Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Mörg spennandi verkefni fram undan
Mynd / Jón Jónsson
Líf og starf 4. febrúar 2019

Mörg spennandi verkefni fram undan

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það eru mörg spennandi verk­efni í farvatninu hjá okkur,“ segir Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð. Hann telur að komandi ár verði mikilvæg og áhugaverð fyrir byggðalagið. Ekki sé ólíklegt að samstarf sveitar­félaga á svæðinu muni aukast, hvort sem um verði að ræða formlegar sameiningar eða aukið samstarf. Mannlíf í Strandabyggð er gott, fjölbreytni mikil og þar vantar fólk til starfa.
 
Íbúar í Strandabyggð eru hátt í 500 talsins, staðsetning sveitarfélagsins er nokkurn veginn miðja vegu á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, en sveitarfélagið samanstendur af þéttbýliskjarnanum Hólmavík og sveitunum þar í kring. „Strandabyggð er fyrst og fremst þjónustukjarni þar sem boðið er upp á hátt þjónustustig,“ segir Þorgeir, en meðal þess sem finna má í sveitarfélaginu er Heilsugæsla, Vegagerð, Orkubúið, Kaupfélagið, Sparisjóðurinn, Pósturinn, Sýslumaðurinn, Lögreglan, slökkvilið, björgunarsveitin Dagrenning, Íþróttamiðstöð, grunn-, og leikskóli auk tónlistarskóla.  Ferðaþjónusta er rekin í sveitarfélaginu, m.a. hótel, gistiheimili og veitingastaðir, en einnig er þar útgerðarfélag, öflugur landbúnaður og matvælaframleiðsla bæði er varðar landbúnaðarvörur og sjávarafurðir. Einnig er í sveitarfélaginu öflug menningarstarfsemi, leikfélag starfandi, tveir kórar og söfn svo eitthvað sé nefnt.
Fólk vantar til starfa á Ströndum en vandinn er sá að sögn Þorgeirs að meira mætti vera til af lausu húsnæði á staðnum líkt og gildir víða á landsbyggðinni. „Engu að síður eru nokkur hús til sölu hér,“ segir Þorgeir.
 
Veitt í höfninni á Hólmavík.
 
Skoða möguleika á hitaveitu
 
Þorgeir segir að verið sé að skoða möguleika á uppbyggingu hitaveitu í sveitarfélaginu með því að leiða vatn úr Hveravík í Kaldrananeshreppi yfir til Hólmavíkur. „Fram undan er álagsprófun á holu sem þar er og eftir að því er lokið vitum við hvort þarna er nægilegt vatn fyrir hitaveitu. Það er ekki spurning að það myndi breyta miklu fyrir okkur og auka lífsgæðin verulega, sem þó eru mikil fyrir,“ segir Þorgeir.
 
Annað verkefni sem verið er að ýta úr vör er viðamikið umhverfis- og hreinsunarátak, þar sem tekin verða fyrir viss svæði í þorpinu og dreifbýlinu og þau markvisst hreinsuð. „Það hefur um árin safnast töluvert saman af bílum, dekkjum, vélum og öðru sem öllum er til ama en nú ætlum við að ráðast í heilmikið hreinsunarátak í samstarfi við íbúana og atvinnurekendur á staðnum.“
 
Þorgeir segir staðsetningu Hólmavíkur góða með tilliti til ferðaþjónustu, einkum hafsækinnar ferðaþjónustu. Undanfarin ár hafi hvalaskoðun verið rekin frá Hólmavík, af fyrirtækinu Láki Tours frá Grundarfirði og hafi það gefist sérlega vel. „Steingrímsfjörður hefur verið iðandi af hval dag eftir dag undanfarin ár. Það má segja að Strandabyggð sé hið raunverulega anddyri að Hornströndum og því kjörinn staður til að leggja upp frá í ferðir norður á Strandir og á Hornstrandir,“ segir Þorgeir.
 
Aukin verðmæti á hvern íbúa áhugavert markmið
 
Viðfangsefni sveitarfélags á borð við Strandabyggð segir Þorgeir vera endalaus, alltaf sé eitthvað við að fást og engir tveir dagar eins. Fjölbreytileikinn sé einkennandi fyrir daglega lífið. „Svona lítil sveitarfélög hafa oft og tíðum sams konar markmið; að auka útsvarstekjur svo hægt sé að fara í frekari framkvæmdir og uppbyggingu, laða að nýtt fólk og fjölskyldur og efla og styrkja á þann hátt mannlífið. En við getum líka séð fyrir okkur markmið sem lúta að því einfaldlega að viðhalda því sem við höfum og skapa aukin verðmæti. Það er ekki allt fengið með fjöldanum og aukin verðmæti á hvern íbúa er áhugavert markmið,“ segir Þorgeir og bendir á að á Hólmavík sé rækjuvinnsla, útgerðarfyfirtæki, landbúnaður sé í sveitarfélaginu og innan þessara atvinnugreina gætu legið tækifæri til frekari verðmætasköpunar.
 
Fylgjast með nágrannasveitarfélögum
 
Þorgeir nefnir að næstu þrjú ár verði áhugaverð og mikilvæg fyrir Strandabyggð. Í Árneshreppi sem liggur að Strandabyggð eru virkjunarframkvæmdir í undirbúningi og í öðru nærliggjandi sveitarfélagi, Reykhólahreppi, er vindmyllugarður til skoðunar og gangi þær framkvæmdir eftir munu þær skapa heilmikil tækifæri til sóknar sem einnig ná inn í Strandabyggð. „Við fylgjumst með þessum undirbúningi og metum hvaða tækifæri geta falist í þessum framkvæmdum fyrir okkur. Strandabyggð er mikilvægur þjónustukjarni fyrir svæðið og öll uppbygging í kringum okkur skapar tækifæri,“ segir Þorgeir.
 
Samstarf mun aukast
 
Samstarf sveitarfélaga mun að hans mati aukast á komandi árum, hvort heldur er undir formerkjum sameiningar eða með öðrum hætti. „Við hér í Strandabyggð erum staðráðin í að gera okkar samfélag enn betra, fjölskylduvænna og skemmtilegra. Um það snúast öll okkar verkefni, sama hversu stór þau eru. Vissulega er staðan sú að við megum við litlu þegar að því kemur að halda atvinnu og fólki í sveitarfélaginu, það vitum við. Nýtt ár kallar því á enn frekari samstöðu um að viðhalda þeirri stöðu sem nú er uppi og berjast fyrir því sem við höfum,“ segir Þorgeir. 

Skylt efni: Strandabyggð

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...