Á hverfanda hveli
Árið í ár er helgað hverfandi jöklum. Íslenskir jöklar minnkuðu um 900 km2 milli áranna 2000 og 2023.
Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað árið 2025 jöklum á hverfanda hveli, og ákveðið að 21. mars ár hvert verði sérstakur alþjóðadagur jökla. Alþjóðaárið verður nýtt til að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti. Að þessu sinni mun dagur vatns (22. mars) einnig verða tileinkaður jöklum.
Jöklaárinu var formlega hleypt af stokkunum 21. janúar hjá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni í Genf í Sviss, í samstarfi við Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO) og fleiri.
Á vefnum vedur.is segir að samanlagt flatarmál jökla landsins árið 2023 hafi verið 10.200 km2 og minnkað um 900 km2 frá aldamótunum 2000. Munaði þar mestu um hörfun stærri skriðjökla Vatnajökuls, Langjökuls, Hofsjökuls og Mýrdalsjökuls. Einnig hafi um 70 litlir jöklar á Íslandi horfið á þessu tímabili og var flatarmál þeirra flestra á bilinu 0,1–3 km2 í upphafi þessarar aldar. Fyrirséð sé að fleiri jöklar muni hverfa á næstu áratugum og hafi Hofsjökull eystri á Suðausturlandi verið tilnefndur á alþjóðlegan lista yfir jökla sem eru horfnir eða eigi stutt eftir.
Alþjóðlega jöklarannsóknafélagið mun gefa út sérhefti á árinu sem tileinkað verður horfnum jöklum.