Betri nýting áburðar – betri afkoma
Nú liggur fyrir að mikil hækkun er á áburðarverði milli ára. Kaup á tilbúnum áburði hafa verið stærsti einstaki kostnaðarliðurinn á sauðfjárbúum og sá næststærsti á kúabúum og því verður þessi hækkun mjög íþyngjandi fyrir rekstur þessara búa sem og annarra sem þurfa að heyja í bústofninn.
Ekki er víst að öll bú geti brugðist við með því að minnka áburðarkaup sem neinu nemur án þess að uppskera af heyi dragist saman. Í einhverjum tilvikum er það þó sennilega hægt og verða hér nefnd nokkur atriði sem velta má fyrir sér í því sambandi.
Þegar verið er að skipuleggja áburðarkaup er mikilvægt að gera sem besta áburðaráætlun en til þess er nauðsynlegt að áætla fóðurþörf komandi árs með nokkuð nákvæmum hætti. Þarf þannig að áætla bústofn næsta vetrar, hverjar fóðurþarfir eru á hverja tegund búfjár eftir tíma ársins og hversu mikið heildarmagn gróffóðurs þarf að vera til af hverjum gæðaflokki.
Jarðvegur og forði næringarefna
Þegar meta skal hve mikið þarf að bera á eru ýmsir þættir sem þarf að meta og geta sagt til um áburðarþörfina. Jarðvegur er misjafnlega frjósamur og misjafnt hve mikið hann geymir af plöntunærandi efnum. Sýrustig jarðvegs er mikilvægt, þannig má reikna með að í jarðvegi með lágt sýrustig (lágt pH gildi) séu mikilvæg næringaraefni minna aðgengileg plöntum en í lítið súrum jarðvegi með heppilegu sýrustigi. Þetta á m.a. við um fosfór sem binst fast við járn og ál í súrum jarðvegi. Sé sýrustig jarðvegs á hæfilegu bili, pH um eða yfir 6 má reikna með bestri nýtingu áburðarins.
Við langvarandi notkun á áburði byggist upp forði í efsta lagi jarðvegsins af þeim efnum sem áburðurinn inniheldur, það á ekki síst við ef notkun á búfjáráburði hefur verið regluleg. Hve mikil áburðargjöfin hefur verið ræður því hvort og þá hversu mikil þessi forðasöfnun verður. Við þessar aðstæður þarf uppskera ekki endilega að minnka þó tímabundið sé dregið úr áburðargjöf, a.m.k. í hagstæðu árferði.
Uppsöfnun næringarefna úr áburðinum er mest í efstu 5-10 cm jarðvegsins. Þegar tún er plægt upp lendir þessi forði að miklu leyti neðst í plógstrengnum sem þýðir að hann er ekki að nýtast þeim plöntum sem sáð er í flagið fyrr en rótarkerfi þeirra nær þeirri dýpt og er breytilegt milli tegunda hve auðveldlega þær ná í þennan forða. Sumt grænfóður gerir það og getur gefið mikla uppskeru með hóflegri áburðargjöf við þessar aðstæður. Við endurteknar plægingar blandast næringarefnin í jarðveginn, í það lag sem nemur plógdýptinni.
Helstu næringarefni
Það er mikilvægt að bera á hæfilegt magn af áburði til að fá það uppskerumagn sem stefnt er að, en áburðargjöfin hefur einnig áhrif á fóðurgæðin, s.s. innihald af próteini og steinefnum. Sum fóðurefnin, til dæmis prótein, er mikilvægt að hafa í réttu magni í heyjum og það má gera með réttri áburðargjöf. Önnur efni eins og ýmis steinefni getur verið hagkvæmara að kaupa í steinefnablöndum frekar en að ná með aukinni áburðargjöf sem ekki gefur meiri uppskeru. Til að ákveða áburðarþarfir einstakra spildna má nota almennar töflur um áburðarþarfir eins og finna má m.a. á heimasíðu RML, en til að meta hvort áburðargjöf líðandi árs hafi verið hæfileg má hafa mikið gagn af heyefnagreiningum og varðandi áburðargjöfina til lengri tíma einnig af jarðvegsefnagreiningum. Sem dæmi um notkun heyefnagreininga má nefna prótein í heyi sem mat á magni köfnunarefnisáburðar. Kjörmagn köfnunarefnis í uppskeru m.t.t. sprettu mælt sem innihald af hrápróteini er 150-175 g/kg þe. Sé hráprótein 130 g/kg þe eða lægra má reikna með að viðbót af köfnunarefnisáburði hefði gefið aukna uppskeru ef aðstæður, s.s. þurrkur eða önnur slæm vaxtarskilyrði, hindra það ekki. Kjörmagn fyrir fosfór í heyi er um 2,2-3,5 g/kg þe og kalí um 18-25 g/kg þe. Ef fosfór í heyi er aðeins 2,2-2,5 g/kg þe eða lægra og ef kalí er um 13-15 g/kg þe eða lægra myndi meira magn áborið af viðkomandi næringarefni líklega hafa aukið uppskerumagn. Aukinn fjöldi heysýna með lágu innihaldi af kalí bendir til að sums staðar sé lágt kalí að hamla sprettu og þar þurfi að auka kalígjöf. Þegar innihald einstakra efna er mjög hátt í heyi er mjög líklegt að minnka megi áburðargjöf á viðkomandi næringarefnum án þess að uppskera verði minni. Viðmið sem þessi eru hjálpleg en þarf þó að taka með fyrirvara þegar árferði veldur óeðlilegri sprettu grasa með einhverjum hætti. Hér er alltaf mælt með að heysýni séu tekin á hverju ári.
Þegar verið er að túlka niðurstöður heysýna þá eru sett ákveðin staðalviðmið samkvæmt rannsóknum sem eru birtar í efnagreiningarniðurstöðum. Það þarf að hafa í huga að þetta eru meðalviðmið og geta ýmsir þættir haft áhrif þannig að niðurstaðan falli ekki að viðmiðum, svo sem sláttutími, rakastig, hitastig og fleira. Það sem skiptir mestu máli í túlkun heysýna er að túlka þau eftir aðstæðum hverju sinni. Það er til dæmis eðlilegt að efnainnihald í seinslegnum heyjum sé lægra en í snemmslegnum heyjum. Ef hitastig fyrri part sumars er hátt en fellur hratt þegar líður á sumar er líklegt að efnainnihald gróðurs falli hraðar en ef hitastig helst stöðugt. Að sama skapi er líklegt að ef kalt er fyrri part sumars haldi gróður efnainnihaldi lengur fram á haustið.
Búfjáráburður, efnamagn og þurrefni
Það er mikilvægt að nýta þann búfjáráburð sem fellur til á búinu sem allra best og má með því spara talsvert í kaupum á tilbúnum áburði. Besti tíminn til dreifingar er þegar grös eru að byrja eða komin af stað í sprettu að vori en einnig milli slátta eða tímanlega á haustin. Rétt er að minna á þætti í veðurfari við dreifingu sem hafa áhrif á nýtingu köfnunarefnis úr búfjáráburðinum en það eru hitastig, vindur og raki eða úrkoma. Best er að dreifing fari fram í logni, við lágt hitastig og röku lofti, helst að það rigni hæfilega eftir dreifingu. Að sama skapi er ekki gott að dreifa á þegar hlýtt er í veðri, þurrt og vindur. Nýting á köfnunarefni úr mykju verður betri eftir því sem mykjan er þynnri. Reikna má með að þetta gildi fyrir mykju sem inniheldur niður í 2% þurrefni.
Mælingar hafa sýnt að innihald búfjáráburðar er breytilegt milli búa og getur þar munað nokkuð miklu á einstökum næringarefnum og hlutföllum þeirra. Það getur því verið ónákvæmt að notast við töflugildi til að meta áborin næringarefni úr búfjáráburði. Til að vita vissu sína um innihald hans ættu bændur því að taka sýni úr honum á því formi sem hann er við dreifingu. Mikilvægt er þá að vita bæði efnainnihald og þurrefni. Ekki er síður mikilvægt að vita hvað þurrefnið er í mykjunni þegar henni er dreift til að geta reiknað áborið magn næringarefna.
Það er þetta með sparnaðinn ...
Þegar áburðarverð hækkar svo mikið sem núna lítur út fyrir að verði afar freistandi að spara verulega í áburðarmagni á móti. Hér þarf þó að gæta þess að spara sér ekki til skaða þar sem sparnaður í næringarefnum getur bæði minnkað uppskerumagn þannig að uppskera verði of lítil, gæði uppskeru geta orðið of lítil ásamt því að gengið verði á næringarefnaforða jarðvegis. Jafnframt getur of mikill sparnaður í áburðargjöf valdið minnkun afurða og þar með gæti sá sparnaður sem fyrirhugaður er í áburðarmagni lækkað tekjur þannig að ávinningurinn sé enginn. Því gildir hér að gæta meðalhófs. Gera nákvæmar áætlanir, spara þar sem færi gefast og vanda síðan vel til allrar meðferðar og dreifingar á áburðinum.
Eiríkur Loftsson
ráðunautur, rekstrar- og umhverfissvið
el@rml.is
Sigríður Ólafsdóttir
ráðunautur, rekstrar- og tæknisvið
so@rml.is