Áfram í greiðsluskjóli
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á að framlengja greiðsluskjól Hótel Sögu ehf. og Bændahallarinnar ehf. til 7. apríl 2021. Veittur er fullur 6 mánaða frestur eins og lögin heimila, talið frá deginum sem fyrra skjól rann
út, þann 7. október síðastliðinn.
Sigurður Kári Kristjánsson hæstaréttarlögmaður segir að leyfið sé það sem almennt er kallað greiðsluskjól og felur í sér að Héraðsdómur Reykjavíkur framlengir heimildir Hótel Sögu og Bændahallarinnar til fjárhagslegrar
endurskipulagningar í sex mánuði, eða til 7. apríl 2021.
„Í því felst að félögin njóta greiðsluskjóls gagnvart kröfuhöfum sínum. Forsendur þess að félögin fengu leyfið eru meðal annars að lögum um fjárhagslega endurskipulagningu væri fullnægt og ekki hafi komið fram mótmæli frá kröfuhöfum og ekki hafi verið veittar rangar upplýsingar um stöðu félaganna.“
Sigurður segir að í gangi séu virkar viðræður við nokkra aðila sem hafa áhuga á að koma að rekstri Hótel Sögu og mögulegum kaupum á fasteigninni. Ekki sé þó hægt að greina frá hverjir það séu.