Leikfélag Mosfellssveitar sýnir Stúart litla
Leikfélag Mosfellssveitar var sett á laggirnar síðla árs 1976 og hefur síðan þá verið virkur þáttur í menningarlífi bæjarins – enda hafa yfirleitt verið settar upp tvær veglegar sýningar árlega í bæjarleikhúsinu sem eru afar vel sóttar.
Að auki taka meðlimir gjarnan þátt í þeim fjölda uppákoma og menningarviðburða er Mosfellsbær stendur fyrir og árlega er unnið að sameiginlegri dagskrá og sýningum þeirra aðila er starfa undir merkjum Listaskóla Mosfellsbæjar, en einnig er leiklistarskóli starfræktur fyrir börn og unglinga að sumarlagi.
Nú á dögunum frumsýndi Leikfélag Mosfellssveitar fjölskyldusöngleikinn Stúart litla en flestir ættu að kannast við söguna um músina litlu sem hefur heillað svo marga. Verkið er byggt á samnefndri bók og kvikmynd, en það fjallar um fjölskyldu sem tekur að sér litla mús. Ekki eru allir heimilismeðlimir jafn ánægðir með þá ákvörðun að bjóða hann velkominn í fjölskylduna og tekst Stúart á við ýmiss konar áskoranir og ævintýri.
Listrænir stjórnendur sýningarinnar eru feðginin Elísabet Skagfjörð, sem leikstýrir og Valgeir Skagfjörð, sem semur alla tónlist í sýningunni. Sýnt er alla sunnudaga í nóvember og desember kl 16:00 í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ. Miðapantanir í síma 566 7788.