Fá nýrri og öflugri bíl í Fjallabyggð
Slökkvilið Fjallabyggðar hefur fengið körfubíl frá Slökkviliði Akureyrar til geymslu og notkunar.
Fengu Akureyringar fyrr á þessu ári nýjan öflugan körfubíl í sína þjónustu. Slökkvilið Fjallabyggðar hafði áður bíl frá árinu 1969, 53 ára gamlan, í sinni þjónustu þannig að verulega er verið að yngja upp hjá liðinu, því körfubíllinn frá Akureyri er árgerð 1987. Hann hefur að auki verið endurnýjaður og verið vel við haldið um árin.
Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, segir á vefsíðu sveitarfélagsins að bíllinn sé mun öflugri á allan hátt og muni eiginleikar hans gjörbreyta vinnu í þeim verkefnum sem slökkviliðið þarf að takast á við.