Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Óþekkt aloe-tegund í Kirstenbosch grasagarðinum í Höfðaborg. Myndir / VH.
Óþekkt aloe-tegund í Kirstenbosch grasagarðinum í Höfðaborg. Myndir / VH.
Á faglegum nótum 23. desember 2019

Aloe – læknirinn í blómapottinum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Alexander mikli þekkti til græðandi eiginleka aloe-plöntunnar og flutti þær með sér í pottum í landvinningaferðum sínum til að græða sár hermanna sinna. Plantan er vinsæl pottaplanta hér á landi enda auðveld í ræktun. Aloe er mest ræktaða lækningaplanta í heimi.

Erfitt er að átta sig á umfangi aloe-ræktunar í heiminum enda fleiri en ein og fleiri en tvær tegundir í ræktun. Plantan er einnig nytjuð í náttúrunni vegna mismunandi eiginleika. Löndin sem mest rækta af aloe eru Ástralía, Bangladess, Kúba, Dóminíska lýðveldið, Kína, Mexíkó, Indland, Jamaíka, Spánn, Kenýa, Tansanía, Suður-Afríka og suðurfylki Bandaríkjanna Norður- Ameríku.

Þyrnar aloe eru bæði stórir og hvassir.

Áætlað er að velta á vörum framleiddum úr aloe vera árið 2018 hafi verið ríflega 253 milljónir bandaríkjadalir sem jafngildir rúmum 30,7 milljörðum íslenskra króna. Áætlanir gera ráð fyrir að sú velta verði komin í 471 milljón dollara, 57 milljarða, árið 2026.

Ekki fundust upplýsingar um innflutning á aloe eða afurðum unnum úr plöntunni á heimasíðu Hagstofunnar.

Ættkvíslin Aloe

Heimildum ber ekki saman um hversu margar tegundir teljast til ættkvíslarinnar Aloe en þær eru sagðar vera milli 250 og 500 auk þess sem til er fjöldi undirtegunda, afbrigða og yrkja. Ólíkar tegundir finnast villtar á þurrkasvæðum um sunnanverða Afríku, á Madagaskar, Jórdaníu, Arabíuskaga og eyjum í Indlandshafi. Auk þess sem plönturnar hafa aðlagað sig vel í löndunum í kringum Miðjarðarhafið, Indlandi, Ástralíu, í suðurríkjum Norður-Ameríku, Mið-Ameríku og norðurhluta Suður-Ameríku eftir að hafa verið fluttar þangað til ræktunnar.

Læknirinn í blómapottinum. Aloe vera er vinsæl pottaplanta og ætti að vera til á öllum heimilum vegna græðandi eiginleika sinna.

Sígrænar og fjölærar plöntur sem flestar vaxa upp af blaðhvirfingu þar sem þykk og safarík blöð sem annaðhvort eru þyrnótt eða án þyrna mynda rósettu með þykkum en fremur grunnt liggjandi trefjarótum sem lifa í sambýli við sveppi til að auðvelda næringarefnanám. Ummál rósettunnar er breytilegt eftir tegundum. Upp af rósettunni miðri, sem annaðhvort vex við jörðina eða myndar stofn með auknum aldri miðri, vex lauflaus blómstöngull eða stönglar sem stundum eru greinóttir og mislangir eftir tegundum. Blómin sem eru mörg saman á stöngulendunum eru pípulaga, gul, appelsínugul, bleik eða rauð.

Ýmsar tegundir innan ættkvíslarinnar, eins og til dæmis A. arborescens, A. perfoIiata, A. chinensis, A. littoralis eru í ræktun til landbúnaðar eða sem pottaplöntur auk þess sem villtar tegundir eru talsvert nytjaðar.

Tegundir eins og A. vera, A. perryi og A. ferox eru vel þekktar lækningajurtir en aðrar eru nytjaðar vegna trefjanna og tegundir eins og A. socotrina og A. barbadensis eru notaðar til að búa til bragðefni fyrir matvörur.

Tegundirnar A. vera og A. ferox eru þær aloe-tegundir sem mest eru ræktaðar í heiminum í dag og þær eru mest ræktuðu og nytjuðu lækningajurtir veraldar. Langstærstur hluti uppskerunnar er notaður til að búa til vörur sem tengjast heilsu- og snyrtivörum.

Blóm A. ferox eru mörg saman á stöngulendunum, pípulaga, gul, appelsínugul, bleik eða rauð.

Aloe ferox

Fjölær stofnplanta sem verður tveir til þrír metrar að hæð. Rósettan sem vex efst á trékenndum stofninum er með mörgum 40 til 60 sentímetra löngum og þyrnóttum blöðum en þyrnunum fækkar eftir því sem plantan eldist. Blómstöngullinn greindur og milli 60 og 120 sentímetra að hæð. Blómin rauð, gul og appelsínugul að lit, pípulaga og 2,5 sentímetra að lengd. A. ferox plöntur geta verið talsvert breytilegar eftir vaxtarstað og aðstæðum. Plantan sem er oft kölluð bitur aloe finnst villt um mest allan suðurhluta Suður-Afríku í sendnum og grýttum jarðvegi og þar sem sólar nýtur að fullu.

Aðallega ræktuð af fræi eða þá að rósettan er tekin af gömlum plöntum og látin ræta sig. Yfirleitt tekur fjögur til fimm ár fyrir fræplöntur að ná nýtingarþroska sem er þegar hvert blað rósettunnar er 1,5 til 2,5 kíló að þyngd.

Rósetta með hliðarkrönsum.
 

Aloe vera

Fjölær og sígræn planta með rósettum sem vaxa umhverfis grannan stofn sem oft er jarðlægur og verður plantan sjaldan hærri en einn metri. Blöðin vaxkennd viðkomu, græn eða grágræn, 30 til 60 sentímetra löng og snarptennt, ljósgul og eru ung blöð oft með hvítum blettum. Blómstöngullinn allt að 100 sentímetrar að hæð og greindur, blómin gul og mörg saman á stöngulendanum.
Saga og útbreiðsal

Tegundin A. vera er langsamlegast algengasta tegundin í ræktun í dag og það sem á eftir fer á að mestu um hana. Tegundin er talin vera upprunnin á suðvesturhluta Arabíuskaga og að þaðan hafi hún snemma borist til suðurhluta Indlands og Súdan. Í dag hefur plantan breiðst út með ræktun og víða náð rótfestu í náttúrunni þar sem hún hefur slæðst út frá ræktun. Meðal annars í Norður-Afríku, suðurhluta Spánar, Súdan og á Kanaríeyjum svo dæmi séu nefnd. Tegundin var flutt til Kína á sautjándu öld þar sem hún hefur komið sér vel fyrir bæði sem nytjaplanta í ræktun og í náttúrunni.

A. vera á sér langa ræktunarsögu sem lækningaplanta. Ritaðar heimildir frá Egyptalandi benda til að Forn-Egyptar hafi gróðursett aloe-plöntur meðfram aðalveginum að pýramídanum í Gísa og notað safa plöntunnar til lækninga 4000 árum fyrir Krist. Egyptar sögðu plöntuna varðveita leyndarmál fegurðarinnar og eilífs lífs og bæði Kleópatra og Nefredíta notuðu húðkrem sem unnið var úr henni til að viðhalda fegurð sinni og yndisþokka. Egyptar notuðu safa plöntunnar við smurningu náa til varðveislu og þótti safinn einstaklega bakteríu- og sveppadrepandi og hún kölluð planta eilífðarinnar. Einnig var til siðs í Egyptalandi til forna að hafa með sér aloe-plöntu í jarðarfarir sem tákn um eilíft líf. Þegar plantan blómstraði var það merki um að hinn látni hefði lokið hættulegri siglingu gegnum undirheima og náð að ströndum Duat eða handan heimsins.

Aloe feox á akri í Suður-Afríku.

Á papírus frá borginni Eber og 1550 árum fyrir kristburð er talað um að aloe sé bólgu- og kvalastillandi.
Súmverskar leirtöflur frá borginni Akkad frá því milli 2100 og 2200 fyrir Krist benda til notkunar á aloe til lækninga. Heimildir frá svipuðum tíma frá borginni Nippur í Mesapótamíu benda til svipaðra nytja auk þess sem þar segir að hin guðlega planta aloe sé góð til að hrekja út illa anda og djöfla sem tekið hafa sér bólfestu í líkama manna.

Plöntunnar er getið á Athar­vaveda-ritum Hindúa frá um 1200 fyrir upphaf okkar tímatals og hún kölluð þögli græðarinn.

Alexander mikli, uppi 356 til 323 fyrir Krist, þekkti til græðandi eiginleka plöntunnar og flutti með sér aloe-plöntur í pottum á vögnum í landvinningaferðum sínum. Sagt er að Alexander hafi særst illa af ör og sárið gróið illa þar til það var smurt með aloe-safa. Aristóteles, kennari Alexanders, sannfærði hann í framhaldinu um að hernema Socotra-eyjar í Indlandshafi og tryggja sér þannig nógan aðgang að aloe og freskum safa plöntunnar til að græða sár hermanna sinna.

Rómverjar þekktu græðandi mátt plöntunnar og rómverski grasafræðingurinn og læknirinn Pedanius Dioscorides sem var uppi á tíma Nerós keisara ferðaðist um Austurlönd til að kynna sér plöntulækningar. Í lækningabók sinni De Materia Medica segir hann aloe vera eina af sínum uppáhalds lækningaplöntum og ráðleggur hana við margs konar mannameinum eins og sárum, iðraverkjum, bólgum í gómi, liðverkjum, húð-kláða, sólbruna og hárlosi.

Upp af rósettunni miðri vex blómstöngull eða stönglar sem stundum eru greinóttir og mislangir eftir tegundum.

Pliny eldri, 23 til 79 fyrir Krist, segir í náttúrufræði sinni að besta leiðin til að lægja blæðandi niðurgang sé að sprauta aloe-smyrsli upp í endaþarminn.

Talið er að plantan hafi borist til Kína og annarra Austurlanda fjær með kaupmönnum eftir Silkileiðinni. Kínverski stjörnufræðingurinn Shi-Shen, sem meðal annars rannsakaði loftsteina og var uppi á fjórðu öld fyrir Krist, þekkti til plöntunnar. Hann sagði að aloe-plantan væri hluti af daglegu lífi Kínverja og að hún skapaði samhljóm í tilverunni. Markó Póló sagði frá plöntunni í ferðabók sinni og sagði hana mikið notaða til lækninga í Austurlöndum fjær. Plantan er einnig í hávegum höfð í Japan og kölluð konunglega jurtin og samúræjar notuðu safa hennar sem græðandi krem.

Aloe er getið nokkrum sinnum í Gamla testamentinu. Í Ljóðaljóðunum 4:14 „nardus og saffran, ilmreyr og kanel, myrru og alóe og allar dýrustu ilmjurtir“, Orðskviðunum 7:17 „Myrru, alóe og kanel  hef ég stökkt á hvílu mína.“ og Sálmunum 7:9 „Allur skrúði þinn angar af myrru, alóe og kassíu, þú gleðst af strengleik úr fílabeinshöllum.“ Grasafræðingar telja að þar sé þó um nafnarugling að ræða og að viðkomandi planta sé ekki aloe-tegund heldur tré sem á latínu kallast Aquilaruia malaccensis eða A. agallocha en þær plöntur virðast ekki hafa íslenskt heiti. Á ensku kallast A. malac­ceensis eaglewood tree, aloes­wood og paradísar­tré í íslenskri þýðingu.

Samkvæmt mið-austurlenskri þjóðsögu er aloe-tréð upprunnið í aldingarðinum Eden og eina tréð sem enn er til úr þeim garði. Sagan segir að Adam hafi haft með sér græðling af trénu og gróðursett hann þar sem hann og Eva settust að eftir brottreksturinn úr Paradís.

Nunnan, sjáandinn, tónskáldið og rithöfundurinn Hildigerður frá Bingen, sem var uppi í kringum 1100 eftir Krist, sagði að aloe læknaði margs konar sýkingar, mígreni og græddi sár.

Sagt er að Kristófer Kólumbus og fleiri kapteinar hafi haft aloe-plöntur í pottum í löngum siglingum til að græða sár skipverja og vitað er að spænskir Jesúítamunkar á sextándu öld voru duglegir að dreifa plöntunni á svæði sem hún fannst ekki fyrir. Eftir að Maya-indíánar í Mið-Ameríku kynntust plöntunni í gegnum kristniboða kenndu þeir hana við æskubrunninn.

Ungplöntur af A. ferox sem ætlaðar eru til framleiðslu á húðvörum.

Nafnaspeki

Aloe vera-plantan á sér nokkur samheiti á latínu og þar á meðal heiti eins og A. barbadensis, Aloe indica Royle, Aloe perfoliata var. vera og A. vulgaris. Auk þess sem hún gengur undir fjölda alþýðuheita eins og kínverskt aloe, Indíána eða Barbados aloe, eld aloe og skyndihjálpar plantan. Auk þess sem plantan hefur verið kölluð þögli græðarinn og læknirinn í blómapottinum.

Latneska ættkvíslarheitið Aloe er komið úr arabísku alloeh eða hebresku halal og þýðir bitur og glansandi safi eða efni. Tegundarheitið vera þýðir sannleikur.

Á íslensku þekkjast heitin blaðlilja, biturblöðungur, remmulilja og er hún líka kölluð alóa.

Nytjar

Í dag eru unnar margs konar húð- og snyrtivörur og græðandi smyrsl úr plöntunni og úr henni er unnið gel sem er notað í jógúrt, drykkjarvörur og ýmiss konar eftirrétti. Áður fyrr var gel úr plöntunni selt sem hægðalosandi en í dag er það bannað þar sem mikil inntaka á aloe getur verið hættuleg og haft slæmar aukaverkanir. Reyndar eru fáar ef nokkrar rannsóknir sem sýna að neysla á aloe í gegnum munninn sé holl.

Ræktun og umhirða

A.vera er vinsæl pottaplanta hér á landi og ætti raunar að vera til á öllum heimilum vegna græðandi eiginleika sinna. Planta er auðveld í ræktun og fátt sem drepur hana nema þá helst ofvökvun. Hún kýs sandblendna og fremur rýra mold, sem má þorna á milli á milli vökvanna, og bjartan stað en ekki endilega beina sól og kjörhiti hennar er 15°C plús. Auðvelt er að fjölga plöntunni með hliðarsprotum.

Aloe á Íslandi

Í öðru bindi Tíðinda um stjórnarmálefni Íslands 1870 er ská yfir læknisdóma, sem lyfsölumenn mega ekki selja með „meiri ávinningi,  þegar þeir eru keyptir fyrir borgin útí hönd, og keyptir er eins mikið að vikt, og tiltekið er við hverja vörutegundum sig, og þaðan meira, en 331/3 af hundrað fram yfir það verð, sem þeir fengist fyrir ef þeir væru pantaðir frá kaupmönnum þeim í Hamborg eða Kýbekk, sem selja ótilbúna læknisdóma.“ Í framhaldinu fylgir listi yfir slíka læknisdóma þar sem má finna Aloe eða alóe.

Í Búnaðar­ritinu 1894 er grein eftir Stefán Sigfússon sem nefnist Um hina helztu sjúkdóma og kvilla búpenings vors, sjer i lagi innvortis, og nokkur ráð og lyf við þeim. Í greininni segir að aloe-tiktúra sé góð við þurrum og sprungnum júgrum og spenum.

Óþekkt aloe-tegund í Suður-Afríku.

„Sprung­ur þær sem skepnur títt fá í þurrum og heitum sumrum, er einkar gott að bera fótafeiti á sem fáeinir dropar af karbólolíu hafa verið látnir drjúpa í; svo er og glycerin got til hins sama; en sjeu sprungurnar djúpar, er ráðlagt að „pensla“ þær með „aloe-tinktúri eða fínsteyttu álúni hrærðu í eggjahvítu. Annars er gamalt og gott ráð við öllum sprungum og sárum á spenum vallhumalssmyrsl, er vænta má að allir kunni að búa til.“

Á árunum milli 2000 og 2009 er mikið fjallað um hollustu aloe-afurða í íslenskum fjölmiðlum, bæði í umfjöllunum og í auglýsingum. Afurðir plöntunnar eru mærðar sem allra meina bót en minna fer fyrir umfjöllun um plöntuna sjálfa enda lítill hagnaður í að selja grunnefnið þegar hægt er að þynna það út og selja dýrara þannig. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...