Rekur glæsihótel ásamt stórfjölskyldunni á uppeldisslóðum Ara fróða
Geysir í Haukadal er einn af allra, allra vinsælustu ferðamannastöðum landsins enda umsvifin í ferðaþjónustu á staðnum mikil og alltaf verið að bæta í í því sambandi. Nýjasta byggingin á svæðinu var tekin í notkun síðasta sumar en það er glæsilegt hótel með 77 herbergjum, þar af 6 svítum. Öll herbergin eru með fallegu útsýni yfir sveitina. Þar er áhersla líka lögð á að nota afurðir beint frá bónda.
Elín Svafa Thoroddsen er ein af Geysisfjölskyldunni og settist hún niður með blaðamanni til að fara yfir sögu svæðisins, stöðuna í dag og framtíðina. Elín er kona Sigurðar Mássonar frá Geysi en hann er sonur þeirra Sigríðar Vilhjálmsdóttur og Más Sigurðssonar, sonar Sigurðar glímukóngs Íslands, sem var frumkvöðull í uppbyggingu ferðaþjónustu í Haukadal. Þau eiga fjórar dætur en þær eru: Sara Jasmín, 18 ára, Saga Natalía, 8 ára, Emelía Ísold, 5 ára og Antonía Elín, 4 ára.
Elín Svafa Thoroddsen og fjórar dætur þeirra Sigurðar, þær Sara Jasmín, Saga Natalía, Emelía Ísfold og Antonía Elín. Mynd / Eyjólfur Már Thoroddsen
Með embættispróf í lögfræði
- En hvar er Elín Svafa upprunnin?
„Ég er fædd í Reykjavík en flutti síðan í Garðabæinn þar sem ég bjó þangað til ég flutti á Geysi í Haukadal árið 2010. Eftir útskrift úr Verslunarskóla Íslands hóf ég nám í lögfræði. Ég útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008. Lokaritgerðin mín var á sviði mannréttinda í viðskiptum og bar titilinn: „Responding to the human rights challenges of being a foreign owned Internet company in China.“
Áhugasvið mitt í lögfræði er á sviði mannréttinda í viðskiptum. Ég starfaði sem lögfræðingur eftir útskrift hjá embætti Tollstjóra en meðfram námi starfaði ég hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði og hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Í dag starfa ég hjá Hótel Geysi og hef gert það núna í tíu ár.
Þekking mín og reynsla úr lögfræðinni nýtist vel í rekstri fyrirtækisins og hef ég komið að ýmsum störfum innan fyrirtækisins, til dæmis markaðsmálum og fjármálum. Ég sit einnig í stjórn Geysir Glímu sem og í stjórn Hótel Geysis,“ segir Elín.
Foreldrar hennar eru þau Bjarni Thoroddsen, framkvæmdastjóri Stálsmiðjunnar/Framtaks og Ástríður H. Thoroddsen, formaður skólastjórnar Hússtjórnarskólans í Reykjavík og stjórnarkona og ritari mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.
Systkini Elínar eru þau Eyjólfur Már Thoroddsen, ljósmyndari og eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Advanced, og Bryndís Erna Thoroddsen, félagsráðgjafi og deildarstjóri Njálsgötu og Hringbrautar, sem eru úrræði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Ari fróði er ættfaðir Haukdæla
- Haukadalur er þekktur sögustaður á Íslandi en fyrir hvað er staðurinn þekktastur fyrir?
„Já, Haukdælir voru ein helsta valdaætt landsins frá því á landnámsöld og fram undir lok 13. aldar. Þeir eru kenndir við Haukadal í Biskupstungum en komnir í beinan karllegg frá Ketilbirni gamla, landnámsmanni á Mosfelli í Grímsnesi. Teitur sonur hans er sagður hafa byggt fyrstur bæ í Skálholti. Sonur hans var Gissur hvíti Teitsson, sem kom mikið við sögu kristnitökunnar og var faðir Ísleifs Gissurarsonar, fyrsta biskupsins í Skálholti. Einn þriggja sona Ísleifs var Gissur Ísleifsson biskup en annar var Teitur prestur í Haukadal, fósturfaðir Ara fróða, og hann er talinn ættfaðir Haukdæla. Teitur Ísleifsson, stofnað fyrsta lærdómssetrið hér á landi. Á Sturlungaöld voru þeir ein af fáum áberandi valdaættum í landinu og voru lengst af í bandalagi við Ásbirninga gegn Sturlungum,“ segir Elín þegar hún rifjar upp söguna af staðnum.
Glímukóngurinn Sigurður Greipsson
Sigurður Greipsson var glímukóngur Íslands 1922–1927 og stofnaði þá íþróttaskólann í Haukadal sem hann rak til 1969. Hann keppti fyrst opinberlega 13 ára gamall og stóð hann sig svo vel að hinir eldri og reyndari glímumenn áttu fullt í fangi með að verjast brögðum hans og fimi. Sigurður lærði við Hóla í Hjaltadal og æfði þar af kappi enda gæddur óþrjótandi íþróttaáhuga. Hann nam svo íþróttafræði við lýðháskólann í Voss veturinn 1919–1920 og við Íþróttaskóla Niels Bukhs í Ollerup í Danmörku.
Samhliða búskap og skólastjórn var Sigurður mjög virkur í æskulýðsmálum og var meðal annars formaður Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) í 44 ár, starfaði í stjórn Ungmennafélags Íslands og var stjórnarmaður í Íþróttasambandi Íslands. Hann hlaut riddarakross Fálkaorðunnar árið 1959 og var kjörinn heiðursformaður HSK árið 1966. Sigurður fékk sæmdarheitið Glímukóngur Íslands árið 1922 þegar hann sigraði keppnina um Grettisbeltið. Hann varð glímukappi Íslands fimm sinnum og tók þátt í tveimur glímuförum til Danmerkur og Noregs.
Dagurinn byrjaði með Müllers-æfingum
Sigurður rak íþróttaskólann ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu Bjarnadóttur, í samfellt 43 ár og munu um 900 nemendur hafa útskrifast þaðan. Einnig lét Sigurður gera sundlaug, var hún grafin niður á fasta hrúðurklöpp og veggir hlaðnir úr mýrarhnausum. Á þessum árum var enginn vegur heim að Haukadal og reyndar voru Biskupstungur að mestu óvegaðar. Nægur jarðhiti var hins vegar á Geysi og vatnsafl til virkjunar fyrir hendi. Árið 1932 var rafstöð byggð við Beiná og nýtti hann einnig hverahitann til upphitunar.
„Dagurinn byrjaði með Müllers-æfingum klukkan átta, svo var kennd heilsufræði, íþróttasaga, reikningur, íslenska, danska, bókfærsla og landafræði. Eftir hádegisverð tóku við íþróttir úti og glíma fram að kaffi. Sigurður kenndi sjálfur allar íþróttir og íþróttasögu. Hann lagði mikla áherslu á að stæla og herða nemendur og beitti fortölum og hvatningu til að fá þá til að leggja sig alla fram. Sigurður vandi nemendur sína á að hlaupa úr íþróttasalnum í sundlaugina, 20 metra, sama hvernig veðrið var,“ segir Elín brosandi.
Árið 1945 var íþróttaskólinn stækkaður og byggt vandað steinhús með leikfimisal og íbúð.
Friðrik 8. konungur heimsótti Geysi 1907
Sigurður Greipsson var augljóslega einn af frumkvöðlunum í ferðaþjónustu á Íslandi, því aðeins þrettán ára gamall var hann sendur norður í fjöll með hesta til að sækja erlenda ferðamenn, átti hann að koma niður í Eyjafjörð. Hann hafði aldrei farið þessa leið áður, var sagt vel til en villtist af leið og kom niður í Timburvalladal sem gengur út úr Fnjóskadal. Þar fór hann niður dalinn, komst til byggða og var vísað á réttar slóðir. Einnig fylgdi hann útlendingum frá Haukadal norður yfir, allt til Akureyrar og rak svo hestana lausa suður. Hann var einn fyrsti bóndinn á Íslandi sem hafði starf af að sinna ferðamönnum og fylgja þeim um landið.
„Já, frá því að hann settist að á Söndunum við Geysi árið 1927 og fram á síðustu æviár sín rak hann þar veitingasölu. Þegar von var á Friðriki 8. konungi að Geysi sumarið 1907 var byggt konungshús sem stóð lengi og kom ferðamönnum í góðar þarfir. Sigurður nýtti skólahúsið fyrir ferðaþjónustu á sumrin og stundaði ferðamannaleiðsögn,“ segir Elín.
Anddyrið (lobbíið) í nýja hótelinu er einstaklega glæsilegt og vekur athygli allra sem þangað koma. Mynd / Eyjólfur Már Thoroddsen
Már og Sigríður tóku við
Sonur Sigurðar, Már Sigurðsson, tók við rekstrinum á Geysissvæðinu ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Vilhjálmsdóttur. Már var einnig íþróttakennari eins og faðir sinn en hóf uppbyggingu á ferðaþjónustu við Geysi í Haukadal árið 1972 og helgaði sig uppbyggingunni frá árinu 1993. Nöfn Sigríðar og Más eru samofin sögu ferðaþjónustu á Íslandi og voru þau miklir brautryðjendur og frumkvöðlar á sviði ferðaþjónustu á Íslandi. Löngu áður en farið var að líta á hana sem alvöru atvinnugrein tóku þau daglega á móti fjölda innlendra og erlendra gesta og buðu upp á gistingu, mat og fræðslu. Sannfærð um að ferðamönnum ætti eftir að fjölga til muna á komandi árum byggðu þau af mikilli elju og þrautseigju upp glæsilega aðstöðu á Geysi. Að sögn Sigríðar höfðu ekki allir sömu trú á því að ferðaþjónusta á Geysi gæti orðið arðbær.
„Árið 1987 áttum við bara 150 stóla í 600 manna sal og tvær 60 bolla kaffikönnur,“ rifjar hún upp.
„Einhver benti mér á að ég ætti að geta fengið lán fyrir stærri könnu og nokkrum kollum, svo ég lét á það reyna. Bankinn velti þessu lengi fyrir sér en hafnaði svo beiðninni. Þeir höfðu engan áhuga.“
Sigríður leitaði þá til aðila sem seldu þessa hluti og þeir sáu til þess að þessir 600 gestir gætu bæði fengið tíu dropa og tyllt sér á meðan. Már hlaut riddarakrossinn árið 2005 fyrir frumkvæði í uppbyggingu ferðaþjónustu og Sigríður hlaut heiðursverðlaun Félags kvenna í atvinnulífinu árið 2016.
„Tengdaforeldrar mínir eru mínar fyrirmyndir í starfi, enda einstaklega ósérhlífnir dugnaðarforkar sem byggðu upp fyrirtækið með mikilli hugsjón og krafti,“ segir Elín.
100 starfsmenn í dag
Í dag er Hótel Geysir rekið af Sigríði Vilhjálmsdóttur ásamt dóttur hennar, Mábil Másdóttur, hótelstýru Hótel Geysis, og af Sigurði og Elínu. Geysissvæðið samanstendur af fjórum veitingastöðum en þeir eru: Geysir Glíma, Geysir veitingahús, Súpa og Kantína.
Einnig er hér þrenns konar gisting; Hótel Geysir, Litli Geysir hótel og Geysir smáhýsi. Á staðnum er einnig verslunin Geysir sem og útivistar- og minjagripaverslun sem reknar eru af Jóhanni Guðlaugssyni ásamt Súpu og Kantínu.
Á staðnum í heild sinni starfa um 100 starfsmenn. Samkvæmt könnun Ferðamálastofu þá heimsóttu 73,8% ferðamanna Suðurlandið árið 2018 og þar af komu 82% þeirra á Geysi.
„Sá fjöldi er að sjálfsögðu ekki allt okkar viðskiptavinir en við þjónustum alla þá sem heimsækja svæðið, til dæmis með bílastæðum, salernum, snjómokstri og söndun,“ segir Elín.
Eitt glæsilegasta hótel landsins
Þann 1. ágúst 2019 var opnað glæsilegt hótel á staðnum, Hótel Geysir, en það tengist núverandi þjónustu á svæðinu og gefur því heildstætt útlit. Áhersla var lögð á að byggingin væri hógvær í umhverfi sínu og endurspeglast það í formi hennar og landslagsmótun en byggingin er formuð þannig að hún skyggi sem minnst á náttúruperlur svæðisins. Hótelið er þrjár hæðir auk kjallara. Í herbergjaálmunni eru 77 herbergi, þar af 6 svítur. Öll herbergin eru með fallegu útsýni yfir sveitina. Aðalanddyri hótelsins og móttaka eru á 2. hæð með tvöfaldri lofthæð. Gluggafletir eru stórir og háir og ramma inn stórglæsilegt útsýnið yfir hverasvæðið.
Sveitarómantíkin svífur yfir vötnum
Elín segir að nýja hótelið bjóði upp á marga möguleika, stór ráðstefnusalur, fullt af misstórum herbergjum, gott aðgengi fyrir fatlaða, nokkrar svítur og þrjár hæðir af veitingastöðum og fjóra bari. En hver er markhópur hótelsins?
„Það eru gestir sem vilja njóta alls hins besta í gistingu og mat í dásamlegri náttúru. Við erum með einstaka fagmenn í eldhúsinu okkar og yfirmatreiðslumeistari okkar, Bjarki Hilmarsson, sér til þess að gestir eigi ógleymanlega kvöldstund í mat og drykk. Frá opnun hafa Íslendingar tekið okkur einstaklega vel og verið í hópi okkar stærstu viðskiptavina, sem hefur veitt okkur mikla ánægju. Við erum að hefja uppbyggingu á fjórum ráðstefnusölum og munu ráðstefnugestir vonandi verða tíðir gestir þar sem við komum til með að bjóða upp á úrvals aðstöðu fyrir ráðstefnur. Annars bjóðum við upp á eitthvað fyrir alla á svæðinu, hvort sem það eru stærri hópar eða pör sem vilja koma í sveitarómantík.“
Eitt flottasta eldhús landsins
Eldhúsið í nýja hótelinu er mjög stórt og glæsilegt og er örugglega eitt af flottustu ef ekki flottasta eldhús landsins.
„Já, það er rétt. Bjarki Hilmarsson, yfirmatreiðslumeistari okkar, hefur starfað hjá okkur í 27 ár og hannaði eldhúsið í heild sinni og valdi allan tækjabúnað, það er einstaklega glæsilegt og vel útbúið. Það var sérstaklega hugað að því að aðstaða fyrir starfsmenn væri sem allra best og ég myndi telja að frábær vinnuaðstaða byggi grunninn að þeim dásamlega mat sem er búinn til í eldhúsinu okkar. Við leggjum áherslu á að nota afurðir beint frá bónda og bjóðum upp á það allra ferskasta hráefni sem til er og því tekur matseðillinn breytingum eftir árstíðum,“ segir Elín.
Umhverfismálin í brennidepli
– Leggur fjölskyldan á Geysi ofuráherslu á umhverfismál í allri starfsemi sinni?
„Já, það gerum við svo sannarlega, enda er megin aðdráttarafl Íslands hrein og ósnortin náttúra og er Hótel Geysir í nálægð við eina helstu perlu Íslands. Við höfum tileinkað okkur sjálfbæra stefnu þar sem við viljum sameina sjónarmið náttúrunnar og þarfir gesta okkar. Við leggjum áherslu á að vernda náttúruauðlindir með ábyrgri nýtingu orku, vatns og efna um leið og við tryggjum gestum okkar fyrsta flokks þjónustu í samræmi við væntingar þeirra. Hótel Geysir er starfrækt og upphitað eingöngu með grænni og endurnýjanlegri orku. Allt rafmagn sem notað er á hótelinu er framleitt af vatnsaflsvirkjunum sem er græn orka,“ segir Elín stolt á svip og bætir við:
„Við flokkum, vigtum og sendum til endurvinnslu allt sorp og annað sem fellur til eins og kostur er. Við notum vottaðar sápur og hreinsiefni og förum sparlega með efni. Við tryggjum að starfsfólk hafi góða þekkingu og beiti viðurkenndum aðferðum í umhverfisstarfi hótelsins og fylgjumst með nýjungum í umhverfismálum. Við bjóðum ekki upp á einnota vörur sé þess kostur og við tryggjum að flokkun á sorpi sé aðgengileg, bæði fyrir starfsmenn og gesti. Innkaupastefna okkar mælir fyrir um að kaupa lífrænt vottaðar vörur ásamt vörur úr nærumhverfi okkar, sé þess kostur. Við stundum viðskipti í heimabyggð eftir fremsta megni og styrkjum góð málefni í heimabyggð.“
Geysir spa og brugghús næst á dagskrá
Elín segir að það sé ýmislegt fram undan á Geysissvæðinu, fjölskyldan sé ekki hægt að framkvæma þótt nýja hótelið sé risið.
„Nei, nei, næsti áfangi okkar í uppbyggingu á svæðinu er að fara að huga að því að gera heilsulind, Geysir spa, þar sem gestir okkar geta notið þess að fara í heitan pott, gufu og stundað líkamsrækt, enda ekki annað hægt á þessum íþróttagrunni sem við búum í. Einnig erum við byrjuð að huga að upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn sem og að endurbyggja Geysisstofuna sem er safn um náttúru Íslands og hverasvæðið þá sérstaklega og síðast en ekki síst þá stefnum við á að gera brugghús þar sem framleitt verður Geysir brennivín.“
Börnin með í vinnunni
– Elín er að lokum spurð hvað henni þyki skemmtilegast við að reka ferðaþjónustu á Geysissvæðinu og hvað það sé að gefa fjölskyldunni?
„Það skemmtilegasta er að geta hlúð að föðurarfleifð mannsins míns og að leggja sig fram um að gera það með sóma. Hér er okkar heimili líka, við störfum hér og ölum upp börnin okkar, þannig þetta er svo miklu meira er fyrirtæki í okkar augum.
Einnig er dásamlegt að geta starfað með fjölskyldunni þar sem við höfum öll sama markmið og drif. Við tökum hiklaust börnin með í vinnuna og kynnum þau fyrir fjölbreytta starfinu okkar.
Eitt það besta finnst mér er að ala upp börnin okkar í þessu góða samfélagi þar sem sveitungar okkar eru einstaklega gott fólk og mikil samheldni er í sveitarfélaginu. Ég er mjög ánægð með skólann og leikskólann og tel það algjör forréttindi að ala upp börn í sveitinni.
Árið 2015 eignuðust við Sigurður dóttur okkar Antoníu Elínu ,sem var mikill fyrirburi, hún kom í heiminn á viku 28 og var 3 merkur. Það hlýjar okkur ennþá um hjartarætur að sveitungar okkar hlupu til styrktar vökudeildinni samtals 111 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu. Það fannst okkur einstakt og sýndi samheldnina og það hefur heldur betur verið hlúð að henni í okkar góða samfélagi. Ég vil þakka öllu því einstaka starfsfólki sem kom að uppbyggingu Hótel Geysis sem og þess starfsfólks sem bæði hefur starfað hjá okkur og starfar hjá okkur í dag.
Við höfum verið einstaklega heppin með frábært samstarfsfólk en árangur okkar er hæfileikaríku starfsfólki að þakka. Mannauðurinn er okkar fyrirtæki einstaklega dýrmætur,“ segir Elín um leið og henni er þakkað fyrir viðtalið með þéttu handabandi og kossi á kinn.