Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Þrír góðir, frá vinstri, Ísólfur Gylfi Pálmason, fyrrverandi sveitarstjóri Hrunamannahrepps, Ragnar Magnússon, fyrrverandi oddviti og Jón G. Valgeirsson, núverandi sveitarstjóri.
Þrír góðir, frá vinstri, Ísólfur Gylfi Pálmason, fyrrverandi sveitarstjóri Hrunamannahrepps, Ragnar Magnússon, fyrrverandi oddviti og Jón G. Valgeirsson, núverandi sveitarstjóri.
Mynd / MHH
Líf og starf 24. apríl 2019

Ferðaþjónustan, menningin, íþróttirnar, skólarnir og landbúnaðurinn blómstra í „Gullhreppnum“

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hrunamannahreppur, eða „Gullhreppurinn“ sem sumir nefna svo, er í uppsveitum Árnessýslu sem liggur austan Hvítár. Flúðir er þéttbýlisstaður sveitarfélagsins. 

Mikill jarðhiti er í sveitarfélaginu, öflugur landbúnaður og garðyrkja, ekki síst ylrækt er stór partur af atvinnulífi sveitarfélagsins. Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri settist niður með blaðamanni þar sem farið var yfir helstu tíðindi í hreppnum.

Ylrækt er mjög mikilvæg og stór atvinnugrein í Hrunamannahreppi enda mikið af heitu vatni á svæðinu.

Fólk að jafna sig eftir hjónaballið

„Fólkið  í sveitinni er aðallega að jafna sig eftir árlegt Hjónaball sem er spéspegill sveitarinnar þar sem síðasta ár er gert upp á ýmsan hátt.  Þessi hátíð er orðin um 76 ára gömul hefð og núna síðustu tvö ár hefur hún verið haldin í íþróttahúsinu á Flúðum en fjöldinn hafði sprengt af sér Félagsheimilið.  Þetta er orðin 350 manna viðburður og við búumst við að frekar fjölgi en hitt,“ segir Jón aðspurður hvað sé helst að frétta. 

Þegar hann er beðinn um að fara yfir helstu framkvæmdir í Hrunamannahreppi segir hann að nú sé verið að undirbúa verkefni ársins og síðan eru  ýmis fyrirtæki að huga að sínum málum. Veturinn hefur verið nokkuð góður til framkvæmda og hefur lítið þurft að stoppa vegna klaka í jörðu eða slíkt. 

„Annars er stærsta verkefni sveitarfélagsins, sem er á lokametrunum, ljósleiðaravæðing í dreifbýlinu. Sveitarfélagið stofnaði fjarskiptafyrirtækið Hrunaljós um verkefnið og hefur þetta gengið vel og hefur m.a. gott tíðarfar í vetur hjálpað til að lítið er orðið eftir.  Síðan hafa notendur verið að tínast inn en eðlilega tekur tíma að gera og græja til að geta tengst. Við viljum meina að þetta sé bylting á möguleikum til búsetu og atvinnusköpunar í dreifbýlinu og grundvöllur fyrir því að sveitarfélagið geti talist góður búsetukostur,“ segir Jón.

12 ára sveitarstjóraafmæli

Jón átti 12 ára sveitarstjóraafmæli 1. mars síðastliðinn. „Ég var sveitarstjóri fyrstu 3 árin í Grímsnes- og Grafningshreppi en síðan sumarið 2010 hef ég verðið sveitarstjóri hér. Þetta er því orðinn drjúgur tími og stór hluti af starfsævinni.  Þetta hefur hingað til verið skemmtilegur tími og vettvangur til að hafa áhrif á þessi samfélög og reyndar á Suðurlandið allt að einhverju leyti því sveitarfélögin á Suðurlandi vinna þétt saman að ýmsum sameiginlegum verkefnum. Það góða við þetta starf er að ef upp koma góðar hugmyndir, sama frá hverjum það er, þá er oft hægt að hrinda þeim í framkvæmd og það á bæði við stór og smá mál. Maður vill skilja við starfið þannig að maður sjái að eitthvað gott hafi gerst sem er samfélaginu til framdráttar.“

Frá Þverspyrnu í Hrunamannahreppi

Jón er er fæddur og uppalinn í Þverspyrnu í Hrunamannahreppi, þannig að hann er kominn heim, þótt hann búi á Flúðum. Hann er því uppalinn með sveitarstörfunum og skólagangan byrjaði í Flúðaskóla þótt skólastarfið sé nú ansi mikið breytt frá því að hann gekk í skólann og flest til batnaðar. Jón fór síðan í Menntaskólann að Laugarvatni (ML) og árið eftir að hann útskrifaðist þar þá plataði Kristinn Kristmundsson skólameistari hann til að kenna í ML, sem Jón segir að hafi verið afar áhugavert verkefni fyrir nýútskrifaðan peyja. Síðan fór Jón í lagadeild Háskóla Íslands og eftir útskrift byrjaði hann að vinna hjá Lögmönnum Suðurlands á Selfossi og var þar í tvö ár þar til hann stofnaði, ásamt þeim félögum Lögmenn Vestmannaeyja. „Ég flutti til Eyja og þar rak ég lögmannsstofu og fasteignasölu í 11 ár þar til við seldum stofuna 2007 og ég flutti í Grímsnesið góða. Það stóð einmitt heima að á sama tíma varð maður einmitt hæstaréttarlögmaður þannig að maður hætti þeirri „vitleysu“ í bili og sneri sér að öðru. Maður er því búinn að flækjast um, búa í Reykjavík, Selfossi, Vestmannaeyjum, Borg og síðan núna aftur í Hreppnum þannig að konan og börnin tvö hafa verið á þessum flækingi með mér,“ segir Jón hlæjandi.

Vinsæll ferðamannastaður

Hrunamannahreppur er mjög vinsæll ferðamannastaður, ekki síst svæðið á Flúðum og þar í kring. Hvernig skýrir Jón út þessar vinsældir sveitarfélagsins? „Það hefur svo sem alltaf verið drjúgur ferðamannastraumur en það er tvennt sem hefur breytt ferðamannamynstrinu hér. Fyrst var þegar Hvítárbrúin kom við Bræðratungu og tengdi Tungurnar við Hrunamannahrepp og síðan þegar Gamla laugin, eða „Secret lagoon“, komst í starfsemi sem sprenging varð í fjölda ferðamanna.  

Þetta tengist að vissu leyti beint eða óbeint heita vatninu og nýtingu á því því Flúðir urðu til út af heita vatninu og garðyrkjan o.fl. hafa notið góðs af. Síðan er ýmislegt, fyrir utan fallega náttúru og gróðursæld, sem spilar inn í, svo gott tjaldsvæði, fjölbreyttir gistimöguleikar, golfvöllur o.fl. sem er á svæðinu. Þá erum í þægilegri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og Gullna hringnum sem stjórnar svolítið renniríinu á Íslandi.“

Um 800 íbúar

Íbúafjöldinn hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin ár í Hrunamannahreppi, eða um 800 manns. Jón segir að það sé sama vandamál í hans sveitarfélagi og víða annars staðar, það er skortur á húsnæði, og þá sérstaklega leiguhúsnæði. „Það er reyndar margt í pípunum á þessu ári þannig að vonandi losar það um einhverja hnúta. Hins vegar er atvinnuleysi lítið sem ekki neitt en hins vegar þyrfti atvinnulífið að vera fjölbreyttara en hins vegar má segja að Uppsveitir og Suðurland að hluta séu nú samt eitt atvinnusvæði, sem hjálpar til.“

Garðyrkjan mikilvæg

Nú berst tal okkar Jóns að garðyrkjunni í Hrunamannahreppi og mikilvægi hennar fyrir sveitarfélagið. „ Já, garðyrkja er mjög stór og mikilvæg atvinnugrein hjá okkur en það hafa svo sem verið blikur á lofti, og sérstaklega höfðu svokölluð Costco-áhrif talsverð áhrif á ýmsa. Þá hafa sýkingar í plöntum ekki hjálpað til en flestar stöðvarnar eru býsna stórar þannig að í heildina séð stendur greinin bærilega. Hins vegar er ljóst að ýmsar ógnir eru, svo sem keppni við innflutning og síðan óvissa hvað kemur út úr kjarasamningum þar sem þessi grein er frekar mannaflafrek og er að keppa við framleiðendur úti í heimi þar sem því miður er ekki verið að bjóða starfsfólki kjör eða aðstæður eins og hér á Íslandi.“

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps og Halldóra Hjörleifsdóttir oddviti sem vinna mikið saman að málefnum sveitarfélagsins.

150 þúsund ferðamenn í Gömlu lauginni

„Ferðaþjónustan hefur verið mjög vaxandi í sveitarfélaginu og ferðamönnum fjölgað mikið. Jón er ánægður með það. „Já, já, Gamla laugin hefur slegið í gegn og eflaust heimsækja hana um 150 þús. manns á ári og bæði það og almenn fjölgun á ferðamönnum hefur haft jákvæð áhrif á möguleika að spila úr þessu. Sérstaklega hefur orðið mikil fjölgun á gistirýmum og það er m.a. ánægjulegt að sjá, það á ekki síður við í dreifbýlinu sem hefur styrkt búsetu og nýliðaskipti á bæjunum. Það er síðan töluvert í pípunum hvað þetta varðar.“

Gatna- og fráveituframkvæmdir

„Stærstu verkefni sem snúa beint að sveitarfélaginu eru gatna- og fráveituframkvæmdir á Flúðum.  Við höfum síðustu ár reynt að vera í stöðugu átaki að koma gatnakerfinu í gott horf og núna erum við að taka í notkun nýja hreinsistöð sem þjónar austurhluta Flúða. 

Þetta eru dýrar framkvæmdir en nauðsynlegar en planið hjá okkur er að leysa fráveituvandann með nokkrum hreinsistöðvum á hentugum stöðum,“ segir Jón aðspurður um stærstu verkefni Hrunamannahrepps um þessar mundir. 

Það kom einnig fram hjá honum að það er verið að byggja aðstöðuhús á „Seyrustöðum“ á Flúðum vegna vinnslu á seyru í samstarfi sveitarfélaga sem er mjög stórt verkefni og síðan er sveitarfélagið í massífum viðhaldsframkvæmdum á nokkru af húsnæði hreppsins eins og Flúðaskóla, félagsheimilinu og sundlauginni.

Íþrótta- og menningarlíf blómstrar

Jón segist vera mjög stoltur af íþrótta- og menningarlífinu í Hrunamannahreppi, sem blómstrar sem aldrei fyrr um þessar mundir. 

„Það hefur verið löng hefð fyrir kórastarfi og mörg félög með mjög öfluga starfsemi í gangi. Við búum svo vel að félagsheimilið okkar gegnir hlutverki menningarhúss sem er í stöðugri notkun til að mæta þessum þörfum. Síðan er aðstaðan í íþróttahúsinu á Flúðum eftir stækkun 2015 ein sú besta á landinu og það má segja að flest börn séu í einhverri hreyfingu, auk íbúa ungra sem gamalla sér til heilsubótar. Þá hefur verið reynt að halda úti afreksstarfi með öðrum félögum á Suðurlandi og hefur körfuboltinn komið þar sterkur inn og núna eru t.d. 4 unglingar í unglingalandsliðum KKÍ þetta árið,“ segir Jón.

Seyra til landgræðslu

Hrunamannahreppur hefur sýnt frumkvæði í svokölluðu seyruverkefni sveitarfélaganna í uppsveitunum. Jón þekkir það mál mjög vel. 

„Byrjun á verkefninu var að 2012 tókum við „blauta“ seyru og plægðum hana niður á landgræðslusvæði á Hrunamannaafrétti. Síðan var verkefnið tekið lengra á árinu 2015 þegar sveitarfélögin í Uppsveitum Árnessýslu og Flóa komu inn í verkefnið og keyptur var kalkari til að geta dreift seyrunni á yfirborðið. Síðan hefur verkefnið verið tekið enn lengra, keypt hreinsibifreið og verið að byggja yfir aðstöðuna á Flúðum og þá hefur Ásahreppur verið tekinn í samstarfið.  Tilgangurinn er að afsetja „áburð“ sem áður var urðaður og auk þess hefur góð landgræðsluáhrif en þess ber að geta að verkefnið fékk landgræðsluverðlaun Land-græðslunnar í fyrra en verkefnið hefur verið unnið í nánu sambandi við Landgræðslu og Heilbrigðis-eftirlitið,“ segir Jón, afar stoltur með verkefnið.

Gott og öflugt skólastarf

„Við búum við öfluga skóla og gott skólastarf og aðstöðu en í Flúðaskóla eru núna 100 nemendur, að vísu eru elstu þrír árgangarnir hjá Skeiða- og Gnúpverjahreppi hjá okkur. Í leikskólanum eru um 45 nemendur núna. Þess ber að geta að vel hefur gengið að manna þessa skóla og t.d. í Flúðaskóla eru allar stöður mannaðar af menntuðum kennurum. Við njótum þess líka í skólastarfinu að vegna nálægðar við skóg og annað skemmtilegt umhverfi er hægt að vera með öfluga útikennslu o.fl. því tengdu,“ segir Jón þegar hann var spurður út í skólastarf grunnskólans. Þá kom fram hjá honum að í leikskólanum Undralandi er það nýmæli að elsti árgangurinn er gjaldfrjáls og stefnan er að færa gjaldfrelsið niður á hverju ári þar til hann er alfarið gjaldfrjáls ef fjárhagurinn lofar.

Ný fjós byggð og byggð

Landbúnaður í Hrunamannahreppi er eitt af stolti sveitarfélagsins enda mjög öflugur hefðbundinn landbúnaður í sveitarfélaginu. Víða er verið að byggja ný fjós og framleiðsla hefur aukist til muna. Mjaltaþjónavæðingin er einnig á fullu og eins og staðan er núna væri hægt að framleiða meiri mjólk en gert er.

„Sauðfjárbúskapur er erfiðari eins og alls staðar en stendur hér á gömlum merg og það er alltaf seigt í fjárbændum. Það þarf hins vegar að hlúa að þessari atvinnugrein til að viðhalda þessari atvinnugrein og „menningu“, segir sveitar-stjórinn.

Beðið eftir lagasetningu,varðandi sameiningu

Þegar Jón er spurður út í sameiningarmál og hvort Hrunamannahreppur sé að horfa í einhverja sérstaka átt þar kemur fram hjá honum að það sé ekkert stórt í gangi í þeim málaflokki enda flestir að bíða eftir því hvort það komi ekki lagasetning frá Alþingi sem heggur á þennan hnút.

„Persónulega held ég að það ætti að skoða alvarlega með sameiningu sveitarfélaga, sérstaklega til að geta verið með enn öflugri hagsmunagæslu gagnvart ríkisvaldinu og höfuðborgarsvæðinu. „Innansveitarstreita“ í þessu sambandi er farin að vigta svo lítið í samanburði við stóru málin og stóru hagsmunina sem samfélögin hér eru sameiginlega að glíma við,“ segir Jón.

Tveir ráðherrar í Hrunamannahreppi

Hrunamannahreppur á tvo ráðherra í sveitarfélaginu, Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra og svo sérstakan ruslamálaráðherra, Elvar Harðarson.

„Já, það er ánægjulegt að það sé samhengi í því að þeim er treyst fyrir að stjórna og að Hrunamannahreppi sé jafnframt treyst fyrir því að stjórna landinu, við erum því stolt af okkar manni, Sigurði Inga Jóhannssyni. Við bíðum hins vegar eftir því að hann hætti sem ráðherra þannig að við getum skipað hann ruslamálaráðherra og ég veit að Elvari, sem við erum búin að skipa ruslamálaráðherra fyrir árið 2019, er boðið á Bessastaði á ríkisráðsfund,“ segir Jón hlæjandi. 

Til útskýringar er ruslamálaráðherra skipaður á hverju ári í sveitarfélaginu til að hafa yfirumsjón með ruslahreinsun íbúanna á vorin þar sem sjálfboðaliðar taka til hendinni.

Sorp er „týndi“ málaflokkurinn

Jón er formaður stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands en það hefur mikið gengið á í sorpmálum á Suðurlandi eftir að Sorpa ákvað að hætta að taka sorp frá landshlutunum. 

„Það er flókin staða eftir að Sorpa lokaði fyrir móttöku á úrgangi. Sveitarfélögin á Suðurlandi eru á fullu í þessum málaflokki og það má segja að það góða við þetta sé að þá átta menn sig betur á hvað þessi „týndi“ málaflokkur skiptir okkur öll máli. Það er svo sem búið að finna bráðabirgðalausnir en nú hafa öll sveitarfélögin tekið upp lífræna flokkun og verið er að vinna í að setja flokkunarskyldu á fyrirtæki og frístundaeigendur. 

Ég hvet alla bændur að taka málið til sín, hugsa þessi mál frá upphafi til enda þannig að menn flokki allt í drasl.“ segir Jón.

Besta blað landsins

Þegar Jóni var gefinn kostur á að koma með lokaorð stóð ekki á svarinu. 

„Ég vil hrósa Bændablaðinu fyrir að vera besta blað landsins enda ber útgáfa þess vott um mikinn metnað.“ 

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...