Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Líffræðilegur fjölbreytileiki er alltaf bestur. Með því að hafa gróðurinn fjölbreytilegan og velja réttar plöntur sem henta veðurfari og jarðvegi á hverjum stað fyrir sig búum við til skjól og æti og löðum að alls konar pöddur, bæði skaðvalda og náttúrulega óvini þeirra sem hjálpa okkur í baráttunni við óvelkomnu pöddurnar.
Líffræðilegur fjölbreytileiki er alltaf bestur. Með því að hafa gróðurinn fjölbreytilegan og velja réttar plöntur sem henta veðurfari og jarðvegi á hverjum stað fyrir sig búum við til skjól og æti og löðum að alls konar pöddur, bæði skaðvalda og náttúrulega óvini þeirra sem hjálpa okkur í baráttunni við óvelkomnu pöddurnar.
Mynd / BBR
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vildu vera lausir við. Garðyrkjuskólinn í Ölfusi stóð fyrir haustþingi um plöntusjúkdóma, meindýr og varnir gegn þeim. Bryndís Björk Reynisdóttir garðyrkjufræðingur fjallaði í erindi sínu um plöntuvarnarefni og aðrar varnir gegn meindýrum í garð- og trjárækt.

Bryndís Björk Reynisdóttir garðyrkjufræðingur.

Bryndís hóf erindi sitt á stuttri umfjöllun um uppbyggingu lífríkisins og nauðsyn þess að hafa fjölbreytt plöntuval í garð- og trjárækt til að laða að fjölbreytta fánu skordýra sem dregur úr hættunni á að ein tegund verði ríkjandi og geti þannig valdið miklum skaða.

Löðum að alls konar pöddur

„Með því að hafa gróðurinn fjölbreytilegan og velja réttar plöntur sem henta veðurfari og jarðvegi á hverjum stað fyrir sig búum við til skjól og æti og löðum að alls konar pöddur, bæði skaðvalda og náttúrulega óvini þeirra sem hjálpa okkur í baráttunni við óvelkomnu pöddurnar. Þetta snýst um jafnvægi á milli góðu og slæmu gæjanna. Til dæmis má nefna skaða í birkiskógum þegar birkikemba fór að valda usla á vorin og á síðustu árum hefur birkiþéla svo skilið birkið eftir illa útleikið á haustin.

Birkiskógar landsins sem verða fyrir árásum bæði að vori og hausti líta þar af leiðandi ekkert svakalega vel út á meðan þessum árásum stendur en ef skógarnir eru blandaðir ber minna á skaðanum á birkinu á meðan það er að aðlagast þessum nýju óværum eins og það getur.

Það á svo frekar við í garðræktinni að meindýrin geta leitað skjóls í illgresi í nágrenni við nytja- og skrautplönturnar okkar og þarf þá að fjarlægja það illgresi til að koma í veg fyrir að það hýsi meindýr ásamt því að ræna nytjaplönturnar okkar sólarljósi, vatni og næringu ef út í það er farið.“

Bryndís segir að þegar kemur að baráttunni við illgresið sé hægt að reyta það, setja þekju yfir það og brenna það burt með gasbrennara.

Aphitoletes lirfa, lífræn vörn, gæðir sér á lús.
Lífrænar varnir í gróðurhúsum

„Ég er meiri innipúki en skógarpúki og þekki þar af leiðandi aðkeyptu lífverurnar sem notaðar eru sem lífrænar varnir í gróðurhúsum landsmanna.“

Við varnir gegn óværu í gróðurhúsum sem framleiða íslenskar matjurtir er lítið sem ekkert notað af plöntuverndarvörum og mest viðhafðar lífrænar varnir eins og rándýr, sveppir, bakteríur og lyktarefni.

„Íslenskir ylræktarbændur eru ótrúlega flinkir að lesa í plönturnar sínar, sjá hvenær þær eru undir álagi vegna meindýra og grípa til lífrænna varna áður en mikill skaði verður. Lífrænar varnir vinna vinnuna sína mjög vel við þær ákjósanlegu aðstæður sem eru í gróðurhúsunum. Lykilatriði er þó að setja þær inn í húsið á réttum tíma, í byrjun árása meindýranna, en ekki þegar fjöldi meindýra er orðinn það mikill að það er ekki raunhæft að þær nái að vinna bug á meindýrunum. Það er ekki mjög sanngjarn slagur.“

Virka ekki vel undir 16 gráðum Celsíus

„Ókosturinn við lífrænar varnir er að þær virka ekki vel við hitastig undir 16o á Celsíus og að þau eru fæst breiðvirk. Pöddur sem eru notaðar við lífrænar varnir eru að vissu leyti eins og við mannfólkið og eiga sinn uppáhaldsmat. Sumar láta sig samt hafa það að nærast á öðru en uppáhaldsmatnum og eru því frekar valdar í gróðurhúsin þegar fleiri en ein tegund meindýra skjóta upp kollinum.“

Að sögn Bryndísar eru allar innfluttar lífrænar varnir leyfisskyldar frá MAST og hafa farið í gegnum strangt mat áður en þær eru leyfðar til að hafa ekki neikvæð áhrif á það lífríki sem til staðar er á einangruðu eyjunni okkar. Tilkynna ber allar sendingar af lífrænum vörnum sem til landsins koma og er það MAST sem tekur við þeim tilkynningum.

„Lífrænar varnir eru yfirleitt ekki fyrirbyggjandi, þó séu undantekningar á því, og því lítið gagn í þeim ef engin fæða er til staðar. Við verðum einnig að huga að því að ef grípa þarf til notkunar á eiturefnum þarf aðgerðin að vera hnitmiðuð svo að hún drepi ekki líka gagnlegu pöddurnar.

Því þarf að hafa sem ákjósanlegastar aðstæður fyrir plönturnar og byggja þannig upp þol þeirra fyrir óværum. Við þurfum að hafa plönturnar okkar vel nærðar, við ákjósanlegar aðstæður og á réttum stað.“ Dæmi um lífrænar varnir sem beita má í gróðurhúsum eru vespur, títur, mý og bjöllur sem vinna meðal annars gegn blað-, mjöllús, kögurvængjum og mítlum.

Aðgerðaráætlun til ársins 2031

„Samkvæmt aðgerðaráætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá 2016–2031 þurfa allar plöntu- verndarvörur að hafa gengist undir áhættumat áður en þær eru settar á markað hér á landi.

Slíkt mat er kostnaðarsamt og undanfarin ár hefur skráningum slíkra vara fækkað og innflutningur þeirra dregst saman.

Úrval þeirra er því takmarkað miðað við fyrri ár og notkun á þeim hefur minnkað.“ Bryndís segir að þetta hafi bæði kosti og galla.

„Kosturinn er að við notum minna af varnarefnum sem skili okkur í betra umhverfi fyrir fólk og þeim starfsmönnum sem sinna úðun og heilnæmari garðyrkjuafurðum en ókosturinn er að það getur verið varasamt ef ný meindýr nema hér land og ekki fyrir neinar varnir gegn þeim. Eins verður mun meiri hætta á því að meindýr og plöntur myndi þol gegn efnunum ef notast er við sömu efnin eða efni með sömu virkni ár eftir ár. Því þurfum við að hafa aðgang að fleiri efnum til að geta gripið til.

Ég tel að ein lausnin á þessu geti legið í samstarfi við Norðurlöndin um skráningu plöntuverndarvara sem ekki eru skráð hérlendis. Þar sem markaðssvæði okkar á Íslandi er svo lítið eru framleiðendur efnanna ekki alltaf æstir í að skrá vörurnar sínar að fyrra bragði hérlendis vegna lítillar sölu á móti kostnaði við skráningar. Þess vegna þurfum við að fylgjast með því hvaða lausnir eru viðhafðar í nágrannaríkjum okkar og sækja um gagnkvæmar skráningar á efnum sem virka og gætu nýst okkur ef vandamál koma upp í ræktun hérlendis af völdum sjúkdóma og meindýra.“

Plöntuverndarvörur

Umhverfisstofnun heldur utan um skráningar, innflutning, notkun og leyfi sem snýr að notkun plöntuverndarvara. Allar þær plöntuverndarvörur sem leyfðar eru hérlendis falla í tvo mismunandi flokka; almenn notkun og notendaleyfisskyld notkun.

Fyrri flokkurinn inniheldur vörur sem eru til sölu fyrir almenning í garðyrkjuverslunum eða byggingarvöruverslunum. Við kaup á efnum í síðari flokknum þarf að hafa notendaleyfi til að nota þau og geyma og óheimilt að afhenda plöntuverndarvörurnar í notendaleyfisskylda flokknum til aðila nema sá hinn sami geti sýnt fram á að hafa gilt notendaleyfi.“

Asparglyttupar að gæða sér á alaskaösp.

Val á efnum

Öll plöntuvarnarefni sem eru í boði hér á landi eru skráð á heimasíðu Umhverfisstofnunar og þegar efni eru valin til notkunar verður að velja það með hliðsjón af hvaða meindýr á að nota það á.

„Við val á efni verður að hafa í huga hvernig virkni þess er og hvort það er snerti- eða kerfisvirkt og pöddurnar sem á að losna við verða að vera til staðar.

Til þess að kerfisvirk efni skili sínu þurfa meindýrin að éta af plöntunum sem eru úðuð með þeim og snertivirk efni virka ekki nema meindýrin fái þau á sig. Fyrirbyggjandi úðun er yfirleitt eyðsla á fjármunum og vinnu þar sem efnin vinna yfirleitt ekki á eggjum meindýranna sem eiga þá eftir að klekjast út eftir úðunina.

Sem sagt meindýrið verður að vera til staðar til þess að hægt sé að úða gegn því. Mörg meindýr eiga líka sína uppáhaldsplöntu sem þau leggjast á og því oft óþarfi að úða allar plönturnar í garðinum.“

Hér má sjá þá völundarsmíði sem geitungabú er. Þar sem þetta bú var ansi nálægt útivistarsvæði var það fjarlægt sökum árása geitunganna á mannfólkið í nágrenninu. Búið var fryst, tekið í sundur og skoðað. Búið fór að lokum í lokaðan gegnsæjan kassa og var sýnt leikskólabörnum.

Snýst um jafnvægi

Bryndís segir að ef grípa þarf til plöntuverndarvara myndi hún eingöngu nota þau á pjattplönturnar sínar. „Plöntur sem eiga erfitt með að koma sér vel fyrir vegna veðurfars eða þær sem eru viðkvæmar fyrir árásunum til að halda í þeim lífinu.

Annars eigum við að hafa allt lífríkið í garðinum þar sem þetta snýst um jafnvægi. Geitungar, köngulær, netvængjur, svifflugur, klaufhalar, bjöllur, varmasmiðir, margfætlur og vespur eru allt náttúrulegir óvinir meindýranna sem við erum yfirleitt að glíma við og þessa góðu gæja viljum við hafa í garðinum okkar, svo ekki sé minnst á humlur og ánamaðka.

Í skógrækt getur reynst erfitt að úða allan skóginn og stundum eina ráðið að úða jaðra hans, plöntur sem eiga undir högg að sækja vegna meindýra og eftirlætisplönturnar sem eiga erfitt uppdráttar. Mitt persónulega mat er þó að notkun plöntuverndarvara ætti alltaf að vera síðasta úrræðið sem við grípum til í garð- og skógrækt,“ segir Bryndís Björk að lokum.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...