og spurði hvort við ættum ekki að fjalla um hellana þegar hún var að vinna að sjónvarpsþáttunum Að sunnan á N4.“  Margrét kemur þá hér inn í spjallið: 
 
„Baldur fór með mig og Sighvat Jónsson, sem vann þessa þætti með mér, í Fjóshelli og það má segja að ég hafi heillast upp úr skónum á svipstundu. Það er magnað að koma þarna inn og það fyrsta sem mér datt í hug var að við yrðum að fá manninn minn til að búa til einhvers konar tónleika í þessum helli. Annaðhvort með kór eða hljómsveit eða bara bæði. Hellirinn minnir mest á samkomusal eða einhvers konar félagsheimili og hrifningin minnkaði ekki þegar Baldur fór svo að segja sögu hellanna, enda er hún ævintýralega spennandi og beið þess að verða sögð sem flestum.“ 
 
Afi Baldurs sýndi gestum hellana
 
Baldur ólst upp við hellana og skottaðist þar um með afa sínum. Hvaða minningar koma fyrst upp í hugann þegar hellarnir eru nefndir í hans eyru? 
 
„Já, þetta er rétt, ég var mikið með afa í hellunum því mikill fjöldi ferðamanna kom að skoða hellana á hverju sumri meðan afi gat haldið hellunum við. Hann var iðinn við að sýna gestum hellana og ég var oft með enda drakk ég í mig sögur hans um landnámið fyrir landnám þegar Keltar byggðu Suðurland áður en norrænir menn numu land. Afi fór gjarnan með ferðamenn í alla hellana við bæjarhólinn og gaf sér góðan tíma til að sannfæra alla gesti um sannleiksgildi sögunnar. Það var ekki efi í nokkru hjarta um tilburð hellanna þegar hann kvaddi á bæjarhlaðinu,“ segir Baldur.
 
Útlenskt góðgæti í laun
 
Þegar Baldur var beðinn um að rifja upp einhverja skemmtilega sögu eða sögur úr hellunum, sem hann er til í að deila með lesendum blaðsins, kom hann með þessa sögu: 
 
„Við krakkarnir á bænum hófum snemma að sýna gestum hellana þegar afi komst ekki frá vegna anna við búskapinn. Ég held að ég hafi ekki verið nema um 5 eða 6 ára þegar ég hóf að sýna Íslendingum sem og útlendingum hellana. Ég fór einfaldlega sama rúntinn og afi, sagði sömu sögurnar á íslensku að sjálfsögðu eins og hann og allir skildu. Þetta var þónokkur útgerð hjá okkur krökkunum á sumrin og oft viku útlendingar að okkur aur og nokkru magni af útlensku góðgæti.“ 
 
Séð inn í Fjóshelli, sem er ásamt Hlöðuhelli meðal stærstu manngerðu hella sem vitað er um á Íslandi. Hellirinn var ekki notaður sem fjós eins og nafn hans bendir til heldur var hann notaður sem hlaða fyrir fjósið á Ægissíðu fram til ársins 1975. 
 
Fjölbreyttir viðburðir í hellunum
 
Ýmsar skemmtilegar uppákomur hafa verið haldnar í hellunum, sem vekja alltaf mikla athygli, og góð aðsókn. 
 
„Já, okkur langar til að miðla sögu hellanna á margvíslegan hátt. Bæði með hefðbundnum skoðunarferðum og líka með því að efna til alls konar viðburða, fyrir börn og fullorðna. Við fögnuðum vetri fyrsta vetrardag og fengum Karlakór Hreppamanna, Guðrúnu Gunnarsdóttur, Aðalheiði Þorsteinsdóttur og Bjarna Harðar­son til liðs við okkur það kvöld og það gekk allt ljómandi vel,“ segir Margrét og bætir við: 
 
Sönghópurinn Öðlingar í Rangárvallasýslu hefur margoft sungið í hellunum við ýmis tækifæri, undir stjórn Guðjóns Halldórs Óskarssonar. Strákarnir segja hljóminn góðan í hellunum og alltaf jafn gaman að syngja þar. Mynd / MHH
 
„Hlöðuhellir hefur meiri hljóm en Fjóshellir en báðir henta vel fyrir alls konar uppákomur. Við höfum líka verið með rannsóknarleiðangra og jólaævintýraferðir fyrir börn og á nýja árinu verða alls kyns tónleikar, draugasögukvöld og svo mætti lengi telja. Við verðum líka með jólaferðir í hellana um hátíðirnar og sú leiðsögn verður á ensku og einkum ætluð erlendum gestum sem ekki þekkja Grýlu og hennar lið.“ 
 
Fjölskylduverkefni númer eitt, tvö og þrjú
 
– En hvað með kostnaðinn við að gera hellana upp, er það ekki dýrt dæmi? 
„Hellaverkefnið er fjölskylduverkefni, þar sem allir leggjast á eitt að standsetja og gera hellana aðgengilega. Öll þessi vinna er unnin í nánu samstarfi við Minjavernd og ekki síst Ugga Ævarsson, Minjavörð Suðurlands, sem hefur reynst okkur einstaklega vel. Og jú þetta er dýrt og við höfum fengið styrki bæði frá Minjavernd og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. „Svo megum við til með að nefna heimafólkið okkar, íbúa á Hellu og nærsveitunga. Það er alveg sama við hvern við tölum, allir eru boðnir og búnir að leggja okkur lið með ýmsum hætti og það er ómetanlegt,“ skýtur Margrét inn í.
 
 Allir heillast af hellunum
 
– Þá er tilvalið að spyrja út í upplifun fólks sem fer í hellana, hvernig er hún?
„Við höfum ekki enn hitt þann ferðamann, íslenskan eða útlendan, sem ekki heillast af hellunum. Þeir eru svo óvenjulegir og það er ekki hægt að ímynda sér hvað bíður þegar maður fer inn í fyrsta hellinn, og svo þegar sögurnar bætast við verður þetta einstök upplifun og ólíkt öllu öðru,“ segir Margrét. 
 
Hafa staðist alla jarðskjálfta
 
– Jarðskjálftar af ýmsum stærðum og gerðum hafa verið á Suðurlandi í gegnum aldirnar. Hvernig hafa þeir farið með hellana við Ægissíðu?
„Það er stórmerkilegt að allir þessir tólf hellar á Ægissíðu hafa staðið af sér Suðurlandsskjálfta í gegnum aldirnar. Móbergið gefur sig ekki svo glatt. Það er helst að hlaðna forskála og strompa þurfi að endurbæta eftir jarðhræringar og veðrun. Sunnlenska rigningin bítur meira á hleðslurnar en skjálftarnir,“ segir Baldur og hlær.
 
Fjölmörg ævintýri fram undan
 
– Að lokum eru Margrét og Baldur spurð út í framtíð hellaverkefnisins, hvert þau stefna með verkefnið. 
„Já, þú segir nokkuð, það eru ýmis ævintýri fram undan og margar hugmyndir á lofti og nú erum við að vinna að því að kynna hellana. Við viljum vanda okkur í hverju skrefi og vonum að sem flestir eigi eftir að koma og uppgötva þessa leyndardóma. Við höfum þegar gert fjóra hella aðgengilega fyrir gesti og gangandi og meðal þeirra eru tveir stærstu og glæsilegustu hellarnir. Sé litið til lengri tíma þá liggur fyrir að sækja um fjármagn til að endurbæta þrjá hella til viðbótar; Kirkjuhelli, Brunnhelli og Hrútshelli, sem allir hafa sína sögu að segja. Þar þarf að endurhlaða forskála og byggja upp strompa,“ segir Baldur og Margrét biður um lokaorðin: „Við tökum fagnandi á móti hópum sem vilja koma í heimsókn og það er hægt að hafa samband við okkur t.d á síðunni „Hellarnir við Hellu“ á Facebook og panta ferð þar með leiðsögn og einnig með því að fara á heimasíðuna okkar, www.cavesofhella.is.