Forsetafrúin heiðursgestur á Hip hátíð
Forsetafrúin Eliza Reid ásamt Eddu dóttur sinni heimsótti Húnaþing vestra nýverið en hún var heiðursgestur á alþjóðlegu brúðulistahátíðinni Hip festival sem haldin var á Hvammstanga.
Eliza er verndari Eyrarrósarinnar, sem er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, en Handbendi brúðuleikhús á Hvammstanga er skipuleggjandi og gestgjafi listahátíðarinnar og núverandi handhafi Eyrarrósarinnar.
Í heimsókn á dvalarheimilinu.
Dagskrá hátíðarinnar var fjölbreytt og þéttskipuð glæsilegum atriðum. Leiksýningar, vinnustofur, fyrirlestrar og kvikmyndasýningar voru þar á meðal og drógu að sér fagfólk og gesti hvaðanæva að.
Forsetafrúin snæddi kvöldverð með Gretu Clouch, eiganda Handbendis, og öðrum aðstandendum sýningarinnar á Sjávarborg. Þá heimsóttu þær mæðgur dvalarheimilið, grunnskólann, Selasetrið og Verslunarminjasafnið, auk þess að taka þátt í vinnustofu í skuggamyndagerð hjá Handbendi og heimsóknin endaði á leiksýningu í Félagsheimilinu.
Sveitarstjórn færði Elizu að gjöf bók Þórðar Skúlasonar um húsin á Hvammstanga og Eddu húfu frá Kidka prjónastofu til minningar um komuna.
Eliza ræðir við Guðrúnu Helgu Marteinsdóttur hjúkrunarfræðing og Aisha Abed Alhamad Alalou.