,,Auðveldara að ásaka en útskýra“
Öðru hvoru eru skrifaðar greinar eða fréttir sagðar af því að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki séu að skilja hagnað eftir í útlöndum með því að skila einungis hluta af söluverði afurða sinna heim.
Í tilfelli sjávarútvegsins er þetta tvíþætt. Annars vegar sniðgangi fyrirtækin skattgreiðslu á Íslandi, lækki tekjuskatt og hugsanlega veiðigjald, og hins vegar þá séu sjávarútvegsfyrirtæki að lækka laun sjómanna en sjómenn eru á hlutaskiptum sem alkunna er. Þessi umræða á einkum við fyrirtæki sem eiga dótturfélög í útlöndum en þannig hagar til í nokkrum tilfellum.
Mikið vald í höndum embættismanna
- En hvernig er þessu farið? Geta fyrirtæki hagað verðlagningu sinni að vild milli tengdra félaga? Við fengum Harald Inga Birgisson, lögmann, Kópavogsbúa að langfeðratali og meðeiganda í Deloitte Legal, til útskýra lög og reglur um milliverðlagningu en þar hefur hann aðallega starfað við skattamál fyrirtækja.
,,Milliverðlagning er flókið fyrirbæri sem byggir þó á einföldum grunni,“ segir Haraldur Ingi. ,,Frá árinu 2015 hefur íslenskum fyrirtækjum sem hafa meira en milljarð í veltu eða heildareignir og eiga erlend dótturfyrirtæki verið skylt að útbúa skýrslu um verðlagningu milli innlendra móðurfélaga og erlendra dótturfélaga, eins og í tilfelli sjávarútvegsins, sem skattyfirvöld geta óskað eftir hverju sinni. Það sama á við með innlend félög sem eru í eigu erlendra móðurfélaga.
Þá er meginreglan sú að fyrirtæki eiga að stunda viðskipti við tengda aðila, hvort sem það eru viðskipti með afurðir, hráefni, þjónustu eða fjármagn, eins og um viðskipti milli ótengdra aðila væri að ræða og útskýra hvernig þau standa að því í þessum skýrslum. Íslenskum félögum er þannig óheimilt að flytja afurðir sínar út á of lágu verði og skilja umframhagnað eftir í útlöndum. Það sama á við erlend móður- fyrirtæki íslenskra fyrirtækja, þau mega ekki selja hráefni eða þjónustu á of háu verði eða leggja of háa vexti á dótturfyrirtæki sín og flytja hagnaðinn þannig frá Íslandi. Þótt þessi grunnregla sé í sjálfu sér ekki flókin þá er regluverkið bæði alþjóðlegt og afar matskennt og skattframkvæmd hérlendis takmörkuð og í slíku umhverfi verða til fjölmörg álitamál.“
Í umræðu um sjávarútveg hefur komið fram að verð á fiski frá Íslandi er ýmist hærra eða lægra en verð á sömu fisktegund hjá öðrum þjóðum. Þannig hefur t.d. komið fram að verð á saltfiski frá Íslandi til Portúgal er að jafnaði um 1 evru hærra en á saltfiski frá Noregi vegna betri gæða frá Íslandi. Þá er umtalsvert hærra verð á stórum saltfiski en á smáum. Verðmunurinn milli landa getur síðan sveiflast frá einu ári til annars vegna þess að íslenski fiskurinn er að jafnaði stærri en sá norski eina vertíðina og síðan smærri þá næstu. Það er líka þekkt að verð á norskum makríl hefur að jafnaði verið hærra en verð á íslenskum makríl.
Ástæða þess er að Íslendingar eru að veiða sinn makríl á tíma sem fiskurinn er í ætisleit og er að fitna. Hann er þá laus í sér og afar erfitt að flaka hann í áframvinnslu. Asíumarkaður, sérstaklega Japan, greiðir hátt verð fyrir gæði en aðrir markaðir, t.d. í Egyptalandi og Nígeríu, vilja ódýrari fisk. Það er því ljóst að þrátt fyrir að meginreglan sé einföld þá eru flókin atriði sem skipta máli.
- Hvernig gengur að útskýra það fyrir skattayfirvöldum?
,,Þetta regluverk felur starfs- mönnum Skattsins heimild til að meta armslengdarverð á vöru, þjónustu eða vöxtum og eftir atvikum leiðrétta það verð sem fyrirtækin nota. Sem betur fer er ekkert ríkisverð sem starfsmenn Skattsins beita, en þá skortir eðlilega innsýn í rekstrarlegan raunveruleika fyrirtækjanna,“ segir Haraldur Ingi.
,,Hjá starfsmönnum fyrirtækjanna er augljóslega þekking á vörunni og markaðnum og þeir þekkja reksturinn út og inn. Ef um umfangsmikil viðskipti er að ræða þá getur endurmat Skattsins á verði falið í sér verulegar fjárhæðir, enda Skattinum heimilt að horfa 6 ár aftur í tímann og leggja á 25% álag og dráttarvexti. Hér er því afar mikilvægt að skattyfirvöld gæti meðalhófs.“
- En hvað gerist ef skattayfirvöld eins lands, t.d. Íslands, ákveða hækkun verðs á útfluttum afurðum og hækka þannig skatta hér á landi?
,,Afleiðingin af því er sú að skattstofninn er þá hækkaður og þar með skattgreiðslur, en að auki er álagi og vöxtum bætt ofan á. Í framhaldinu þarf að óska eftir leiðréttingu hjá erlenda félaginu, enda búið að skattleggja hagnaðinn þar í landi og án leiðréttingar væri hagnaðurinn tvískattlagður,“ segir Haraldur Ingi. ,,Það eru dæmi þess að skattyfirvöld hafi andmælt breytingu á skattskilum sem ákvörðuð hafa verið af skattayfirvöldum annars ríkis, enda gerir regluverkið í raun ráð fyrir að þau komist að samkomulagi. Íslensk fyrirtæki sem lenda í slíku ráða litlu um framhaldið enda umgjörðin hér ekki jafn þróuð og víða annars staðar, sem er bagalegt.“
Skattyfirvöld flestra landa fylgjast með milliverðlagningu
Nýverið gekk fyrsti dómurinn á sviði milliverðlagningar og telja má að aukning verði þar á m.v. áherslur skattyfirvalda og auknar kröfur um skýrslugerð eins og áður sagði.
- En hvernig er þegar fá dómafordæmi eru, hvernig á að höndla það?
,,Það hafa fallið fjölmargir dómar erlendis í þessum efnum sem eru þá fyrirmyndir fyrir okkur og raunar eru þetta iðulega stærstu skattamálin í nágrannaríkjunum,“ sagði Haraldur Ingi. ,,Það lítur allt út fyrir að íslensk skattyfirvöld ætli að reyna á þolmörk reglnanna og seilast lengra í sínum túlkunum en æskilegt er. Ef æðra sett stjórnvöld og dómstólar fallast á slíka nálgun þá mun það skapa verulega réttaróvissu fyrir fyrirtækin.
Það er að mínu mati ekki rétta leiðin í svona flóknu regluverki sem ætlað er að dekka öll viðskipti tengdra aðila í öllum atvinnugreinum á öllum tímum.“
- En hvernig finnst Haraldi Inga umræða um milliverðlagningu vera?
,,Tónninn í umræðunni er oftar en ekki sá að fyrirtæki séu að haga þessum málum með óheiðarlegum hætti. Við sjáum það ekki í okkar störfum enda eru atvinnurekendur almennt að reyna að fylgja öllum þeim reglum sem gilda
um þeirra rekstur og nóg er af þeim. Þá er einfaldara að ásaka en útskýra þegar um svona flóknar reglur er að ræða og útskýringarnar því ekki jafn aðgengilegur og auðskiljanlegur fréttamatur,“ sagði
Haraldur Ingi að lokum.
Lesendum til upplýsingar og fróðleiks: Höfundur er búfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Vinnslustöðin er sjávarútvegsfyrirtæki sem á og rekur útgerð og fiskvinnslu á Íslandi og sölu- og framleiðslufyrirtæki í útlöndum. Félagið er því undir eftirliti innlendra og erlendra skattyfirvalda hvað milliverðlagningu varðar. Haraldur Ingi hefur aðstoðað Vinnslustöðina við gerð skýrslna um milliverðlagningu.