Búið að opna Vitaleiðina þar sem gengið er framhjá þremur vitum
„Vitaleiðin“ svonefnda var formlega opnuð laugardaginn 12. júní með borðaklippingu en um er að ræða verkefni á vegum Markaðsstofu Suðurlands í samstarfi við sveitarfélögin Árborg og Ölfus.
Nafngiftin kemur vegna vitanna, Selvogsvita og Knarrarósvita, sem marka upphaf og enda leiðarinnar, að auki er þriðji vitinn á leiðinni en það er Hafnarnesviti í Þorlákshöfn. Vitaleiðin er tæplega 50 km leið sem liggur frá Selvogsvita í vestri að Knarrarósvita í austri.
Leiðin býður upp á fjölbreyttan ferðamáta meðfram strandlínunni, heimsóknir inn í Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri, auk vitanna þriggja. Fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar eru á leiðinni eins og sundlaugar, kajakróður, hestaleigur, hesthúsaheimsóknir, söfn, gallerí, rib-bátar og fjórhjól svo að dæmi séu nefnd. Veitingastaðir eru í öllum þorpunum.