Álalogia II
Ólíkt öðrum fiskum sem finnast í ám og vötnum, eins og lax og silungur, leitar állinn til sjávar til að hrygna og hrygnir langt suður í Sargossa-hafi, eða Þanghafinu eins og það er kallað á íslensku. Lífhlaup þessa sérkennilega fisks hefst því í rúmlega 4.000 kílómetra fjarlægð frá Íslandi.
Þanghafið er aflangt og um það bil 6.000 metra djúpt svæði í miðju Atlantshafi og markast skil þess af hafstraumum. Svæðið er um 1.100 kílómetra breitt og 3.200 kílómetra langt og nær frá 70 gráðum vestur til 40 gráða vestur og frá 25 gráðum norður að 35 gráðum suður.
Bermúdaeyjar eru staðsettar nálægt vesturmörkum Þanghafsins og Bermúdaþríhyrningurinn þar skammt frá.
Fullvaxnir Evrópuálar hrygna í Þanghafinu út af Mexíkóflóa. Ekki hefur tekist að staðsetja hrygningarstöðvarnar nákvæmlega og enn hefur engin hrognafull hrygna eða hrogn fundist í sjó en talið er að hrygningin fari fram í febrúar til apríl á 400 til 700 metra dýpi.
Nýklaktar lirfur eru fjórir til fimm millimetrar að lengd, örmjóar og glærar en í kjaftinum á þeim eru hárbeittar bjúglaga tennur.
Frá Þanghafinu rekur seiðin með Golfstraumnum til uppeldisstöðva sinna í Evrópu og Norður-Afríku og nýjar rannsóknir sýna að það tekur þau eitt ár að komast til Íslands. Á leiðinni vaxa lirfurnar hratt úr um það bil hálfum sentímetra í nokkra sentímetra. Þegar seiðin nálgast land verða þau sívöl og líkjast fullorðnum álum í útliti nema hvað þau eru minni og glær. Hingað komin eru seiðin sex til átta sentímetra löng og kallast glerálar. Þegar þeir nálgast ströndina, í mars til júlí, verða álarnir botnlægir og fljótlega eftir það ganga þeir, oft margir saman, í ár og vötn. Göngur ála eru háðar hitastiginu í vatninu sem þeir ganga í og er gengdin meiri í hlýjum sumrum en köldum enda eru álar hitakærir. Eftir að álarnir koma í ferskvatn breyta þeir um lit og kallast eftir það gulálar. Næstu árin lifir állinn í fersku vatni, tekur út vöxt sinn og verður kynþroska.
Nýlegar rannsóknir sýna að álar hér vaxa yfirleitt vel en geta í sumum tilvikum náð háum aldri áður en þeir verða kynþroska. Hængarnir verða fullþroska fyrr, yfirleitt fimm til tíu ára gamlir, en hrygnurnar átta til fimmtán ára. Dæmi eru um það á sumum stöðum að álarnir verði mun eldri og dvelji hér yfir 20 ár. Álar geta orðið allt að hundrað ára gamlir en ólíklegt að slíkt gerist nema þar sem hann hefur lokast af. Sögur eru til af fjörgömlum álum í brunnum hérlendis, til að mynda í Skagafirði.
Ókynþroska álar í fersku vatni eru dökkbrúnir á bakinu en grænleitir á hliðunum og hvítir eða gulleitir á kviðnum. Eftir að állinn fer að nálgast kynþroska breytir hann aftur um lit, dökknar á baki en verður silfraður á kviðnum. Þá fer einnig fram mikil augnstækkun. Hann hættir að éta, magi hans og garnir skreppa saman og kynfærin þroskast. Haustið sem állinn verður kynþroska leita fullvaxta álar aftur til sjávar og taka stefnuna á Þanghafið, þar sem þeir æxla sig, hrygna og deyja.