Ábúendatal jarða rakið aftur á landnámsöld
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Út er komið verkið Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár, Jarða- og ábúendatal. Frá elstu heimildum til ársloka 2000. Höfundur er Stefán Aðalsteinsson. Sögufélag Eyfirðinga gefur út.
Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár er sex binda verk, 2.377 blaðsíður, þar af eru mannanafnaskrá og afskaplega fróðleg grein ritstjórans, Birgis Þórðarsonar, um hreppa, tæpar 240 blaðsíður. Skrána unnu Jóhann Ólafur Halldórsson og Katrín Úlfarsdóttir.
Sögufélagið tók stórvirki Stefáns að sér
Útgáfan á sér langan aðdraganda. Stefán hóf að leggja drög að verkinu um 1950 en varð bráðkvaddur í janúar 1975 og átti enn töluvert í land með að leggja lokahönd á ábúendatalið. Síðla árs 2002 tók Sögufélagið að sér stórvirki Stefáns, skipaði ritnefnd sem næstu árin vann að því hörðum höndum að búa Eyfirðinga til prentunar. Birgir Þórðarson á Öngulsstöðum var í formennsku nefndarinnar og hafði sér til fulltingis Kristján Sigfússon á Ytra-Hóli, Bernharð Haraldsson og Hauk Ágústsson en þeir tveir höfðu þá nýlega hætt störfum við Verkmenntaskólann á Akureyri, Bernharð sem skólameistari en Haukur sem kennslustjóri í fjarkennslu.
Það má með sanni segja að Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár sé sérstætt verk, jafnvel einstakt í sinni röð. Rakið er ábúendatal jarða aftur á landnámsöld, slitrótt reyndar og ekki allra, en nokkuð samfellt frá 1703.
En Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár er ekki þurr upptalning nafna og ártala, því fer fjarri. Víða segir Stefán sögur af ábúendum – jafnvel kjaftasögur – hann er stundum hikandi við að birta lýsingar presta á sóknarbörnum og veltir fyrir sér fjöllyndi eyfirskra bænda.