Fimm fengu umhverfisverðlaun í Sveitarfélaginu Skagafirði
Alls voru í ár veitt fimm umhverfisverðlaun í Sveitarfélaginu Skagafirði í fjórum flokkum, en þau voru afhent nýverið.
Þetta er í 17. sinn sem verðlaunin er afhent en Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar stendur fyrir þeim auk Umhverfis- og samgöngunefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Fram kom við athöfn sem efnt var til af þessu tilefni að margt gott hefði verið gert í fegrun umhverfis í Skagafirði á liðnum árum og margt í gangi.
Tvenn verðlaun voru veitt í flokknum lóð í þéttbýli og þau hlutu annars vegar Pálmi S. Sighvats og Birgitta Pálsdóttir fyrir Drekahlíð 7 á Sauðárkróki og Hafsteinn Harðarson og Amelía Árnadóttir fyrir Reynimel í Varmahlíð.
Högni Elfar Gylfason og Monika Björk Hjálmarsdóttir fengu viðurkenningu í flokki sveitabýla með hefðbundinn búskap, en þau búa á Korná í Lýtingsstaðahreppi. Reynisstaðakirkja hlaut viðurkenningu sem lóð við opinbera stofnun en Sigurlaug Guðmundsdóttir, formaður sóknarnefndar, veitti verðlaununum viðtöku.
Verðandi, endurnýtingarmiðstöð á Hofsósi, hlaut viðurkenningu fyrir einstakt framtak og tóku forsvarskonur þess, Þuríður Helga Jónasdóttir og Solveig Pétursdóttir, við viðurkenningunni. /MÞÞ